Góðar fréttir

15. apríl 2020

20 sigrar í mann­rétt­inda­bar­átt­unni

Samstaða er mikilvæg á þessum óvissu­tímum þegar kórónu­veirufar­ald­urinn geisar. Á tímum sem þessum er mikil­vægt að horfa á það jákvæða og sjá hverju samtaka­mátt­urinn getur áorkað. Á síðustu mánuðum hafa ýmsir sigrar unnist í mann­rétt­inda­bar­átt­unni. Það er mikil­vægt að fagna hverjum sigri og ekki síst núna þegar kvíðinn og óttinn er skammt undan. Hér eru 20 sigrar sem sýna fram á samtaka­máttinn í mann­rétt­inda­bar­átt­unni. Fjöl­margir aðgerða­sinnar hafa verið leystir úr haldi, löggjöfum hefur verið breytt í þágu mann­rétt­inda og dómar mild­aðir.

Afríka

Þung­uðum stúlkum veitt aðgengi að menntun á ný í Síerra Leóne

Ein hræði­leg­asta afleiðing ebólu-farald­ursins sem herjaði á Afríku árin 2014 til 2015 var gífurleg fjölgun þungana unglings­stúlkna. Í mörgum tilfellum var um að ræða stúlkur í viðkvæmri stöðu vegna foreldram­issis. Viðbrögð stjórn­valda við fjölg­un­inni var að meina þung­uðum unglings­stúlkum um skóla­göngu og próf­töku. Banninu var loks aflétt í lok mars 2020. Þung­aðar unglings­stúlkur geta haldið menntun sinni áfram þegar skólar opna á ný eftir að kórónu­veirufar­ald­urinn gengur yfir. Íslands­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á málinu með undir­skrifta­söfnun í byrjun mars 2020.

„Innbyggð mismunun fylgdi banninu sem sett var á fyrir næstum fimm árum síðan. Alltof margar ungar konur hafa verið sviptar rétt­inum til mennt­unar sem takmarkaði val þeirra um framtíð sína,“ segir Marta Colomer, starf­andi fram­kvæmda­stjóri yfir Vestur-og Mið-Afríku­deild Amnesty Internati­onal.

Aðgerðasinni leystur úr haldi eftir geðþótta­varð­hald í Miðg­baugs-Gíneu

Aðgerðasinninn Joaquin Elo Ayeto var leystur úr haldi án skýr­inga eftir honum hafði verið haldið að geðþótta í næstum ár. Hann var sakaður um að leggja á ráðin um morð á forseta landsins.

„Mér var sagt frá því sem Amnesty Internati­onal gerði fyrir mig. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir framlag ykkar sem varð til þess að ég var leystur úr haldi.“

Blaða­maður í Níger sem birti færslu um grun á kórónu­veiru­smiti laus úr haldi

Blaða­mað­urinn Mamane Kaka Touda var leystur úr haldi eftir þrjár vikur í haldi þann 26. mars 2019. Hann sætti varð­haldi í þrjár vikur fyrir færslu á samfé­lags­miðli um grun á kórónu­veiru­smiti á spítala. Hann fékk þriggja mánaða skil­orðs­bundinn dóm og tákn­ræna sekt sem samsvarar rúmlega 200 íslenskum krónum. Íslands­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á máli Mamane Kaka Touda í sms-aðgerðaneti Amnesty Internati­onal í mars 2020.

„Ég vil þakka öllum og hvetja þá sem voru virkj­aðir til að kalla eftir lausn minni. Geðþótta­hand­tökur og varð­hald verða ekki stöðv­aðar nema við höldum áfram baráttu okkar. Ég er þakk­látur, takk fyrir!“

Aðgerðasinni í Senegal laus úr haldi

Aðgerðasinninn Guy Marius Sagna var leystur haldi þann 3. mars 2020. Tvisvar hafði beiðni hans um tíma­bundna lausn verið hafnað. Hann hefur reglu­lega verið hand­tekinn. Síðast var hann hand­tekinn þann 29. nóvember 2019 fyrir óleyfi­lega samkomu og uppreisn. Átta aðrir aðgerða­sinnar voru einnig hand­teknir og leystir úr haldi frá desember til febrúar 2020. Allir standa frammi fyrir ákærum. Íslands­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á máli Guy Marius Sagna sumarið 2019 þar sem hann stóð frammi fyrir ákærum. Amnesty Internati­onal heldur áfram að fylgjast með máli hans.

Evrópa og Mið-Asía

Baráttu­kona fyrir hinsegin málefnum leyst úr stofufang­elsi í Rússlandi

Yulia Tsvet­kova, lista­kona og aðgerðasinni, var leyst úr stofufang­elsi. Hún var skot­mark stjórn­valda vegna baráttu sinnar fyrir málefnum hinsegin fólks. Yulia var sett í stofufang­elsi í nóvember 2019 og ákærð fyrir fram­leiðslu og dreif­ingu kláms vegna teikn­inga hennar af kven­líkama. Hún stendur enn frammi fyrir allt að sex ára fang­els­isdóm.

Baráttu­kona laus úr haldi af geðdeild eftir þvingaða innlögn í Úsbekistan

Nafosat Ollos­hkurova, bloggari og baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum, var leyst úr haldi af geðdeild í lok desember 2019. Hún var hand­tekin fyrir að fylgjast með og fjalla um frið­samleg mótmæli í sept­ember 2019. Þremur dögum síðar var hún sett á geðdeild þar sem henni var haldið og hún þvinguð í lækn­is­með­ferð. Yfir­völd í Úsbekistan hafa áður beitt þving­uðum innlögnum á geðdeild gegn mann­rétt­inda­fröm­uðum og fjöl­miðla­fólki.

Sjálf­boða­liði ákærður vegna mann­úð­ar­starfa sýkn­aður í Frakklandi

Franskur fjalla­leið­sögu­maður, Pierre Mumber, var ákærður eftir að hafa boðið fjórum umsækj­endum um alþjóð­lega vernd frá Vestur-Afríku sem komu óskráðir inn í Frakk­land, heitt te og hlý föt. Hann var ákærður fyrir að aðstoða þá yfir landa­mærin. Hann var að lokum sýkn­aður að áfrýjun lokinni í nóvember 2019. Mál hans er eitt af fjöl­mörgum í Evrópu þar sem herjað er á þá sem vinna mann­úð­ar­störf í þágu farand- og flótta­fólks í Evrópu. Nánar um málið.

Ameríka

Dauðarefs­ingin afnumin í Colorado í Banda­ríkj­unum

Ríkis­stjóri í Colorado hefur skrifað undir laga­frum­varp um afnám dauðarefs­ing­ar­innar. Colorado er þar með 22. fylkið sem hefur afnumið dauðarefs­inguna í Banda­ríkj­unum. Amnesty Internati­onal setur sig gegn dauðarefs­ing­unni í öllum tilvikum. Hún er óaft­ur­kræf og dregur ekki úr glæpa­tíðni. Banda­ríkja­deild Amnesty Internati­onal hefur unnið hörðum höndum að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar þar í landi.

Sjálf­boða­liði fyrir mann­úð­ar­störf sýkn­aður í Banda­ríkj­unum

Í nóvember 2019 sýknaði dómstóll í Arizona í Banda­ríkj­unum sjálf­boða­liðann Scott Warren fyrir að veita farand­fólki athvarf eftir að hann veitti tveimur einstak­lingum mat, vatn og húsa­skjól. Hann er sjálf­boða­liði fyrir samtök sem skilja eftir neyð­ar­birgðir fyrir farand­fólk við landa­mæri Banda­ríkj­anna og Mexíkó. Mál hans er ekki einstakt en ríkis­dómari ógilti einnig sakfell­ingu fjög­urra annarra sjálf­boða­liða í mann­úð­ar­störfum fyrir svip­aðar sakargiftir.

Asía

Baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum laus úr haldi í Víetnam

Tram Thi Nga, baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum, var óvænt leyst úr haldi eftir þrjú ár í fang­elsi í janúar 2020. Hún hafði fengið níu ára fang­els­isdóm árið 2017 fyrir áróður gegn ríkinu eftir að hún tók þátt í mótmælum vegna umhverf­is­slyss. Tran Thi Nga samþykkti útlegð sem skil­yrði fyrir lausn sinni. Hún er nú komin til Banda­ríkj­anna ásamt fjöl­skyldu sinni.

„Ég þakka Amnesty Internati­onal fyrir þrot­lausa baráttu fyrir frelsi mínu. Ég er ánægð að fjöl­skylda mín sé loks sameinuð og fær að búa í friði. Það eru hins vegar enn margir samviskufangar í Víetnam og ég vona að Amnesty Internati­onal haldi áfram að berjast fyrir frelsi þeirra.“

Forsæt­is­ráð­herra Pakistan tilkynnir áætlun um að draga úr gífur­legri loft­mengun

Í lok síðasta árs tilkynnti forsæt­is­ráð­herra Pakistan áætlun um að draga úr gífur­legri loft­mengun í Pakistan, aðeins nokkrum dögum eftir að herferð Amnesty Internati­onal hófst. Þetta var fyrsta opin­bera tilkynning stjórn­valda um aðgerða­áætlun vegna loft­meng­unar og því má gera ráð fyrir að herferðin hafi haft áhrif.

Loft­mengun í Punjab, fjöl­menn­asta svæði Pakistan, hefur verið það mikil að loka hefur þurft skólum og fólk fundið fyrir sviða við öndun. Meng­unin hefur mælst langt yfir heilsu­mörkum og suma daga mældist hún sú allra mesta í heim­inum. Amnesty Internati­onal fagnar þessu fyrsta skrefi og fylgist með fram­vindu mála.

Dauða­dómur mild­aður í Víetnam í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal

Dauða­dómur yfir Hồ Duy Hải var mild­aður í lok árs 2019 í Víetnam. Hann hefur tvisvar verið nærri tekinn af lífi. Gallar voru á máls­með­ferð hans og hann segist hafa verið pynd­aður til að játa á sig morð og þjófnað. Mál hans var til umfjöll­unar þegar árleg skýrsla Amnesty Internati­onal um dauðarefs­ingar var gefin út fyrir árið 2018. Móðir hans þakkaði Amnesty Internati­onal fyrir að bjarga lífi sonar síns

Róhingja­börn fá aðgang að menntun í flótta­manna­búðum í Bangla­dess

í janúar 2020 samþykktu stjórn­völd í Bangla­dess að Róhingja­börn í flótta­manna­búðum fengju loks aðgengi að menntun, tveimur og hálfu ári eftir að þau þurftu að flýja heimili sín í Myanmar vegna þjóð­armorðs. Stjórn­völd í Bangla­dess höfðu áður vikist undan að veita þeim menntun. Amnesty Internati­onal hafði lengi kallað eftir því að réttur Róhingja­barna til mennt­unar væri virtur.

Alþjóða­dóm­stóllinn fyrir­skipar aðgerðir til verndar Róhingjum í Myanmar

Alþjóða­dóm­stóllinn í Haag hefur fyrir­skipað Myanmar að grípa til aðgerða til að hindra frekari þjóð­armorð gegn Róhingjum. Um 600 þúsund Róhingjar búa enn þar í landi og er þeim á kerf­is­bundinn hátt neitað um rétt­indi sín. Þeir eru því enn í hættu. Gambía fór með málið til dómstólsins í nóvember 2019 fyrir brot á sátt­mála um ráðstaf­anir gegn og refs­ingar fyrir hópmorð.

Miðausturlönd

Tíma­bundið leyfi úr fang­elsi vegna kórónu­veirufar­ald­ursins í Íran

Írönsk stjórn­völd hafa herjað á einstak­linga með tvöfalt ríkis­fang. Nazanin Zaghari-Ratcliffe er meðal þeirra en hún hefur verið í haldi frá 2016. Hún var hand­tekin í Íran fyrir njósnir í heim­sókn til fjöl­skyldu sinnar með nýfædda dóttur. Á síðasta ári fékk dótt­irin loks leyfi til að fara heim til föður síns í Bretlandi. Nazanin fékk nýverið tíma­bundið leyfi úr fang­elsi vegna kórónu­veirufar­ald­ursins.

Írönsk yfir­völd hafa verið að veita tíma­bundið leyfi gegn trygg­ingu til að hemja útbreiðslu kórónu­veirunnar í fang­elsum. Af sömu ástæðu hafa einstak­lingar verið náðaðir sem eru með fimm ára fang­els­isdóm eða styttri dóm fyrir brot gegn „öryggi“ en það eru gjarnan fangar sem eru í haldi af póli­tískum ástæðum. Yfir­völd hafa nú til skoð­unar hvort náða eigi Nazanin.

Kaup­sýslu­maður laus úr haldi í Íran og komin aftur heim til Bret­lands

Kamal Foroughi, 80 ára fyrrum kaup­sýslu­maður af breskum og írönskum uppruna, var hand­tekinn árið 2011. Hann var leystur úr haldi fyrir rúmi ári síðan en fékk loks að fara til Bret­lands í mars 2020 eftir að kórónu­veirufar­ald­urinn braust út.

Ríkis­fangs­laus Palestínu­maður leystur úr haldi gegn trygg­ingu í Ísrael

Blaða­ljós­mynd­arinn Mustafa al-Kharouf var leystur úr haldi eftir níu mánuði í fang­elsi í Ísrael. Hann hefur búið í Jerúsalem frá 12 ára aldri en er ríkis­fangs­laus og hefur ekki fengið rétt­ar­stöðu í landinu þrátt fyrir að öll fjöl­skylda hans hefur fengið fasta búsetu. Hann hefur margoft reynt að sækja um fasta búsetu á grund­velli fjöl­skyldusam­ein­ingar en ávallt fengið synjun.

Mustafa var hand­tekinn að geðþótta í janúar 2019 eftir enn eina synj­unina þar sem senda átti hann úr landi. Í júlí 2019 reyndu ísra­elsk yfir­völd tvívegis að senda hann til Jórdaníu en þarlend yfir­völd neituðu að taka við honum. Í lok október 2019 var hann loks leystur úr haldi.

Dómur mild­aður í Íran – Þitt nafn bjargar lífi

Fang­els­is­dómur Yasaman og móður hennar hefur verið styttur úr 16 árum í 9 ár og 7 mánuði. Alþjóð­legur þrýst­ingur hefur áhrif, kraft­urinn býr í fjöld­anum. Yasaman og móðir hennar voru hand­teknar eftir að hafa gefið blóm á alþjóða­degi kvenna, þann 8. mars 2019, og óskað þess að konur fengu að velja hvort þær klæddust  höfuðslæðu. Mál þeirra var tekið upp í árlegri herferð samtak­anna, Þitt nafn bjargar lífi 2019. Amnesty Internati­onal fylgist áfram með máli þeirra.

Bahá’íi á dauða­deild leystur úr haldi í Jemen

Hutha-stjórn­völd í Jemen tilkynntu í mars 2020, þegar fimm ár voru liðin frá því átökin þar í landi hófust, að allir Bahá’íar yrðu leystir úr haldi. Hamid Haydara, samviskufangi, var meðal þeirra en aðeins þremur dögum áður hafði dauða­dómur yfir honum verið stað­festur. Frá því að Hamid Haydara var hand­tekinn árið 2013 hefur Amnesty Internati­onal fylgst með máli hans. Hann hlaut ósann­gjörn rétt­ar­höld og sætti pynd­ingum og illri meðferð. Amnesty Internati­onal skráði einnig 66 Bahá’ía sem færðir voru fyrir rétt á árunum 2015-2020 vegna trúar­skoðana sinna. Íslands­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á máli tveggja Bahá’ía í sms-aðgerðanetinu í byrjun árs 2017.

Trans kona í Egyptalandi leyst úr haldi

Malak al Kashef, trans kona, frá Egyptalandi var leyst úr haldi sumarið 2019. Henni var haldið í karlafang­elsi eftir að hafa verið rang­lega sökuð um að „veita hryðju­verka­sam­tökum liðsinni“ og „misnota samfé­lags­miðla til að fremja refsi­verðan glæp“. Hún er þekkt fyrir hugrekki sitt í barátt­unni fyrir rétt­indum hinsegin fólks í Egyptalandi. Mál hennar var í sms-aðgerðaneti Amnesty Internati­onal.

„Það fyllti mig bæði eldmóði og veitti mér öryggi að vita að Amnesty Internati­onal stóð fyrir herferð, stuðn­ingi og þrýst­ingi á máli mínu eftir að egypsk stjórn­völd hand­tóku mig.“

Lestu einnig