Umhverfismálalögfræðingurinn Dang Dinh Bach hefur helgað líf sitt því að bæta heilsu og lífsviðurværi fólksins í Víetnam og vernda það gegn mengun og loftslagsbreytingum.Samtökin hans, Miðstöð fyrir lög og stefnur um rannsóknir á sjálfbærri þróun (LPSD), voru þau fyrstu til að fara í mál við ríkisstjórnina og fyrirtæki vegna alvarlegra brota á umhverfisrétti og lýðheilsu. Á meðal baráttumála hans voru ólögleg losun skordýraeiturs og iðnaðarmengun sem veldur aukinni hættu á krabbameini.
Samtökin gegna mikilvægu hlutverki. Þau hafa unnið að vitundarvakningu með herferðum og þjálfun sem aðstoðar samfélög að skilja réttindi sín og styrkir þau til að rísa upp gegn valdamiklum efnahagslegum og pólitískum hagsmunaaðilum til að vernda félagslega, efnahagslega og umhverfislega velferð sína.
Bach var handtekinn 24. júní 2021. Nýfæddur sonur hans var aðeins tveggja vikna. Bach var færður í fangelsi og leggja þurfti niður samtök hans. Bach var ákærður fyrir „skattsvik“ og síðar dæmdur í fimm ára fangelsi í kjölfar réttarhalda sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að hafi verið ósanngjörn. Dómstóllinn neitaði að hlusta á vörn Bachs og saksóknari lagði ekki fram nein sönnunargögn. Eiginkona hans fékk heldur ekki að vera viðstödd „opin“ réttarhöld yfir eiginmanni sínum.
Frá árinu 2021 hafa að minnsta kosti fimm talsmenn umhverfismála og loftslagsréttlætis verið ákærðir fyrir skattsvik, sem er aðferð sem yfirvöld í Víetnam beita til að þagga niður í stækkandi hreyfingu aðgerðasinna sem krefjast þess að ríkisstjórnin verndi umhverfið.
Bach er á bak við lás og slá og þarf að þola lélegar aðstæður í fangelsi í stað þess að fá að halda áfram störfum sínum í þágu samfélaga sem honum er annt um. Heilsu hans hefur hrakað og hann hefur sætt áreitni af hálfu fangelsisstarfsfólks. Hann hefur ekki séð barnungan son sinn frá því að hann var handtekinn.
Krefstu þess að stjórnvöld í Víetnam leysi Dang Dinh Bach úr haldi.