Tveggja ára fangelsisdómur

TikTok-stjarna fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann

Ana da Silva Miguel er 32 ára söng­kona og tveggja barna móðir. Henni þótti erfitt og gremju­legt að búa í Angóla. Hvernig gat land með alla þessa mögu­leika leyft stórum hluta íbúanna að búa við fátækt? Hún fékk nóg af skorti á skólum, atvinnu og tæki­færum og fór á TikTok þar sem hún tók upp nafnið „Neth Nahara“ og varð áhrifa­valdur og tjáði skoð­anir sínar.

Neth deildi með fylgj­endum sögum úr lífi sínu, bæði góðum og slæmum. Hún var lífleg, skemmtileg og óhrædd við að segja sann­leikann eins og hún sá hann. Neth hvatti konur til að leita sér mennt­unar og öðlast sjálf­stæði. Hún gaf heilsuráð og sýndi hugrekki með því að deila því að hún væri með HIV.

Í beinni útsend­ingu á TikTok-rásinni sinni 12. ágúst 2023 gagn­rýndi Neth opin­skátt forseta landsins, João Lourenço. Strax daginn eftir var hún hand­tekin á heimili sínu í Lúanda, höfuð­borg Angóla. Það var réttað yfir henni undir eins. Hún var sakfelld og dæmd í sex mánaða fang­elsi. Stuttu síðar, 1. sept­ember 2023, var dómurinn lengdur í tvö ár.

Yfir­völd í Angóla hafa notað umdeild lög (hegn­ing­arlög 333) til að þagga niður í gagn­rýn­is­röddum eins og Neth. Lögin voru sett á tímum kórónu­veirufar­ald­ursins þegar fólkið í landinu fór út á götur til að tjá óánægju sína með stjórn forsetans. Samkvæmt lögunum er það glæpur að „móðga“ forsetann.

Fyrstu átta mánuði Neth í varð­haldi að geðþótta var henni neitað um dagleg lyf til meðferðar við HIV. Það var ekki fyrr en eftir ítrek­aðar beiðnir lögfræð­inga hennar sem hún fékk loks þau lyf sem hún þurfti nauð­syn­lega á að halda. Neth Nahara og aðrir einstak­lingar í sömu stöðu sæta varð­haldi og illri meðferð fyrir það eitt að þora að tjá sig.

Krefstu þess að stjórn­völd í Angóla leysi Neth Nahara skil­yrð­is­laust úr haldi án tafar.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi