Önu da Silva Miguel, 32 ára söngkonu og tveggja barna móður, þótti erfitt og gremjulegt að búa í Angóla. Hvernig gat land með alla þessa möguleika leyft stórum hluta íbúanna að búa við fátækt? Hún fékk nóg af skorti á skólum, atvinnu og tækifærum og fór á TikTok þar sem hún tók upp nafnið „Neth Nahara“ og varð áhrifavaldur og tjáði skoðanir sínar.
Neth deildi með fylgjendum sögum úr lífi sínu, bæði góðum og slæmum. Hún var lífleg, skemmtileg og óhrædd við að segja sannleikann eins og hún sá hann. Neth hvatti konur til að leita sér menntunar og öðlast sjálfstæði. Hún gaf heilsuráð og sýndi hugrekki með því að deila því að hún væri með HIV.
Í beinni útsendingu á TikTok-rásinni sinni 12. ágúst 2023 gagnrýndi Neth opinskátt forseta landsins, João Lourenço. Strax daginn eftir var hún handtekin á heimili sínu í Lúanda, höfuðborg Angóla. Það var réttað yfir henni undir eins. Hún var sakfelld og dæmd í sex mánaða fangelsi. Stuttu síðar, 1. september 2023, var dómurinn lengdur í tvö ár.
Yfirvöld í Angóla hafa notað umdeild lög (hegningarlög 333) til að þagga niður í gagnrýnisröddum eins og Neth. Lögin voru sett á tímum kórónuveirufaraldursins þegar fólkið í landinu fór út á götur til að tjá óánægju sína með stjórn forsetans. Samkvæmt lögunum er það glæpur að „móðga“ forsetann.
Fyrstu átta mánuði Neth í varðhaldi að geðþótta var henni neitað um dagleg lyf til meðferðar við HIV. Það var ekki fyrr en eftir ítrekaðar beiðnir lögfræðinga hennar sem hún fékk loks þau lyf sem hún þurfti nauðsynlega á að halda. Neth Nahara og aðrir einstaklingar í sömu stöðu sæta varðhaldi og illri meðferð fyrir það eitt að þora að tjá sig.
Krefstu þess að yfirvöld í Angóla leysi Neth Nahara skilyrðislaust úr haldi án tafar.