Góðar fréttir
31. júlí 2024Fjölmargir mannréttindasigrar náðust á fyrstu sex mánuðum ársins þar sem Amnesty International lagði sitt lóð á vogaskálarnar. Fólk sem var ranglega fangelsað var leyst úr haldi, lög voru betrumbætt og réttlæti náði fram að ganga. Allt mikilvægir sigrar sem skipta máli. Stuðningsfólk um allan heim greip til aðgerða og sýndi fram á að samtakamátturinn hefur áhrif.
Janúar
Noregur
Á síðustu árum hefur Noregur sætt gagnrýni frá alþjóðlegum stofnunum vegna meðferðar á föngum með geðrænar áskoranir. Beiting einangrunarvistar er víðtæk og sjálfsvígstölur eru háar. Herferð Amnesty International í Noregi á síðasta ári fyrir réttindum fanga leiddi til þess að stjórnvöld gerðu ráðstafanir til að bæta aðstæður og draga úr beitingu einangrunarvistar.
Belgía
Frumvarp Vincent Van Quickenborne dómsmálaráðherra Belgíu um ákveðnar takmarkanir á mótmæli var dregið til baka í kjölfar gagnrýni Amnesty International, stéttarfélaga og annarra borgaralegra samfélaga. Frumvarpið hefði grafið undan réttinum til að mótmæla hefði það verið samþykkt.
Tæland/Rússland
Meðlimir rússnesku rokkhljómsveitarinnar Bi-2 fengu að yfirgefa Tæland með öruggum hætti. Þeir áttu á hættu brottvísun til Rússlands eftir að þeir voru handteknir í Tælandi fyrir að halda tónleika án leyfis.
Tónlistamennirnir hafa opinberlega gagnrýnt stríðið í Úkraínu og áttu því á hættu að sæta ofsóknum í Rússlandi yrðu þeir sendir þangað. Einn meðlimur hljómsveitarinnar hafði einnig verið sakaður af rússneskum yfirvöldum um að vera „erlendur útsendari“. Víða var mótmælt og Amnesty International var á meðal þeirra sem kölluðu eftir því að meðlimirnir fengju að fara til öruggs lands.
Febrúar
Belgía
Ríkisstjórn Wallon tilkynnti í byrjun febrúar ógildingu leyfis á vopnaútflutningi til Ísraels. Þessi ákvörðun var tekin í kjölfar kröfu borgaralegra samtaka þar sem Amnesty International gegndi lykilhlutverki.
Alþjóðlegt
Við athöfn í Haag í Hollandi skrifuðu 34 ríki undir nýjan sáttmála sem markar tímamót, Ljubljana-Hague sáttmálann. Sáttmálinn gagnast við að ná fram réttlæti fyrir þolendur hópmorðs, glæpa gegn mannúð og stríðsglæpa. Sáttmálinn styrkir alþjóðalög með því að veita ný úrræði og efla möguleika á samvinnu ríkja í málum sem varða þessa glæpi. Hann gagnast við að tryggja að einstaklingar sem eru grunaðir um hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og aðra glæpi samkvæmt alþjóðalögum geti síður leitað skjóls í „öruggum“ löndum auk þess sem að sáttmálinn er mikilvægur til að vinna gegn refsileysi.
Írak
Fjölmiðlamaðurinn Guhdar Zebari var leystur úr haldi þann 17. febrúar af kúrdískri sjálfstjórn Íraks. Hann var ranglega fangelsaður í þrjú ár og hafði Amnesty International lengi kallað eftir lausn hans. Í skilaboðum þakkaði lögfræðingur Guhdar Zebari Amnesty International fyrir framlag sitt sem hann sagði að hefði haft mikil áhrif.
Senegal
Yfirvöld í Senegal leystu úr haldi rúmlega 600 einstaklinga sem voru í haldi fyrir þátttöku í mótmælum, fyrir að kalla eftir mótmælum eða vera álitnir styðja stjórnarandstöðuflokk. Amnesty International barðist fyrir lausn einstaklinganna þar sem þeir voru í haldi fyrir það eitt að nýta tjáningar-og fundafrelsið með friðsamlegum hætti.
Andorra
Vanessa Mendoza Cortes, baráttukona fyrir mannréttindum, var loks sýknuð. Hún var dregin fyrir dómstóla vegna þess að hún talaði gegn algjöru þungunarrofsbanni í Andorra. Þúsundir stuðningsaðila Amnesty International gripu til aðgerða og sýndu Vanessu stuðning. Mál hennar var tekið upp í SMS-aðgerðaneti Íslandsdeildar Amnesty International.
„Ég vil persónulega þakka þeim rúmlega 70 þúsund einstaklingum sem gripu til aðgerða til stuðnings máli mínu og þrýstu á yfirvöld í Andorra. Þið eigið þátt í þessum sameiginlega og friðsamlega sigri. Þrátt fyrir erfið ár tel ég mig heppna að hafa ykkur mér við hlið. Styrkur okkar er samstaða og stuðningur fyrir réttindum hvers annars.“
Máritanía
Youba Siby, senegalskur ríkisborgari sem er upprunalega frá Máritaníu, var handtekinn í Senegal þann 14. september 2023 fyrr að gagnrýna son háttsetts stjórnamálamanns á samfélagsmiðlum. Síðar kom í ljós að Youba var framseldur til Máritaníu þar sem hann var í haldi í fangelsi án aðgengis að lögfræðiaðstoð og dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Eftir að hafa fengið fréttir um mál Youba aðstoðaði svæðisteymi Amnesty International við að finna mannréttindalögfræðing sem var tilbúinn að taka málið að sér fyrir lítið fé. Youba fékk frelsi á ný í febrúar og snéri aftur til Senegal. Amnesty International studdi hann við að koma undir sig fótunum á ný þar sem hann hafði misst bæði tekjur og heimili. Youba tjáði innilegt þakklæti sitt til Amnesty og stuðningsfólks þess fyrir hjálpina.
Grikkland
Frumvarp um viðurkenningu samkynja hjónabanda var samþykkt af gríska þinginu. Þetta var táknrænt skref í átt að jafnrétti fyrir hinsegin fólk. Amnesty International í Grikklandi studdi löggjöfina og fagnar þessu skrefi en kallar einnig eftir því að stjórnvöld innleiði lög sem tryggja fullt jafnrétti fyrir hinsegin fólk.
Belgía
Eftir tveggja ára herferð Amnesty International og annarra aðila var bundinn endi á samstarf við risafyrirtækið og framleiðanda jarðeldsneytis TotalEnergies sem hefur lengi styrkt 20 km hlaupaviðburð í Brussel. Þetta franska alþjóðlega fyrirtæki hefur verið aðalstyrktaraðili hlaupsins frá árinu 2004 og naut góðs af jákvæðri ímynd viðburðarins.
Evrópa
Dunja Mijatović, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, kallaði eftir mannréttindamiðaðri nálgun á vændi í kjölfar samráðs við vændisfólk í Evrópu, borgaraleg samtök og hagsmunasamtök. Í greinargerð sinni vitnaði hún í skýrslu Amnesty International um ofbeldi sem vændisfólk verður fyrir. Amnesty International berst fyrir afglæpavæðingu vændis og að mannréttindi fólks í vændi séu virt.
Sviss
Eftir áralanga baráttu fyrir réttlæti vann aðgerðasinninn Mohamed Wa Baile mál sitt gegn Sviss fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna kynþáttarmismununar þegar kemur að því að sýna lögreglu persónuskilríki. Sviss hafði ekki staðið sig í að tryggja vernd gegn slíkri mismunun. Dómsúrskurðurinn er sigur fyrir Wa Baile og fólks í svipaðri stöðu í Sviss og Evrópu.
Evrópusambandið
Evrópuþingið samþykkti ályktun um Íran sem samræmist tilmælum Amnesty International um að Evrópusambandsríki hefji rannsókn á hendur fulltrúum íranska ríkisins sem bera ábyrgð á grófum mannréttindabrotum þar í landi. Rannsóknin nær yfir þau mannréttindabrot sem falla undir alþjóðlega lögsögu samkvæmt alþjóðalögum.
Evrópuþingið kallaði einnig eftir lausn einstaklinga í geðþóttavarðhaldi og fordæmdi einnig hræðilegar aðstæður í varðhaldi og víðtæka beitingu pyndinga, þar á meðal kynferðisofbeldi. Það endurspeglar rannsókn Amnesty International um að öryggissveitir Íran beiti nauðgunum og kynferðisofbeldi til að bæla niður uppreisnina: Konur, líf og frelsi.
Mars
Japan
Tveir dómstólar í Japan komust að þeirri niðurstöðu í tveimur aðskildum málum að bann við samkynja hjónaböndum væri brot á stjórnarskránni og gáfu skýrt til kynna að slík mismunun ætti ekki að eiga sér stað í japönsku samfélagi.
Evrópa
Í byrjun ársins ákváðu nokkrar ríkisstjórnir að frysta fjárhagsstuðning til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) sem er íbúum Gaza lífsnauðsynleg. Amnesty International þrýsti á Evrópusambandið og aðildarríki þeirra að halda áfram fjárveitingu sinni. Íslandsdeild Amnesty International þrýsti einnig á íslensk stjórnvöld sem einnig frystu fjárhagsstuðning sinn. Í mars tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að sambandið myndi veita á ný fjárhagsstuðning til UNRWA. Öll Evrópusambandsríki drógu frystingu til baka og það gerðu íslensk stjórnvöld einnig.
Frakkland
Franska þingið samþykkti að rétturinn til þungunarrofs yrði varinn í frönsku stjórnarskránni. Amnesty International í Frakklandi hafði kallað eftir því ásamt öðrum samtökum.
Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
Fjölmiðlamaðurinn Stanis Bujakera var leystur úr haldi í mars eftir sex mánuði í fangelsi. Hann var handtekinn í september 2023 og ákærður fyrir að „dreifa orðrómi“ og „dreifa fölskum upplýsingum“ í kjölfar þess að fjölmiðillinn Juene Afrique birti grein þar sem kóngólíska leyniþjónustan var ásökuð um að tengjast morði á stjórnarandstæðingnum Chérubin Okende. Amnesty International í Belgíu var á meðal þeirra sem kallaði eftir lausn hans.
Búrkína Fasó
Mannréttindafrömuðurinn Daouda Diallo var handtekinn af öryggissveitarmönnum þann 1. desember 2023. Hann sætti þvinguðu mannshvarfi (leynilegu haldi yfirvalda). Amnesty International kallaði eftir lausn hans. Í mars fékk Daouda frelsi á ný. Eftir að hann var leystur úr haldi lét hann eftirfarandi orð falla:
„Ég vil þakka Amnesty International og öllu því fólki sem kom saman og krafðist lausnar minnar. Þessi áköll voru ljósið í einsemd minni og áminning um að ég stæði ekki einn. Höldum áfram að standa saman til stuðnings baráttunni fyrir réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir öll.“
Apríl
Myanmar
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um Myanmar þar sem í fyrsta sinn var kallað eftir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna forðist útflutning, sölu eða flutning á þotueldsneyti til Myanmar. Þotueldsneyti hefur verið notað af her Myanmar í loftárárásum sem teljast sem stríðsglæpir. Þessi ákvörðun var tekin eftir áralangan þrýsting undir forystu Amnesty International í nánu samstarfi við borgaraleg samtök í Myanmar og kom í kjölfar skýrslu Amnesty International frá árinu 2022 um notkun þotueldsneytis í landinu.
Indland
Amnesty International hefur lengi kallað eftir lausn 16 aðgerðasinna í Bhima Koregaon-málinu. Hæstiréttur úrskurðaði að Shoma Shem, háskólakennari og baráttukona fyrir mannréttindum, skyldi fá lausn gegn tryggingu eftir sex ára fangelsi. Um mánuði síðar, í maí 2024, var fjölmiðlamaðurinn Gautam Navlakha leystur úr haldi gegn tryggingu næstum fjórum árum eftir að hann var handtekinn.
Argentína
Þekktur argentínskur áhrifavaldur var dæmdur til samfélagsþjónustu eftir að hann var fundinn sekur um kerfisbundna og kynbundna áreitni á netinu gegn fjölmiðlakonunni Marinu Abiuso. Amnesty International í Argentínu studdi Marinu í gegnum réttarhöld hennar.
Marina lét eftirfarandi orð falla:
„Ég er fjölmiðlakona. Tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi eru fyrir mér grundvallargildi. Að fordæma áreitni og hótanir er ekki í andstöðu við frelsi heldur til að vernda það.“
Maí
Alþjóðlegt
Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um öldrun samþykkti á 14. fundi að kanna hvort skortur væri á vernd réttinda eldra fólks og lögðu til að gerður yrði nýr alþjóðlegur sáttmáli. Amnesty International og önnur borgaraleg samtök hafa lengi kallað eftir betri vernd fyrir eldra fólk.
Þessi ákvörðun er mikilvægur áfangi í átt að því að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi eldra fólks verði mögulegur. Hann er grundvöllur að því að vernda réttindi eldra fólks með fullnægjandi hætti. Amnesty International heldur baráttu sinni áfram þar til slíkur sáttmáli verður að veruleika.
Alþjóðlegt
Stuttmyndin Dreaming in the Shadows er 15 mínútna heimildarmynd sem Marina Chankova, sjálfstæður leikstjóri frá Úkraínu, gerði í samstarfi við Amnesty International. Heimildarmyndin fjallar um þrjá eldri einstaklinga í Úkraínu sem annaðhvort þurftu að flýja heimili sín eða búa á svæðum sem finna fyrir áhrifum stríðsátaka.
Myndin var valin komst í úrslit UAFF kvikmyndahátíðarinnar í Tyrklandi og var valin til sýningar á NewsFest kvikmyndahátíðinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún vann einnig til verðlauna í flokki um málefni fatlaðs fólks og kvikmyndagerðarkonur í alþjóðlegu kvikmyndasamkeppninni, Accolade.
Grikkland
Mál nímenninga sem lifðu af sjóslysið við strendur Pylos og voru ákærðir fyrir smygl og fyrir að valda slysinu þar sem 600 einstaklingar létu lífið var vísað frá. Um borð í skipinu var farand- og flóttafólk.
Rannsókn Amnesty International í samstarfi við Human Rights Watch gefur til kynna að gríska strandgæslan hafi valdið slysinu þegar hún reyndi að draga bátinn með farand- og flóttafólkinu um borð. Kalamata dómstóllinn vísaði frá málinu á grundvelli þess að dómstóllinn hefði ekki lögsögu yfir alþjóðlegu hafi þar sem slysið átti sér stað.
Jórdanía
Í aðför sinni gegn mótmælum handtóku yfirvöld í Jórdaníu tvo sýrlenska flóttamenn, Atiya Mohammad Abu Salem og Wael al-Ashi, á mótmælum til stuðnings Gaza í apríl á þessu ári. Innanríkisráðuneytið gaf út fyrirskipun um brottvísun þeirra úr landi án ákæru um brot. Í maí voru Atiya og Wael leystir úr haldi eftir rúman mánuð í geðþóttavarðhaldi í kjölfar þess að Amnesty International tók upp mál þeirra.
Tyrkland
Í kjölfar kröfu Amnesty International var Eren Keskin, þekktur mannréttindalögfræðingur sem situr í stjórn mannréttindasamtaka, sýknuð af ákæru um að hafa „móðgað tyrkneska þjóð“.
Evrópa
Nefnd um félagsleg réttindi innan Evrópuráðsins samþykkti einróma að Ítalía hefði brotið félagsmálasáttmála Evrópu vegna húsnæðismála Róma-fólks. Þessi niðurstaða fylgdi í kjölfar kvörtunar sem Amnesty International lagði fram árið 2019 sem byggðist á áralangri rannsókn. Ítalíu ber skylda til að bregðast við með því að taka skref í átt að því að tryggja viðeigandi húsnæði fyrir Róma-fólk án aðgreiningar og mismununar ásamt því að tryggja úrræði fyrir einstaklinga sem máttu þola slíka mismunun og aðgreiningu.
Júní
Sri Lanka
Ákærur á hendur Nathöshu Edirisooriya, grínista frá Sri Lanka, voru felldar niður en mál hafði verið höfðað á hendur henni fyrir að hvetja til haturs þar sem hún var sögð hafa vanvirt búddisma í uppistandi sínu. . Amnesty International tók upp mál hennar.
Síerra Leóne
Amnesty International heimsótti Kono-svæðið í Síerra Leóne þar sem Meya námufyrirtækið grefur eftir demöntum. Í rannsóknarferð Amnesty International kom í ljós að borholur á vegum fyrirtækisins menguðu drykkjarvatn. Í sýnum sem voru tekin fannst hátt hlutfall nítrats sem voru langt yfir öryggismörkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Í kjölfar rannsóknarinnar sendu yfirvöld í Síerra Leóne fyrirtækinu bréf með óskum um svör. Samkvæmt nýlegri óháðri rannsókn í júní 2024 var hlutfall nítrats nú innan öryggismarka fyrir drykkjarvatn.
Lýðveldið Kongó
Í kjölfar skýrslu Amnesty International stöðvaði umhverfisráðuneytið starfsemi endurvinnslufyrirtækisins Metssa Congo á grundvelli mögulegs umhverfisskaða og heilsuspillandi áhrifa á íbúa í nágrenninu. Amnesty International studdi íbúa til þess að láta taka blóðsýni á meðan unnið var að skýrslunni. Blóðsýnin sýndu hátt hlutfall blýs í íbúum (þar á meðal í börnum sem bjuggu í grennd við verskmiðjuna.
Cyrille Ndembi sem er í forsvari Vindoulou íbúasamtakanna sagði eftirfarandi í kjölfar ákvörðunarinnar um stöðvun starfseminnar:
„Við áttum rólega og friðsamlega nótt án hávaða, lyktar, reyks og titrings og það var engin streita eða kvíði. Við höfum sameinast til að tryggja að ákvörðun ráðherrans verði virt. Okkar innilegasta ósk er að sjá verksmiðjuna lokaða og flutta í burt. Enn og aftur, takk fyrir!“
Tæland
Tælenska þingið samþykkti frumvarp um jafnan rétt til hjónabands sem veitir hinsegin fólki meðal annars jafnan rétt til hjónabands, ættleiðingar og arfs. Frumvarpið verður brátt sent til konungsins til samþykktar.
Um er að ræða tímamótaáfanga þar sem Tæland var fyrsta landið í Suðaustur-Asíu til að lögleiða hjónaband hinsegin fólks.
Síerra Leóne
Barnahjónabönd voru loks bönnuð í Síerra Leóne þann 20. júní. Frumvarpið um barnahjónabönd sem var samþykkt gerir það refsivert að giftast einstaklingi undir 18 ára aldri og leitast eftir vernda stúlkur gegn barnahjónabandi. Amnesty International lagði sitt af mörkum til þessarar mikilvægu ákvörðunar með herferðum og mannréttindafræðslum um skaðsemi barnahjónabanda og kynfæralimlestingu kvenna í Síerra Leóne.
Jemen
Yfirvöld undir sjálfsstjórn Húta leystu úr haldi mannréttindafrömuðinn Abdullah al-Olofi þann 21. júní. Hann hafði setið í rúmt ár í geðþóttavarðhaldi. Hann var handtekinn í maí 2023 þegar hersveitir Húta réðust á friðsamlega samkomu Bahá‘í og handtóku að geðþótta 17 einstaklinga. Amnesty International hefur kallað eftir lausn allra þeirra síðan þá. Dómarinn Abdulwahab Mohammad Qatran var einnig leystur úr haldi yfirvalda Húta í júní eftir að hafa sætt fimm mánaða geðþóttavarðhaldi. Abdulwahab Mohammad Qatran þakkaði Amnesty International fyrir samstöðuna í máli hans í skilaboðum sem hann sendi til samtakanna.
Kirgistan
Stór sigur fyrir réttlæti og mannréttindi náðist þegar 22 aðgerðasinnar í svokölluðu Kempir Abad máli í Kirgistan voru loks sýknaðir. Ákærur á hendur aðgerðasinnunum voru af pólitískum rótum runnar og málsmeðferð á máli þeirra var ábótavant og hún gölluð.
Meðal aðgerðasinnanna var Rita en mál hennar var eitt af málunum í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi 2023. Þessi niðurstaða er fagnaðarefni og vekur von fyrir önnur mál sem eru af pólitískum rótum runnin.
Rússland/Úkraína
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gaf út handtökuheimild á hendur Sergei Kobylash, Victor Sokolov og Valery Gerasimo, háttsettum mönnum innan rússneska hersins, ásamt Sergei Shoigu fyrrum varnarmálaráðherra Rússlands. Þessi ákvörðun er áfangasigur fyrir mannréttindi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Þessir háttsettu menn eru grunaðir um beinar árásir á borgaraleg svæði og að valda óbreyttum borgurum óhóflegum skaða.
Alþjóðlegt
Áfrýjunardómtóll í París staðfesti lögmæti handtökuskipunar á hendur Bashar al-Assad, forseta Sýrlands vegna ábyrgðar hans í beitingu efnavopna í austurhluta Ghouta í Sýrlandi árið 2013. Dómstóllinn staðfesti að þjóðhöfðingi nýtur ekki friðhelgi erlendra dómstóla í ákveðnum undantekningartilfellum.
Bretland/Bandaríkin
Julian Assange var loks leystur úr haldi eftir að hafa setið fimm ár í fangelsi í hámarksöryggisfangelsi í Bretlandi. Assange náði dómssátt við bandarísk yfirvöld þar sem hann játaði á sig eitt brot um þátttöku í samsæri til að fá í hendurnar upplýsingar er varða þjóðaröryggi og birta þær.
Hann fékk fyrir það 62 mánaða fangelsisdóm sem Julian Assange hafði þegar afplánað. Amnesty International barðist lengi fyrir máli hans og kallaði eftir lausn hans.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu