Átakanleg brot á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi eiga sér stað í Sómalíu. Fjölmiðlafólk þarf að þola markvissar árásir, bæði af hálfu öryggissveita ríkisins og vopnaða hópsins Al-Shabaab sem hafa tengsl við Al-Qaida, aukna ritskoðun og handtökur af geðþóttaástæðum.
Hrina ofbeldisfullra árása, hótana, áreitni og ógnana gegn fjölmiðlafólki hefur fest Sómalíu í sessi sem eitt hættulegasta land í heimi fyrir starfsstéttina að starfa í.
„Sómalskt fjölmiðlafólk sætir umsátri. Allt frá því að rétt lifa af bílasprengjur og skotárásir yfir í að sæta barsmíðum og geðþóttahandtökum. Þetta eru hrottalegar starfsaðstæður. Þessi herferð gegn tjáningar- og fjölmiðlafrelsi fer fram í skjóli refsileysis því stjórnvöld rannsaka vart eða lögsækja gerendur í árásum gegn fjölmiðlafólki.“
Deprose Muchena, framkvæmdastjóri Austur-og Suður-Afríkudeildar Amnesty International.
Harkalegar aðgerðir forseta
Starfhæf ríkisstjórn hefur ekki verið við lýði í Sómalíu frá árinu 1991, auk þess sem langvarandi átök, tilurð ýmissa vopnaðra hópa, þurrkar og hungursneyð hafa gert ástand mannréttinda- og mannúðarmála með versta móti í heiminum. Einstakt tækifæri gafst til umbóta á mannréttindaástandinu þegar forseti landsins, Mohamed Abdullahi Farmajo, tók við embætti í byrjun árs 2017. Þess í stað greip forsetinn til harkalegra aðgerða til bæla enn frekar niður tjáningar- og fjölmiðlafrelsi í landinu.
Allt frá því síðla árs 2017 hefur verið þrengt verulega að fjölmiðlafrelsi í Sómalíu og bera öryggissveitir ríkisins, yfirvöld og vopnuðu samtökin Al-Shabaab þar helst ábyrgð.
Fjölmiðlafólk og gagnrýnendur stjórnvalda sæta hótunum, ógnunum, þvingunum, barsmíðum, geðþóttahandtökum, árásum og jafnvel morðum eða morðtilraunum, bæði af hálfu stjórnvalda og Al-Shabaab. Flestar árásir á fjölmiðlafólk eiga sér stað við fréttaflutning á hátíðisdögum, þegar skýrt er frá sprengjuárásum á vegum Al-Shabaab og mótmælum gegn stjórnvöldum og þegar fjölmiðlafólk ferðast í gegnum eftirlitsstöðvar í höfuðborginni Mogadishu.
Yfirvöld hafa einnig gert skyndiáhlaup á fjölmiðlafyrirtæki eða lokað þeim tímabundið til að koma í veg fyrir fréttaflutning eða til að kúga eigendur þeirra.
Þá beita stjórnvöld mútugreiðslum til eigenda og framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækja í þeim tilgangi að knýja fram sjálfsritskoðun. Skoðanir sem birtar eru á netinu eru heldur ekki látnar óáreittar en stjórnvöld beita margvíslegum brögðum til að hafa stjórn á efni sem birt er á samfélagsmiðlum.
Fjölmiðlafólk í Suður-Sómalíu tjáði Amnesty International frá því að embættismenn á vegum ríkisins og öryggissveitir hafi neitað að veita þeim upplýsingar sem varða almannahagsmuni, synjað beiðnum um viðtöl, meinað þeim aðgang að byggingum stjórnvalda og að vettvangi sprengjuárása Al-Shabbab.
Umfjöllunarefni sem fjölmiðlafólk á sérstaklega erfitt að taka fyrir án þess að eiga á hættu að stjórnvöld beiti hefndaraðgerðum lúta m.a. að árásum Al-Shabaab, öryggismálum, gagnrýni á stjórnvöld, spillingarmálum og mannréttindamálum.
Geðþóttahandtökur, árásir og morð á fjölmiðlafólki
Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegri nefnd til verndar fjölmiðlafólki (CPJ, Committee to Protect Journalists) hafa alls 68 fjölmiðlafólk verið myrt frá árinu 1992. Að minnta kosti átta blaðamenn hafa verið myrtir frá því að forseti landsins tók við embætti. Fimm voru myrtir í árás vopnaða hópsins Al-Shabaab, tveir voru teknir af lífi af óeinkennisklæddum árásarmönnum og einn var skotinn til bana af lögreglu.
„Við lifum í stanslausum ótta. Ég keyri ekki lengur bíl sjálfur, ég nota aðra bíla. Vinur minn keyrði mig til að geta átt þetta viðtal og ég hringi í annan vin til að fá far til baka. Þú veist aldrei hver hefur í hyggju að drepa þig,“ sagði fjölmiðlamaður við Amnesty International.
Einn fjölmiðlamaður sem Amnesty International ræddi við
Sabir Abdulkadir Warsame starfaði sem fréttamaður hjá einkarekinni sjónvarpsstöð og var að taka viðtöl við fólk á götum úti í febrúar 2018 í tengslum við ársafmæli forsetans á valdastóli þegar hann var handtekinn af lögreglu. Warsame var færður til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Kismayo þar sem hann sætti pyndingum. Hann var m.a. spurður út í ástæður þess að hafa kvikmyndað bíl sem flutti viðarkol en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna bannaði útflutning á viðarkolum frá Sómalíu árið 2012 og eru því fréttir um efnið mjög eldfimar:
„Að kvöldi dags þann 10. febrúar fóru nokkrir lögreglumenn með mig út úr varðhaldsstöðinni, bundu fyrir augu mér og köstuðu mér í farangursgeymslu bifreiðar. Þeir keyrðu með mig á strönd og börðu mig illa. Þeir kaffærðu mig í sjónum og reyndu að kyrkja mig. Mér blæddi bæði úr munni og nefi þar til ég missti meðvitund. Næsta morgun rankaði ég við mér í fangaklefa og samfangar mínir reyndu að aðstoða mig. Ég var leystur úr haldi þann 11. febrúar.“
Í fæstum tilfellum eru gerendur ódæðisverkanna sóttir til saka og engin rannsókn á sér stað á brotunum.
Umsátur úr öllum áttum
Zakariye Mohamud Timaade, fyrrum fréttamaður hjá sjónvarpsstöðinni Universal, flúði land í júní 2019 í kjölfar hótana, bæði frá vopnaða hópnum Al-Shabaab og öryggissveitum ríkisins, eftir tvo fréttaflutninga hans. Frétt Timaade í mars 2019 um handtöku öryggissveita ríkisins á þremur meðlimum Al-Shabaab reitti hópinn til reiði og hótuðu forsvarsmenn Al-Shabaab honum lífláti með þeim orðum að hann „yrði drepinn áður en þrír meðlimir Al-Shabaab yrðu teknir af lífi“. Annar fréttaflutningur Timaade í maí 2019 fjallaði um það að vopnaði hópurinn Al-Shabaab væri enn virkur í Mogadishu sem reitti aðila í öryggissveitum ríkisins til reiði þar sem þeir töldu sig líta út fyrir að vera vanhæfir. Hann var kallaður til yfirheyrslu þar sem hann var varaður við því að skipta sér af öryggismálum landsins. Timaade ákvað að flýja land í framhaldi af símtölum með hótunum frá sömu aðilum. Hann sagði Amnesty International:
„Ég óttaðist mest leyniþjónustuna. Ég vissi að þeir vildu ráða mig af dögum. Í Mogadishu getur þú falið þig fyrir Al-Shabaad en þú getur ekki falið þig fyrir leyniþjónustunni. Þeir gætu auðveldlega náð mér á vinnustaðnum. Ég ákvað að flýja.“
Ali Adan Mumin, vinsæll fjölmiðlamaður hjá sjónvarps-og útvarpsstöðinni Goobjoog, var handtekinn í maí 2019 án handtökuheimildar. Hann var ákærður fyrir að móðga opinbera starfsmenn, trufla vinnu stjórnvalda, dreifa áróðri og „vera hættulegur almenningi“ vegna færslu á Facebook þar sem hann fullyrti að lekið hefði verið til hans afriti af samræmdu prófum sem ætlað var fyrir framhaldsskóla landsins en hann ætlaði sér þó ekki að birta. Ákærur lögreglu gegn honum voru felldar niður en Mumin var fyrirskipað að sitja í gæsluvarðhaldi í nokkra daga þar til prófatörn framhaldsskólanna lyki.
Blygðunarlausar mútur stjórnvalda
Amnesty International hefur skráð tilvik þar sem stjórnvöld hafa greitt fjölmiðlum mútur fyrir að ritskoða sjálfa sig.
Að því er hermt að embættismenn á vegum forsetaskrifstofunnar hafi greitt mánaðarlegar mútur til nokkurra eigenda og framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækja í þeim tilgangi að koma í veg fyrir birtingu „óheppilegra“ frétta. Að sögn vitna mútuðu stjórnvöld öllum helstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins og nokkrum áhrifavöldum á samfélagsmiðlum á árunum 2017 til 2019.
Fyrrum fréttastjóri lét eftirfarandi orð falla:
„Ég var vanur að fá símtöl frá embættismanni á skrifstofu forsetans og ég hitti hann stundum á hóteli þar sem hann afhenti mér pening. Hann veitti aldrei leyfi fyrir því að leggja peninga inn á bankareikninginn minn, hann krafðist þess að láta mig fá peningaseðla.“
Margt fjölmiðlafólk sem Amnesty International ræddi við nefndi að mútugreiðslur til yfirmanna þess og fjölmiðlafyrirtækja hefðu ógnvænleg áhrif þar sem það væri ekki frjálst til birta fréttir af málefnum sem stjórnvöld teldu þeim í óhag. Ritstjórar þeirra kæmu oft í veg fyrir að tilteknar fréttir yrðu birtar eða þeim útvarpað.
Fjölmiðlafólkið sagði að ritstjórar þess greindu opinskátt frá því að þeir þáðu greiðslur frá stjórnvöldum, yrðu að ritskoða sig og gætu ekki birt tiltekið efni. Fjölmiðlafólk hefur verið rekið af tilteknum fjölmiðlum að skipan stjórnvalda eftir að hafa neitað að ritskoða sig.
Háttsettur embættismaður á vegum stjórnvalda sagði Amnesty International að stjórnvöld í Mogadishu hefðu mætt mikilli andstöðu stjórnarandstæðinga og viðbrögð þeirra voru að grípa til róttækra aðgerða gegn leiðtogum stjórnarandstöðunnar og stjórna fjölmiðlum landsins m.a. með mútugreiðslum til að stýra samfélagsumræðunni:
„Flestum áhrifamiklum fjölmiðlaeigendum var tryggð mánaðarlega upphæð sem valt á stærð og vinsældum fjölmiðilisins og eigendurnir launuðu greiðann með jákvæðri fréttaumfjöllun um stjórnvöld.“
Mohamed Ibrahim Osam, oftast þekktur sem Bubul, er fréttamaður sem starfar hjá Universal sjónvarpsstöðinni. Hann hefur tvisvar verið rekinn af fjölmiðli frá árinu 2017 fyrir að neita að ritskoða eigið fréttaefni. Osman tjáði Amnesty International frá því að embættismenn á vegum ríkisins hafi hringt í yfirmenn sína og skipað þeim að reka hann þar sem Osman hafði tekið saman gagnrýna fréttaumfjöllun. Einn af fyrrum yfirmönnum Osman sagði honum síðar að hann hafi neyðst til að láta hann fara þar sem Osman hafi verið mjög gagnrýninn á stjórnvöld á samfélagsmiðlum og hann hefði ekki efni á að missa af peningagreiðslum frá stjórnvöldum.
Stjórnun samfélagsmiðla
Hömlulaust eftirlit stjórnvalda hefur neytt margt fjölmiðlafólk til að snúa sér að samfélagsmiðlum til að reyna að tjá skoðanir sínar og veita upplýsingar.
Stjórnvöld hafa hins vegar brugðið á það ráð að koma á starfshópum sem ætlað er að fylgjast með og greina frá efni á netinu sem er óvilhalt stjórnvöldum.
Fjölmargt fjölmiðlafólk hefur greint frá símtölum þar sem því er hótað alvarlegum afleiðingum ef það fjarlægir ekki gagnrýnið efni af eigin síðum á samfélagsmiðlum.
Fjölmiðlamaður sagði Amnesty International frá því að hann hafi verið neyddur úr starfi sínu vegna opinbers stuðnings við frambjóðanda stjórnarandstöðunnar á Facebook-síðu sinni. Starfsmaður á skrifstofu forsetaembættisins hafði meðal annars samband við fjölmiðlamanninn og bauð honum launahækkun að því gefnu að hann hætti að styðja frambjóðanda stjórnarandstöðunnar opinberlega, sem fjölmiðlamaðurinn synjaði. Stuttu síðar tilkynnti yfirmaður fjölmiðlamannsins honum að fjölmiðillinn sem hann starfaði hjá þægi peninga frá ríkisstjórninni og að fjölmiðlafólk sem starfaði á miðlinum gæti ekki lengur birt upplýsingar sem væru gagnrýnar á stjórnvöld, ekki einu sinni á eigin samfélagsmiðli. Fjölmiðlamaðurinn var þvingaður til að láta af störfum og hefja störf á öðrum fréttamiðli.
Hermenn réðust á tvo fjölmiðlamenn á þjóðhátíðardegi Sómalíu í júlí 2019 fyrir að deila reynslu sinni af ofbeldi hermanna á samfélagsmiðlum.
Annar þeirra, Abdulqadir Ahmed Mohamed, varð fyrir árás lífvarðar forsetans en hann deildi myndbandi sem náðist af árásinni á Facebook og fór fram á að forsetinn tæki málið upp. Skömmu síðar fór Mohamed að berast símtöl og hótanir frá aðilum á vegum stjórnvalda og yfirmanni sínum sem fóru fram á að hann tæki myndbandið tafarlaust niður af Facebook-síðu sinni og bæðist afsökunar. Mohamed sá sig nauðbeygðan til að birta annað myndband þar sem hann lýsti því yfir að hann fyrirgæfi árásarmanninum. Árásarmaðurinn var ekki sóttur til saka.
Hinn fjölmiðlamaðurinn, Abdulaziz Billow Ali, sem varð einnig fyrir líkamsárás, skrifaði um reynslu sína á Twitter og sætti strax áreitni af hálfu embættismanna ríkisins allt til tvö að nóttu sama dag. Síðar barst Billow símtal frá háttsettum embættismanni á vegum forsætisráðuneytisins þar sem hann baðst afsökunar á árásinni og í kjölfarið sagðist Billow hafa fundið sig knúinn til að deila öðrum skilaboðum á Twitter þar sem hann varpaði jákvæðu ljósi á ríkisstjórnina
Fjölmiðlafólk er einnig áreitt og þeim hótað fyrir umfjallanir á samfélagsmiðlum.
Vinsæll fjölmiðlamaður frá Mogadishu sem á gríðarlega marga fylgjendur á Facebook greindi frá því að hann væri áreittur og honum ógnað a.m.k. einu sinni í mánuði af yfirvöldum og hefur nokkrum sinnum verið kallaður til yfirheyrslu:
„Ég var kallaður til yfirheyrslu af manni sem starfaði hjá upplýsingaráðuneytinu og ég þekkti til. Hann sagðist stýra eftirlitsteyminu með samfélagsmiðlum. Hann spurði mig út í frétt mína um bílstjóra sem var myrtur. Síðan fór hann með mig í höfuðstöðvar lögreglunnar. Ég var leiddur inn í herbergi sem geymdi stútfulla möppu af öllum mínum færslum á samfélagsmiðlum. Þeir sögðu mér að eyða nokkrum færslum og ég eyddi þeim af því ég var hræddur við þá.“
Amnesty International skráði jafnframt 16 Facebook-reikninga á tímabilinu 2018 til 2019 sem yfirvöld létu gera óvirka í kjölfar færslna sem fól í sér gagnrýni á stjórnvöld á þeim grundvelli að reikningarnar brytu gegn stöðlum Facebook.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu