Tjáningarfrelsi í Súdan hefur verið verulega skert í Súdan en vonir eru í landinu um umbætur í kjölfar stjórnarfarsbreytinga. Omar al-Bashar forseti landsins var steypt af stóli þann 11. apríl 2019.
Þrjátíu ára stjórnartíð hans einkenndist af grófum mannréttindabrotum gegn borgurum landsins vítt og breitt um landið. Stjórnarandstæðingar voru handteknir reglulega á valdatíma forsetans og sættu pyndingum og annarri illri meðferð. Þá sættu fjölmiðlar hörðu eftirliti og fjölmiðlafólk var reglulega handtekið og sett í varðhald. Mikil átök áttu sér stað í stjórnartíð hans. Fjöldi fólks lá í valnum í árásum stjórnarhersins í átökum í Suður-Súdan, sem öðlaðist sjálfstæði árið 2011, og í Darfúr, Suður-Kordofan og Blue Nile. Á endanum fékk almenningur sig fullsaddan á ástandinu.
Mótmælaalda
Mótmælaalda reið yfir Súdan frá miðjum desember 2018 sem spratt af áralöngum efnahagsþrengingum, stjórnmálakreppum og mannréttindabrotum. Þá hafa nærri tveggja áratugalöng átök á milli stjórnvalda og vopnaðra hópa í Darfúr markað djúp spor í þjóðarsálina. Almenningur streymdi út á götur landsins og hrópaði slagorðin; „frelsi, friður og réttlæti“. Hér var á ferðinni stærsta uppreisn almennings í Súdan frá valdaráni hersins sem Omar al-Bashir leiddi í júní 1989.
Í janúar 2019 sameinuðu mótmælahreyfingar krafta sína undir nafninu, „Liðsafli um yfirlýst frelsi og samfélagsbreytingar“. Samhliða mótmælunum fóru víðtæk verkföll fram, meðal annars setuverkföll, þar sem kallað var eftir afsögn ríkisstjórnar Omar al-Bashir. Rúmlega 2000 mótmælaaðgerðir fóru fram frá 13. desember 2018 til 31. mars 2019, vítt og breitt um Súdan.
Þrátt fyrir harðneskjulegar tilraunir stjórnvalda til að bæla niður andóf lét almenningur ekki undan kröfum sínum um frelsi og réttlæti.
Eftir samfelldar mótmælaaðgerðir frá desember 2018 snérist herafli landsins á sveif með mótmælendum í apríl 2019 og steypti Omar al-Bashir af forsetastóli. Hundruðum pólitískra fanga var sleppt úr haldi og fjölmiðlar fengu aukið frelsi til starfa. Von var vakin meðal borgaranna um samfélagslegar umbætur og aukið frelsi.
Viðbrögð stjórnvalda við mótmælaöldu fram til apríl 2019
Stjórnvöld gripu til þess ráðs að loka á aðgang að netinu í öllu landinu þann 20. desember 2018 við upphaf mótmælanna en komu því aftur á nokkrum klukkustundum síðar. Hins vegar var lokað fyrir aðgang að vinsælustu samfélagsmiðlunum, Facebook, Whatsapp, Twitter og Instagram í rúmlega tvo mánuði. Þá fyrirskipaði ríkisstjórn landsins tímabundna lokun allra ríkisrekinna skóla í landinu og í febrúar tóku neyðarlög gildi sem veitti öryggissveitum landsins víðtæk völd.
Ríkisstjórn al-Bashir sigaði bæði lögreglu, öryggissveitum og herliði á mótmælendur í tilraun sinni til að halda um valdataumana og lágu að minnsta kosti 77 mótmælendur í valnum í apríl 2019.
Í skýrslu Amnesty International, „They descended on us like rain: Justice for victims og protest crackdown in Sudan“ frá árinu 2019 kemur fram að yfirvöld beittu óhóflegu valdi, geðþóttahandtökum, pyndingum og annarri illri meðferð í varðhaldi gegn mótmælendum, auk þess að fjölmargir voru myrtir.
Samkvæmt skýrslu samtakanna sættu að minnsta 2000 einstaklingar geðþóttahandtökum frá desember 2018 til apríl 2019 og hundruð særðust í ofbeldisfullum aðgerðum öryggissveita, vítt og breitt um landið. Öryggissveitamenn notuðu til að mynda oft stór plaströr til að hýða mótmælendur í varðhaldi og hótuðu þeim iðulega nauðgunum og dauða. Þá réðust þeir oft á íbúðabyggðir, ruddust inn á heimili fólks og spítala með byssuskotum og táragasi.
Naji, 33 ára hlaut alvarlega áverka á vinstri handlegg og vinstra læri af völdum gúmmíkúlna og táragashylkis í janúar 2019. Þrátt fyrir meiðsli var Naji handtekinn þar sem hann dvaldi á læknastöð. Öryggissveitarmenn ruddust inn á læknastöðina og beittu táragasi þar inni. Naji var færður í varðhald þar sem hann sætti barsmíðum með plaströrum af hálfu leyniþjónustunnar og var gert að skríða á köldu keramíkgólfi í marga klukkutíma. Honum var ítrekað hótað lífláti. Naji sætti varðhaldi í 13 daga án þess að hljóta nokkra læknismeðferð. Sjö aðrir mótmælendur sátu í varðhaldi með Naji, þeirra á meðal þrír læknar. Tveir þeirra voru handleggsbrotnir eftir barsmíðar öryggissveitarmanna. Annar var með opið sár á hendinni og farinn úr axlarlið.
Þátttaka kvenna
Þá var fjöldi kvenna sem tók þátt í mótmælunum beittar kynferðislegri áreitni, ofbeldi og nauðgunum. Konur og stúlkur skipuðu stóran sess í mótmælaaðgerðum vítt og breitt um landið árið 2019 en þátttaka þeirra var mest í höfuðborginni.
Sérstök Facebook-síða sem var einungis ætluð konum var með 303.000 meðlimi en hún gegndi mikluvægu hlutverki í að safna saman upplýsingum og myndum til að bera kennsl á þá sem báru ábyrgð á ofbeldisverkum gegn mótmælendum af hálfu öryggissveita landsins.
Að minnsta kosti 133 landsþekktar konur sem sinntu aðgerðastarfi voru handteknar frá miðjum desember 2018 fram til apríl 2019.
Amnesty International ræddi við nokkrar konur sem greindu frá hryllilegri reynslu af handtöku og varðhaldsvist. Öryggissveitarmenn kölluðu konurnar „vændiskonur“, hótuðu þeim nauðgun og áreittu þær kynferðislega.
Herráð við völd frá apríl til ágúst 2019
Í kjölfar þess að herinn tók við völd var sett á laggirnar herráð til bráðabirgða sem hélt um valdataumana frá 12. apríl til 17. ágúst 2019. Á því tímabili frömdu öryggissveitir landsins, leyniþjónustan, lögregla og hersveitir fjölda mannréttindabrota.
Þann 3. júní stráfelldu öryggissveitir að minnsta kosti hundrað mótmælendur sem tóku þátt í setuverkfalli og að minnsta kosti 700 einstaklingar slösuðust. Hundruð annarra voru færðir í varðhald, þeirra á meðal börn undir 18 ára, þar sem pyndingum og annarri illri meðferð var beitt og að minnsta kosti 20 einstaklingar sættu þvinguðum mannshvörfum. Margar konur sættu hópnauðgunum og annars konar kynferðisofbeldi. Vitni að atburðinum staðfestu að rúmlega þúsund hermenn og lögreglumenn hafi mætti á svæðið og hafið skothríð á mótmælendur.
Í kjölfar fjöldamorðanna 3. júní var tjáningar- og fundafrelsi takmarkað til muna og geðþóttahandtökur jukust umtalsvert. Þrír háttsettir meðlimir Frelsishreyfingar fólksins voru handteknir, ásamt meðlimum í mótmælahreyfingunni „Liðsafli um yfirlýst frelsi og samfélagsbreytingar“. Þá voru fundir og samkomur þeirra síðarnefndu bannaðar með reglulegu millibili.
Almenningur hélt áfram að mótmæla og þrýsti á herráðið að víkja fyrir bráðabirgðastjórn. Þann 17. ágúst 2019 undirrituðu loks herráðið og mótmælahreyfingin þingbundna yfirlýsingu og nokkrum dögum síðar var herráðið leyst upp, nýr forsætisráðherra tók við embætti og fullvalda þing skipað til bráðabirgða. Afráðið var að mynda óháða rannsóknarnefnd sem fékk það hlutverk að ýta úr vör ítarlegri rannsókn á mannréttindabrotunum sem framin voru 3. júní.
Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar í Súdan, hvorki fyrir glæpi fortíðar né nýlegri mannréttindabrot.
„Árásin á Nile-götu hófst seinni partinn, við heyrðum skothljóðin nálgast. Þegar líða tók á nóttina jókst skothríðin. Margir hlupu í áttina til okkar og fjöldi fólks var slasaður, föt þeirra útötuð í blóði. Það var ljóst að ástandið hafði versnað. Ég tók að mynda atburðina og birta á Facebook í gegnum snjallsímann minn. Þrjár eða fjórar leyniskyttur voru rétt hjá og skutu í áttina að mótmælendum í því augnamiði að myrða. Lögregla og öryggissveitir voru vopnaðir AK-47 byssum og táragasi og hlupu á eftir mótmælendum. Ég var gripinn af öryggissveitarmönnum sem börðu mig harkalega í höfuðið, handleggina og bakið með prikum og svipum. Þeir börðu mig svo harkalega í andlitið að ég fann fyrir hrottalegum sársauka og tók að blæða úr hægra auga. Barsmíðarnar stóðu yfir í næstum tvær klukkustundir.“
Gasmin, sem tók þátt í mótmælunum þann 3. júní 2019 nálægt Al Molam spítalanum.
Framfaraskref
Bráðabirgðastjórnin sem tók við völdum í ágúst 2019 afnam lög um allsherjarreglu (public order) í lok nóvember sama ár en þar voru meðal annars ákvæði sem takmörkuðu funda- og tjáningarfrelsi, sérstaklega kvenna. Lögin skertu verulega frelsi kvenna þar sem þau veittu lögreglu víðtæk völd til að handtaka konur fyrir að dansa á opinberum stöðum, ganga í buxum, selja varning á götum úti eða að ræða við karlmenn þeim óskyldum. Refsing við slíku gat varðað svipuhöggum, sektum og í einstaka tilfellum grýtingu til dauða. Afnám þessara laga er framfaraskref og ávöxtur byltingarinnar sem konur tóku drjúgan þátt í á árunum 2018 og 2019.
Amnesty International fagnaði þessu framfaraskrefi en skoraði jafnframt á bráðabirgðastjórnina að standa undir væntingum almennings um betri framtíð þar sem mannréttindi í landinu eru virt.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu