Staða tjáningar- og fundafrelsis í Tansaníu er með versta móti. Allt frá því að forseti landsins John Magufuli tók við embætti í nóvember 2015 hefur aragrúi laga verið samþykktur sem stríða gegn stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum landsins. Lögin takmarka mjög réttindi mannréttindafrömuða, stjórnarandstæðinga, aðgerðasinna, rannsakenda, fjölmiðlafólks, bloggara og annarra sem tjá sig á netinu.
Beiting þessara laga hefur haft hrollvekjandi áhrif á tjáningar-, funda- og félagafrelsið í landinu þar sem fólk gætir mjög að því hvað það segir og gerir af ótta við að ákærur eða aðrar refsiaðgerðir.
Bann við stjórnmálastarfi
Í júlí 2016 var þrengt enn frekar að borgaralegum réttindum íbúa Tansaníu þegar forseti landsins setti blátt bann á allt stjórnmálastarf fram til ársins 2020.
Frá því að banninu var komið á hafa fjölmargir stjórnarandstæðingar verið handteknir og ákærðir fyrir uppspunnin sakarefni.
Í júní 2020, í aðdraganda landskosninga í október 2020, var leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Alliance for Change, Zitto Kabwe, handtekinn ásamt sjö öðrum flokksmeðlimum. Handtaka Zitto og félaga átti sér stað aðeins nokkrum vikum eftir að Freeman Mbowe, leiðtogi Chadema stjórnarandstöðuflokksins, varð fyrir líkamsárás óeinkennisklæddra lögreglumanna.
Ríkisstjórn forseta Tansaníu, John Magufuli, hefur komið á ýmsum harðneskjulegum lögum í landinu til að takmarka tjáningar-og fundafrelsi fyrir aðdraganda kosningar þann 28. október 2020.
Handtökur á frambjóðendum stjórnarandstöðunnar mánuðum fyrir kosningarnar hafa verið byggðar á fölskum ásökunum og ákærum til þess eins að svipta þá funda-, félaga- og ferðafrelsinu. Á sama tíma hafa stjórnvöld brotið á tjáningarfrelsinu með því að setja nýjar reglur sem takmarka birtingu fjölmiðla.
Skert félagafrelsi
Fjórar nýjar lagabreytingar hafa verið settar á síðan í byrjun árs 2019 sem takmarka starfsemi frjálsra félagasamtaka þar í landi. Félagasamtök eru nú t.d. krafin um að birta hvaðan fjármagn þeirra kemur.
Stjórnvöld hafa einnig skert félagafrelsi þeirra með hertari reglugerðum. Í júní 2020 var mannréttindasamtökum bannað að taka þátt í starfsemi tengdri kosningunum sem voru þá og erlendum eftirlitsaðilum var skipað að tala ekki um kosningarnar.
“Forsetinn John Magufuli þarf samstundis að draga til baka þær aðgerðir sem grafa undan pólitísku frelsi og frelsi borgara í Tansaníu og tryggja að mannréttindasinnar, aðgerðasinnar og frjáls félagasamtök geti haldið sjálfstæðri starfsemi sinni áfram án hræðslu við refsiaðgerðir frá stjórnvöldum, “ segir Deprose Muchena , framkvæmdastjóri Amnesty International í austur – og suðurhluta Afríku.
Eftirlit með netinu
Lög um netglæpi sem samþykkt voru árið 2015 brjóta gegn rétti fólks til að taka á móti og deila upplýsingum.
Birting „falskra, misvísandi eða ónákvæmra upplýsinga“ ásamt „móðgandi og harðskeyttrar orðræðu“ á netinu er refsiverð samkvæmt lögunum. Þessi brot eru skilgreind á óljósan og víðtækan hátt og gætu átt við allar upplýsingar að undanskildum þeim sem berast frá stjórnvöldum. Það brýtur í bága við alþjóðalög.
Lögin ná yfir alla notendur samfélagsmiðla. Til dæmis eru notendur WhatsApp-forritisins ábyrgir fyrir áreiðanleika upplýsinga sem þeir deila í einkaskilaboðum. Lögin veita lögreglu landsins vald til að ákveða hvaða upplýsingar fá „sannleiksstimpil“ ríkisins. Lögregla hefur ótakmarkað vald til að krefja netþjónustufyrirtæki og farsímafyrirtæki um aðgang að upplýsingum notenda og leggja hald á tæki þeirra.
Lögin grafa undan tjáningarfrelsinu, ýta undir eftirliti á netinu og auðvelda þöggun á friðsömu andófi.
Með svipuðum hætti geta yfirvöld krafist þess að „bannað efni“ sé fjarlægt af netinu en það er skilgreint á mjög opinn hátt í sérstakri reglugerð um netefni og getur m.a. falið í sér „slæmt orðbragð“ og efni „sem er líklegt til að afvegaleiða eða blekkja almenning“.
Frá árinu 2018 hafa stjórnvöld hrifsað til sín aukin eftirlitsvöld með netinu.
Reglugerð sem lögleidd var í mars 2018 takmarkar með yfirgripsmiklum hætti efni á netinu, krefur bloggara um sérstaka skrásetningu og veitir stjórnvöldum umboð til að hafa eftirlit með netkaffihúsum án aðkomu lagalegs eftirlits. Umrædd reglugerð, ásamt lögum um netglæpi frá árinu 2015, grefur undan friðhelgi einkalífs hjá netnotendum og bælir niður tjáningarfrelsið.
Vinsæll gamanleikari, Idris Sultan, var handtekinn þann 19. maí 2020 eftir að hann birti myndband af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann sést hlæja af gamalli mynd af forseta landsins, John Magufuli, í of stórum jakkafötum. Hann var ákærður á grundvelli nýrra laga sem samþykkt voru 2020 um skráningu símkorta og á grundvelli reglugerðar um efni á netinu. Í ákærunni kemur fram Idris Sultan „hafi láðst að tilkynna eigendaskipti á símkorti“. Hann kom fyrst fyrir rétt í Dar es Salaam þann 9. júní 2020 en réttarhöldin fóru ekki fram þar sem saksóknari mætti óundirbúinn fyrir rétt, iðja sem er grimmt stunduð í Tansaínu til að halda fjölmiðlafólki, bloggurum og baráttufólki fyrir mannréttindum í fangelsi svo mánuðum skiptir án framþróunar í málum þeirra. Réttað var í máli Idris Sultan þann 9. júlí 2020 en engar upplýsingar liggja enn fyrir um niðurstöður dómsins.
Það að gera húmor refsiverðan nær nýjum hæðum í miskunnarlausri baráttu stjórnvalda gegn tjáningarfrelsinu í Tansaníu.
Fjölmiðlafrelsið takmarkað með fjölmiðlalögum
Fjölmiðlalöggjöf landsins frá árinu 2016 setur margvíslegar takmarkanir á frjálsa fjölmiðlun
Upplýsingar sem „grafa undan öryggi“
Sjöunda grein laganna bannar fjölmiðlum að birta upplýsingar sem „grafa undan öryggi“ Tansaníu, greina frá framferði ríkisstjórnarinnar eða valda efnahagsstjórn landsins skaða, meðal annarra atriða. Jafn víðtækar takmarkanir ganga mun lengra en leyfilegt er samkvæmt alþjóðalögum, m.a. með því að gera einstaklingum ómögulegt að meta hvaða upplýsingar og fréttaefni er bannað.
„Falskar fréttir“
Refsing liggur við birtingu „falskra frétta“ og „sögusagnir“ undir ákvæðum 50 og 54 í fjölmiðlalögunum sem tilgreina að brotlegt sé að standa að „birtingu sem er líkleg til að valda ótta og skelfingu“. Fjársekt frá 600 þúsund og upp í 1,2 milljónir íslenskra króna getur legið við brotum af þessu tagi.
Uppreisnaráróður
Þá skilgreina lögin bann við uppreisnaráróðri gegn ríkinu á mjög breiðum grunni m.a. út frá því að „hvetja til óvildar gagnvart ríkisstjórninni og stuðla að illindum og ófriði á milli einstaklinga“. Fjölmiðlafólk sem dæmt er fyrir uppreisnaráróður geta átt yfir höfði sér allt frá þriggja til tíu ára fangelsisdóm.
Tölfræðilegar upplýsingar
Ríkisstjórn landsins kom einnig á hættulegu stjórnarfyrirkomulagi þegar löggjöf var sett á árið 2015 til að stýra óháðum rannsóknum og aðgengi almennings að óháðum tölfræðilegum upplýsingum. Stjórnvöld geta stýrt því hverjir safna og dreifa tölfræðiupplýsingum og ákveðið hvaða upplýsingar teljast sannar. Refsiábyrgð fyrir dreifingu óháðra tölfræðiupplýsinga var tekin út árið 2019.
Umboð lögreglu og ráðherra
Lögregla landsins hefur umboð samkvæmt lögunum að stýra leit innan fjölmiðlafyrirtækja og leggja hald á tækjabúnað án dómsúrskurðar sem býður heim hættunni á misbeitingu laganna. Samkvæmt ákvæðum 58 og 59 í lögunum getur upplýsinga-, menningar- og íþróttaráðherra beitt refsiaðgerðum gagnvart útgáfu fjölmiðlaefnis og bannað innflutning á útgefnum, erlendum ritverkum og tímaritum.
Þessi víðtæku ákvæði veita ráðherra nærri ótaktakmarkað ákvörðunarvald án þess að tilgreina hvaða refsiaðgerðum er unnt að beita og skapa því enn meira svigrúm fyrir misbeitingu.
Í mars 2017 varaði forseti landsins John Magufuli eigendur fjölmiðlafyrirtækja við með eftirfarandi orðum:
„Gætið ykkar! Ef þið haldið að þið búið yfir þess konar frelsi þá á það ekki við.“
Starfsleyfi fjölmiðla hjá ríkinu
Fjölmiðlafólk og fyrirtæki þurfa að fá sérstakt leyfi hjá ríkinu og hægt er að afturkallað leyfið byggt á loðnum og yfirgripsmiklum ákvæðum um „grófa vanrækslu í starfi“. Fjölmiðlafólk getur áfrýjað afturköllun leyfisins en málið þarf fyrst að fara fyrir upplýsinga-, menningar- og íþróttaráðherra áður en unnt er að leita til dómsstóla. Fjölmiðlafyrirtæki þurfa að endurnýja leyfið á hverju ári og greiða fyrir það um það bil 61 þúsund íslenskar krónur.
Þá var sérstakt fjölmiðaráð einnig sett á laggirnar út frá fjölmiðlalögunum en það hefur eftirlit með því að fjölmiðlafólk styðjist við fagleg og siðferðisleg viðmið í störfum sínum. Fjölmiðlaráðinu er ætlað að vera óháð en er það í raun ekki þar sem aðilar þess eru skipaðir af ráðherra og eru ábyrgir gagnvart honum.
Refsiaðgerðir gegn fjölmiðlum
Allt frá því að fjölmiðlalögin tóku gildi hefur ríkisstjórn Tansaníu lagt niður, sektað eða tímabundið lokað ýmsum fjölmiðlum vegna fréttaumfjöllunar um spillingu, mannréttindabrot eða efnahagsástand landsins.
Dagblaðið Raia Mwema var bannað í 90 daga í september 2017 af upplýsinga-, menningar- og íþróttaráðherra fyrir að birta grein með fyrirsögninni „John Magufuli mun bregðast sem forseti“. Ráðherrann ásakaði blaðið um að birta falskar upplýsingar og að vitna ekki rétt í forseta landsins.
Nokkru áður hafði ráðherra sett tveggja ára bann á útgáfu á dagblaðsins Mwanahalisi og bar fyrir sig að blaðið birti falskar fréttir sem græfi undan þjóðaröryggi. Með banninu var vísað í fimm tilfelli þar sem blaðið birti m.a. í útgáfu sinni í febrúar 2017 fréttir af spillingu á skrifstofu forsetans.
Ráðherra setti ennfremur bann á útgáfu dagblaðsins Mawio til tveggja ára í júlí 2017 fyrir að birta grein sem tengdi fyrrum forseta landsins við meint spillingarmál í tengslum við námurekstur og greindi frá því að núverandi forseti hefði varað blaðið við að birta umrædda umfjöllun.
Utanríkisráðherra landsins, Palamagamba Kabudi, varði aðgerðirnar í viðtali við BCC í júlí 2019 og sagði að ríkisstjórn landsins virti fjölmiðlafrelsi og störf fjölmiðlafyrirtækja þar sem fyrirtækin hefðu fengið fjölda aðvarana fyrir brotlega hegðan áður en gripið hafi verið til aðgerða gagnvart þeim.
Opinberir embættismenn þurfa að vera búnir undir að þola meiri gagnrýni en almennir borgarar. Lög sem banna lögmæta gagnrýni á fulltrúa ríkisins eða forseta brjóta gegn tjáningarfrelsinu.
Ótti við bann og lögsóknir hefur haft hrollvekjandi áhrif á störf fjölmiðlafólks og rétt þeirra til að nýta tjáningarfrelsi sitt. Fjórir ritstjórar dagblaða í Tansaníu sem Amnesty International ræddi við tjáðu samtökunum að þeir hafi haldið aftur af sér að birta greinar um spillingu og viðskiptahagsmuni ráðandi stjórnmálaafla í landinu af ótta við hefndaraðgerðir. Þeir deildu einnig gremju sinni gagnvart auknum þrýstingi og ritskoðun á fréttastofum landsins.
Fyrir utan útgáfubönn og hótanir sætir fjölmiðlafólk í Tansaníu einnig geðþóttahandtökum, lögsóknum og í verstu tilvikunum þvinguðum mannshvörfum.
Mál rannsóknarblaðamanna
Erick Kabendera
Rannsóknarblaðamaðurinn Erick Kabendera var handtekinn af lögreglu þann 29. júlí 2019. Samkvæmt viðstöddum komu sex óeinkennisklæddir karlmenn á heimili hans og fóru með hann án þess að upplýsa um ástæður handtökunnar. Daginn eftir tilkynnti yfirmaður lögreglunnar í Dar es Salaam fjölmiðlum að Erick Kabendera sæti í varðhaldi og hafi verið yfirheyrður um lögmæti ríkisborgarréttar hans í Tansaníu.
Nokkrum dögum síðar yfirheyrði lögregla hann vegna meints uppreisnaráróðurs og birtingu falskra frétta í grein sem hann skrifaði í Economist. Lögregla hélt Kabendera í haldi í sjö daga án dómsúrskurðar. Fjölskylda hans og lögfræðingur greindu frá því að þau hafi ekki mátt hitta Kabendera fyrstu þrjá daga varðhaldsins.
Erick Kabendera var ákærður þann 5. ágúst 2019 fyrir þrjú efnahagsbrot: skipulagða glæpastarfssemi, skattaundanskot og peningaþvott. Sakarefni yfirvalda gegn Kabendera eru öll uppspunnin.
Azory Gwanda
Rannsóknarablaðamaðurinn Azory Gwanda hvarf sporlaust á dularfullan hátt í nóvember 2017. Utanríkisáðherrann Palamagamba Kabudi tjáði BBC í viðtali í júlí 2019 að hann væri látinn:
„Ríkisstjórn landsins er að taka til umfjöllunar mál allra þeirra sem hafa til allra óhamingju látið lífið eða horfið í Rufiji. Það er mjög sorglegt að maður sem var aðeins að sinna vinnu sinni hafi látið lífið.“
Síðar sama dag dróg ráðherrann yfirlýsingu sína til baka og sagði:
„Því miður mistúlkuðu sumir fjölmiðlar viðtalið við mig á þann veg að ég hafi staðfest dauða Azory.“
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu