Tansanía

Staða tján­ingar- og funda­frelsis í Tans­aníu er með versta móti. Allt frá því að forseti landsins John Magu­fuli tók við embætti í nóvember 2015 hefur aragrúi laga verið samþykktur sem stríða gegn stjórn­ar­skrá og alþjóð­legum mann­rétt­inda­skuld­bind­ingum landsins. Lögin takmarka mjög rétt­indi mann­rétt­inda­frömuða, stjórn­ar­and­stæð­inga, aðgerða­sinna, rann­sak­enda, fjöl­miðla­fólks, bloggara og annarra sem tjá sig á netinu.

Beiting þessara laga hefur haft hroll­vekj­andi áhrif á tján­ingar-, funda- og félaga­frelsið í landinu þar sem fólk gætir mjög að því hvað það segir og gerir af ótta við að ákærur eða aðrar refsi­að­gerðir.

Bann við stjórnmálastarfi

Í júlí 2016 var þrengt enn frekar að borg­ara­legum rétt­indum íbúa Tans­aníu þegar forseti landsins setti blátt bann á allt stjórn­málastarf fram til ársins 2020.

Frá því að banninu var komið á hafa fjöl­margir stjórn­ar­and­stæð­ingar verið hand­teknir og ákærðir fyrir uppspunnin sakar­efni.

Í júní 2020, í aðdrag­anda landskosn­inga í október 2020, var leið­togi stjórn­ar­and­stöðu­flokksins Alli­ance for Change, Zitto Kabwe, hand­tekinn ásamt sjö öðrum flokks­með­limum. Hand­taka Zitto og félaga átti sér stað aðeins nokkrum vikum eftir að Freeman Mbowe, leið­togi Chadema stjórn­ar­and­stöðu­flokksins, varð fyrir líkams­árás óein­kennisklæddra lögreglu­manna.

Ríkis­stjórn forseta Tans­aníu, John Magu­fuli, hefur komið á ýmsum harð­neskju­legum lögum í landinu til að takmarka tján­ingar-og funda­frelsi fyrir aðdrag­anda kosn­ingar þann 28. október 2020.

Hand­tökur á fram­bjóð­endum stjórn­ar­and­stöð­unnar mánuðum fyrir kosn­ing­arnar hafa verið byggðar á fölskum ásök­unum og ákærum til þess eins að svipta þá funda-, félaga- og ferða­frelsinu. Á sama tíma hafa stjórn­völd brotið á tján­ing­ar­frelsinu með því að setja nýjar reglur sem takmarka birt­ingu fjöl­miðla.

Skert félagafrelsi

Fjórar nýjar laga­breyt­ingar hafa verið settar á síðan í byrjun árs 2019 sem takmarka starf­semi frjálsra félaga­sam­taka þar í landi. Félaga­samtök eru nú t.d. krafin um að birta hvaðan fjár­magn þeirra kemur.

Stjórn­völd hafa einnig skert félaga­frelsi þeirra með hertari reglu­gerðum. Í júní 2020 var mann­rétt­inda­sam­tökum bannað að taka þátt í starf­semi tengdri kosn­ing­unum sem voru þá og erlendum eftir­lits­að­ilum var skipað að tala ekki um kosn­ing­arnar.

Forsetinn John Magu­fuli  þarf samstundis  að draga til baka þær aðgerðir sem grafa undan póli­tísku frelsi og frelsi borgara í Tans­aníu og tryggja að mann­rétt­inda­sinnar, aðgerða­sinnar og frjáls félaga­samtök geti haldið sjálf­stæðri starf­semi sinni áfram án hræðslu við refsi­að­gerðir frá stjórn­völdum, “ segir Deprose Muchena , fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í austur – og suður­hluta Afríku. 

Eftirlit með netinu

Lög um netglæpi sem samþykkt voru árið 2015 brjóta gegn rétti fólks til að taka á móti og deila upplýs­ingum.

Birting „falskra, misvís­andi eða ónákvæmra upplýs­inga“ ásamt „móðg­andi og harð­skeyttrar orðræðu“ á netinu er refsi­verð samkvæmt lögunum. Þessi brot eru skil­greind á óljósan og víðtækan hátt og gætu átt við allar upplýs­ingar að undan­skildum þeim sem berast frá stjórn­völdum. Það brýtur í bága við alþjóðalög.

Lögin ná yfir alla notendur samfé­lags­miðla. Til dæmis eru notendur What­sApp-forrit­isins ábyrgir fyrir áreið­an­leika upplýs­inga sem þeir deila í einka­skila­boðum. Lögin veita lögreglu landsins vald til að ákveða hvaða upplýs­ingar fá „sann­leiks­stimpil“ ríkisins. Lögregla hefur ótak­markað vald til að krefja netþjón­ustu­fyr­ir­tæki og farsíma­fyr­ir­tæki um aðgang að upplýs­ingum notenda og leggja hald á tæki þeirra.

Lögin grafa undan tján­ing­ar­frelsinu, ýta undir eftir­liti á netinu og auðvelda þöggun á frið­sömu andófi.

Með svip­uðum hætti geta yfir­völd krafist þess að „bannað efni“ sé fjar­lægt af netinu en það er skil­greint á mjög opinn hátt í sérstakri reglu­gerð um netefni og getur m.a. falið í sér „slæmt orðbragð“ og efni „sem er líklegt til að afvega­leiða eða blekkja almenning“.

Frá árinu 2018 hafa stjórn­völd hrifsað til sín aukin eftir­litsvöld með netinu.

Reglu­gerð sem lögleidd var í mars 2018 takmarkar með yfir­grips­miklum hætti efni á netinu, krefur bloggara um sérstaka skrá­setn­ingu og veitir stjórn­völdum umboð til að hafa eftirlit með netkaffi­húsum án aðkomu laga­legs eftir­lits. Umrædd reglu­gerð, ásamt lögum um netglæpi frá árinu 2015, grefur undan frið­helgi einka­lífs hjá netnot­endum og bælir niður tján­ing­ar­frelsið.

Vinsæll gaman­leikari, Idris Sultan, var hand­tekinn þann 19. maí 2020 eftir að hann birti mynd­band af sér á samfé­lags­miðlum þar sem hann sést hlæja af gamalli mynd af forseta landsins, John Magu­fuli, í of stórum jakka­fötum. Hann var ákærður á grund­velli nýrra laga sem samþykkt voru 2020 um skrán­ingu símkorta og á grund­velli reglu­gerðar um efni á netinu. Í ákær­unni kemur fram Idris Sultan „hafi láðst að tilkynna eigenda­skipti á símkorti“. Hann kom fyrst fyrir rétt í Dar es Salaam þann 9. júní 2020 en rétt­ar­höldin fóru ekki fram þar sem saksóknari mætti óund­ir­búinn fyrir rétt, iðja sem er grimmt stunduð í Tansaínu til að halda fjöl­miðla­fólki, blogg­urum og baráttu­fólki fyrir mann­rétt­indum í fang­elsi svo mánuðum skiptir án fram­þró­unar í málum þeirra. Réttað var í máli Idris Sultan þann 9. júlí 2020 en engar upplýs­ingar liggja enn fyrir um niður­stöður dómsins.

Það að gera húmor refsi­verðan nær nýjum hæðum í miskunn­ar­lausri baráttu stjórn­valda gegn tján­ing­ar­frelsinu í Tans­aníu.

Fjölmiðlafrelsið takmarkað með fjölmiðlalögum

Fjöl­miðla­lög­gjöf landsins frá árinu 2016 setur marg­vís­legar takmark­anir á frjálsa fjöl­miðlun

Upplýs­ingar sem „grafa undan öryggi“

Sjöunda grein laganna bannar fjöl­miðlum að birta upplýs­ingar sem „grafa undan öryggi“ Tans­aníu, greina frá fram­ferði ríkis­stjórn­ar­innar eða valda efna­hags­stjórn landsins skaða, meðal annarra atriða. Jafn víðtækar takmark­anir ganga mun lengra en leyfi­legt er samkvæmt alþjóða­lögum, m.a. með því að gera einstak­lingum ómögu­legt að meta hvaða upplýs­ingar og frétta­efni er bannað.

„Falskar fréttir“

Refsing liggur við birt­ingu „falskra frétta“ og „sögu­sagnir“ undir ákvæðum 50 og 54 í fjöl­miðla­lög­unum sem tilgreina að brot­legt sé að standa að „birt­ingu sem er líkleg til að valda ótta og skelf­ingu“. Fjár­sekt frá 600 þúsund og upp í 1,2 millj­ónir íslenskra króna getur legið við brotum af þessu tagi.

Uppreisn­ar­áróður

Þá skil­greina lögin bann við uppreisn­ar­áróðri gegn ríkinu á mjög breiðum grunni m.a. út frá því að „hvetja til óvildar gagn­vart ríkis­stjórn­inni og stuðla að illindum og ófriði á milli einstak­linga“. Fjöl­miðla­fólk sem dæmt er fyrir uppreisn­ar­áróður geta átt yfir höfði sér allt frá þriggja til tíu ára fang­els­isdóm.

Tölfræði­legar upplýs­ingar

Ríkis­stjórn landsins kom einnig á hættu­legu stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagi þegar löggjöf var sett á árið 2015 til að stýra óháðum rann­sóknum og aðgengi almenn­ings að óháðum tölfræði­legum upplýs­ingum. Stjórn­völd geta stýrt því hverjir safna og dreifa tölfræðiupp­lýs­ingum og ákveðið hvaða upplýs­ingar teljast sannar. Refsi­á­byrgð fyrir dreif­ingu óháðra tölfræðiupp­lýs­inga var tekin út árið 2019.

Umboð lögreglu og ráðherra

Lögregla landsins hefur umboð samkvæmt lögunum að stýra leit innan fjöl­miðla­fyr­ir­tækja og leggja hald á tækja­búnað án dóms­úrskurðar sem býður heim hætt­unni á misbeit­ingu laganna. Samkvæmt ákvæðum 58 og 59 í lögunum getur upplýs­inga-, menn­ingar- og íþrótta­ráð­herra beitt refsi­að­gerðum gagn­vart útgáfu fjöl­miðla­efnis og bannað innflutning á útgefnum, erlendum ritverkum og tíma­ritum.

Þessi víðtæku ákvæði veita ráðherra nærri ótaktak­markað ákvörð­un­ar­vald án þess að tilgreina hvaða refsi­að­gerðum er unnt að beita og skapa því enn meira svigrúm fyrir misbeit­ingu.

Í mars 2017 varaði forseti landsins John Magu­fuli eigendur fjöl­miðla­fyr­ir­tækja við með eftir­far­andi orðum:

„Gætið ykkar! Ef þið haldið að þið búið yfir þess konar frelsi þá á það ekki við.“

Starfsleyfi fjölmiðla hjá ríkinu

Fjöl­miðla­fólk og fyrir­tæki þurfa að fá sérstakt leyfi hjá ríkinu og hægt er að aftur­kallað leyfið byggt á loðnum og yfir­grips­miklum ákvæðum um „grófa vanrækslu í starfi“. Fjöl­miðla­fólk getur áfrýjað aftur­köllun leyf­isins en málið þarf fyrst að fara fyrir upplýs­inga-, menn­ingar- og íþrótta­ráð­herra áður en unnt er að leita til dóms­stóla. Fjöl­miðla­fyr­ir­tæki þurfa að endur­nýja leyfið á hverju ári og greiða fyrir það um það bil 61 þúsund íslenskar krónur.

Þá var sérstakt fjöl­miðaráð einnig sett á lagg­irnar út frá fjöl­miðla­lög­unum en það hefur eftirlit með því að fjöl­miðla­fólk styðjist við fagleg og siðferð­isleg viðmið í störfum sínum. Fjöl­miðla­ráðinu er ætlað að vera óháð en er það í raun ekki þar sem aðilar þess eru skip­aðir af ráðherra og eru ábyrgir gagn­vart honum.

 

Refsiaðgerðir gegn fjölmiðlum

Allt frá því að fjöl­miðla­lögin tóku gildi hefur ríkis­stjórn Tans­aníu lagt niður, sektað eða tíma­bundið lokað ýmsum fjöl­miðlum vegna fréttaum­fjöll­unar um spill­ingu, mann­rétt­inda­brot eða efna­hags­ástand landsins.

Dagblaðið Raia Mwema var bannað í 90 daga í sept­ember 2017 af upplýs­inga-, menn­ingar- og íþrótta­ráð­herra fyrir að birta grein með fyrir­sögn­inni „John Magu­fuli mun bregðast sem forseti“. Ráðherrann ásakaði blaðið um að birta falskar upplýs­ingar og að vitna ekki rétt í forseta landsins.

Nokkru áður hafði ráðherra sett tveggja ára bann á útgáfu á dagblaðsins Mwana­halisi og bar fyrir sig að blaðið birti falskar fréttir sem græfi undan þjóðarör­yggi. Með banninu var vísað í fimm tilfelli þar sem blaðið birti m.a. í útgáfu sinni í febrúar 2017 fréttir af spill­ingu á skrif­stofu forsetans.

Ráðherra setti ennfremur bann á útgáfu dagblaðsins Mawio til tveggja ára í júlí 2017 fyrir að birta grein sem tengdi fyrrum forseta landsins við meint spill­ing­armál í tengslum við námu­rekstur og greindi frá því að núver­andi forseti hefði varað blaðið við að birta umrædda umfjöllun.

Utan­rík­is­ráð­herra landsins, Palamagamba Kabudi, varði aðgerð­irnar í viðtali við BCC í júlí 2019 og sagði að ríkis­stjórn landsins virti fjöl­miðla­frelsi og störf fjöl­miðla­fyr­ir­tækja þar sem fyrir­tækin hefðu fengið fjölda aðvarana fyrir brot­lega hegðan áður en gripið hafi verið til aðgerða gagn­vart þeim.

Opin­berir embætt­is­menn þurfa að vera búnir undir að þola meiri gagn­rýni en almennir borg­arar. Lög sem banna lögmæta gagn­rýni á full­trúa ríkisins eða forseta brjóta gegn tján­ing­ar­frelsinu.

Ótti við bann og lögsóknir hefur haft hroll­vekj­andi áhrif á störf fjöl­miðla­fólks og rétt þeirra til að nýta tján­ing­ar­frelsi sitt. Fjórir ritstjórar dagblaða í Tans­aníu sem Amnesty Internati­onal ræddi við tjáðu samtök­unum að þeir hafi haldið aftur af sér að birta greinar um spill­ingu og viðskipta­hags­muni ráðandi stjórn­mála­afla í landinu af ótta við hefndarað­gerðir. Þeir deildu einnig gremju sinni gagn­vart auknum þrýst­ingi og ritskoðun á frétta­stofum landsins.

Fyrir utan útgáfu­bönn og hótanir sætir fjöl­miðla­fólk í Tans­aníu einnig geðþótta­hand­tökum, lögsóknum og í verstu tilvik­unum þving­uðum manns­hvörfum.

Mál rannsóknarblaðamanna

Erick Kabendera

Rann­sókn­ar­blaða­mað­urinn Erick Kabendera var hand­tekinn af lögreglu þann 29. júlí 2019. Samkvæmt viðstöddum komu sex óein­kennisklæddir karl­menn á heimili hans  og fóru með hann án þess að upplýsa um ástæður hand­tök­unnar. Daginn eftir tilkynnti yfir­maður lögregl­unnar í Dar es Salaam fjöl­miðlum að Erick Kabendera sæti í varð­haldi og hafi verið yfir­heyrður um lögmæti ríkis­borg­ar­réttar hans í Tans­aníu.

Nokkrum dögum síðar yfir­heyrði lögregla hann vegna meints uppreisn­ar­áróðurs og birt­ingu falskra frétta í grein sem hann skrifaði í Economist. Lögregla hélt Kabendera í haldi í sjö daga án dóms­úrskurðar. Fjöl­skylda hans og lögfræð­ingur greindu frá því að þau hafi ekki mátt hitta Kabendera fyrstu þrjá daga varð­haldsins.

Erick Kabendera var ákærður þann 5. ágúst 2019 fyrir þrjú efna­hags­brot: skipu­lagða glæp­a­starfs­semi, skattaund­an­skot og peninga­þvott. Sakar­efni yfir­valda gegn Kabendera eru öll uppspunnin.

Azory Gwanda

Rann­sókn­ara­blaða­mað­urinn Azory Gwanda hvarf spor­laust á dular­fullan hátt í nóvember 2017. Utan­rík­isáð­herrann Palamagamba Kabudi tjáði BBC í viðtali í júlí 2019 að hann væri látinn:

„Ríkis­stjórn landsins er að taka til umfjöll­unar mál allra þeirra sem hafa til allra óham­ingju látið lífið eða horfið í Rufiji. Það er mjög sorg­legt að maður sem var aðeins að sinna vinnu sinni hafi látið lífið.“

Síðar sama dag dróg ráðherrann yfir­lýs­ingu sína til baka og sagði:

„Því miður mistúlkuðu sumir fjöl­miðlar viðtalið við mig á þann veg að ég hafi stað­fest dauða Azory.“

Azory Gwanda

Tengt efni