Miðausturlönd

Árið 2011 hófst bylgja mótmæla víðs vegar um Miðaust­ur­lönd sem átti sér ekki fordæmi á svæðinu. Mótmælin hófust í Túnis og breiddist út til Egypta­lands, Jemen, Barein, Líbíu og Sýrlands. Leið­togar einræð­is­stjórna voru steyptir af stóli, m.a. í Túnis og Egyptalandi. Von breiddist út um að Arab­a­vorið, eins og þessi bylgja var kölluð, myndi leiða til póli­tískra umbóta og samfé­lags­legs rétt­lætis. Raunin varð hins vegar sú að stríðs­átök og ofbeldi fylgdu í kjöl­farið og herjuðu stjórn­völd á einstak­linga sem kölluðu eftir sann­gjarnara samfé­lagi.

Túnis var í raun eina landið sem talið er hafa náð árangri eftir þessi mótmæli þar sem mörg skref voru tekin í átt að vernd mann­rétt­inda með nýrri stjórn­ar­skrá. Þrátt fyrir það hefur tján­ing­ar­frelsið átt undir högg að sækja þar líkt og í öðrum löndum á svæðinu. Fjallað verður um Miðaust­ur­lönd í heild sinni en síðan er nánari umfjöllun um fjögur lönd í Miðaust­ur­löndum: Egypta­land, Íran, Marokkó og Sádi-Arabíu.

Takmörkun tjáningarfrelsis

Rétt­urinn til tján­ing­ar­frelsis er veru­lega takmark­aður í Miðaust­ur­löndum. Samkvæmt Amnesty Internati­onal voru 367 mann­rétt­inda­fröm­uðir settir í varð­hald og 119 sættu málsókn árið 2019. Raun­veru­lega tölur eru þó að öllum líkindum tölu­vert hærri. Samviskufangar voru skráðir í tólf löndum af nítján á svæðinu.

Það er hættu­legt að tjá sig á netinu á svæðinu en 136 einstak­lingar voru hand­teknir fyrir það eitt að tjá sig með frið­sömum hætti á þeim vett­vangi samkvæmt tölum sem Amnesty Internati­onal komst yfir árið 2019. Víða herjuðu stjórn­völd á einstak­linga sem gagn­rýndu stefnu yfir­valda á samfé­lags­miðlum. Í Alsír, Barein, Egyptalandi, Íran, Jórdaníu, Kúveit, Líbanon, Líbíu, Marokkó og Vestur-Sahara, Sádi-Arabíu og Túnis voru aðgerða­sinnar, blogg­arar og fjöl­miðla­fólk hand­tekin og yfir­heyrð fyrir gagn­rýni á samfé­lags­miðlum. Í sumum tilfellum var fólkið sett í varð­hald eða dæmt í fang­elsi.

Netið var ritskoðað í þremur löndum árið 2019, í Egyptalandi, Palestínu og Íran þar sem ýmist var lokað  á vefsíður sem voru í óþökk stjórn­valda eða reynt að loka fyrir samskipti í gegnum samskipta-og samfé­lags­miðla í kjölfar mótmæla.

Frá árinu 2017 hefur hugbún­aður frá ísra­elska fyrir­tækinu NSO Group verið notaður gegn aðgerða­sinnum á svæðinu. Vitað er til þess að njósnað hafi verið um starfs­mann Amnesty Internati­onal og aðgerða­sinna í Marokkó, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmunum. Stjórn­völd rétt­lættu notkun þess­arar tækni með því að vísa í baráttu gegn glæpum og hryðju­verkumí nafni þjóðarör­yggis. Þau rök standast ekki ef horft er til þess hvaða einstak­linga er herjað á með þessari tækni.

Málsóknir gegn hugbún­að­inum NSO áttu sér stað árið 2019. Amnesty Internati­onal studdi málsókn gegn ísra­elska varn­ar­mála­ráðu­neytinu til að draga leyfi NSO til baka. Face­book og What­sApp hófu málsókn í banda­rískum alrík­is­dóm­stóli gegn NSO fyrir hönd Barein, Sameinuðu arab­ísku fursta­dæm­anna og annarra landa. Þar var sagt að stuðst hafi verið við hugbún­aðinn  í 1.400 tækum einstak­linga, þeirra á meðal fjöl­miðla­fólks, gagn­rýn­enda stjórn­valda og mann­rétt­inda­frömuða í ýmsum löndum eins og Barein og Sameinuðu arab­ísku fursta­dæm­anna.

Félaga-og fundafrelsi

Víðs vegar um Miðaust­ur­lönd voru mótmæli árið 2019. Í Alsír, Íran, Írak, Líbanon og á hernumdu svæðum Palestínu fór bylgja fjölda­mót­mæla fram en þau stóðu yfir vikum saman sem er magnað í ljósi þess að áður hefur mótmælum verið mætt af mikilli hörku á svæðinu, eins og í Arab­a­vorinu.  Smærri mótmæli áttu sér einnig stað í Egyptalandi, Palestínu Jórdaníu, Marokkó og Vestur-Sahara, Óman og Túnis.

Stjórn­völd brugðust víða við með harka­legum aðgerðum þar sem óhóf­legri vald­beit­ingu var beitt gegn frið­sömum mótmæl­endum. Amnesty Internati­onal skráði óhóf­lega vald­beit­ingu með gúmmí­kúlum, öflugum vatns­byssum og kylfum í tíu löndum á svæðinu árið 2019. Líkt og undan­farin ár urðu hersveitir og örygg­is­sveitir Ísraels valdir að dauða tugi Palestínubúa í mótmælum á Gaza og Vest­ur­bakk­anum árið 2019.

Örygg­is­sveitir í Írak og Íran skutu einnig byssu­skotum að mótmæl­endum. Mann­fallið var með hæsta móti í þessum tveimur löndum en þar höfðu rúmlega 800 mótmæl­endur fallið í lok ársins 2019.  Íran lokaði einnig nánast alveg fyrir netið þegar mótmælin stóðu sem hæst yfir í landinu.

Örygg­is­sveitir hand­tóku að geðþótta þúsundir mótmæl­enda á svæðinu árið 2019, einkum í Alsír, Egypta­land, Íran og Írak. Þvinguð manns­hvörf átti sér stað í að minnsta kosti átta löndum. Í Egypta­landi sættu hundruð mótmæl­enda þvinguðu manns­hvarfi í allt að 183 daga þar sem fólki var haldið í leyni af hálfu yfir­valda. Vitað er um 710 þvinguð manns­hvörf í landinu árið 2019. Þvinguð manns­hvörf áttu sér einnig stað í tengslum við mótmælin í Íran. Stjórn­völd í Jemen beittu einnig þving­uðum manns­hvörfum gegn gagn­rýn­endum stjórn­valda.

Enn og aftur sýnir fólk hugrekki að mótmæla út á götu þrátt fyrir harka­legar aðgerðir stjórn­valda.

Tengt efni