Árið 2011 hófst bylgja mótmæla víðs vegar um Miðausturlönd sem átti sér ekki fordæmi á svæðinu. Mótmælin hófust í Túnis og breiddist út til Egyptalands, Jemen, Barein, Líbíu og Sýrlands. Leiðtogar einræðisstjórna voru steyptir af stóli, m.a. í Túnis og Egyptalandi. Von breiddist út um að Arabavorið, eins og þessi bylgja var kölluð, myndi leiða til pólitískra umbóta og samfélagslegs réttlætis. Raunin varð hins vegar sú að stríðsátök og ofbeldi fylgdu í kjölfarið og herjuðu stjórnvöld á einstaklinga sem kölluðu eftir sanngjarnara samfélagi.
Túnis var í raun eina landið sem talið er hafa náð árangri eftir þessi mótmæli þar sem mörg skref voru tekin í átt að vernd mannréttinda með nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir það hefur tjáningarfrelsið átt undir högg að sækja þar líkt og í öðrum löndum á svæðinu. Fjallað verður um Miðausturlönd í heild sinni en síðan er nánari umfjöllun um fjögur lönd í Miðausturlöndum: Egyptaland, Íran, Marokkó og Sádi-Arabíu.
Takmörkun tjáningarfrelsis
Rétturinn til tjáningarfrelsis er verulega takmarkaður í Miðausturlöndum. Samkvæmt Amnesty International voru 367 mannréttindafrömuðir settir í varðhald og 119 sættu málsókn árið 2019. Raunverulega tölur eru þó að öllum líkindum töluvert hærri. Samviskufangar voru skráðir í tólf löndum af nítján á svæðinu.
Það er hættulegt að tjá sig á netinu á svæðinu en 136 einstaklingar voru handteknir fyrir það eitt að tjá sig með friðsömum hætti á þeim vettvangi samkvæmt tölum sem Amnesty International komst yfir árið 2019. Víða herjuðu stjórnvöld á einstaklinga sem gagnrýndu stefnu yfirvalda á samfélagsmiðlum. Í Alsír, Barein, Egyptalandi, Íran, Jórdaníu, Kúveit, Líbanon, Líbíu, Marokkó og Vestur-Sahara, Sádi-Arabíu og Túnis voru aðgerðasinnar, bloggarar og fjölmiðlafólk handtekin og yfirheyrð fyrir gagnrýni á samfélagsmiðlum. Í sumum tilfellum var fólkið sett í varðhald eða dæmt í fangelsi.
Netið var ritskoðað í þremur löndum árið 2019, í Egyptalandi, Palestínu og Íran þar sem ýmist var lokað á vefsíður sem voru í óþökk stjórnvalda eða reynt að loka fyrir samskipti í gegnum samskipta-og samfélagsmiðla í kjölfar mótmæla.
Frá árinu 2017 hefur hugbúnaður frá ísraelska fyrirtækinu NSO Group verið notaður gegn aðgerðasinnum á svæðinu. Vitað er til þess að njósnað hafi verið um starfsmann Amnesty International og aðgerðasinna í Marokkó, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Stjórnvöld réttlættu notkun þessarar tækni með því að vísa í baráttu gegn glæpum og hryðjuverkumí nafni þjóðaröryggis. Þau rök standast ekki ef horft er til þess hvaða einstaklinga er herjað á með þessari tækni.
Málsóknir gegn hugbúnaðinum NSO áttu sér stað árið 2019. Amnesty International studdi málsókn gegn ísraelska varnarmálaráðuneytinu til að draga leyfi NSO til baka. Facebook og WhatsApp hófu málsókn í bandarískum alríkisdómstóli gegn NSO fyrir hönd Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og annarra landa. Þar var sagt að stuðst hafi verið við hugbúnaðinn í 1.400 tækum einstaklinga, þeirra á meðal fjölmiðlafólks, gagnrýnenda stjórnvalda og mannréttindafrömuða í ýmsum löndum eins og Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Félaga-og fundafrelsi
Víðs vegar um Miðausturlönd voru mótmæli árið 2019. Í Alsír, Íran, Írak, Líbanon og á hernumdu svæðum Palestínu fór bylgja fjöldamótmæla fram en þau stóðu yfir vikum saman sem er magnað í ljósi þess að áður hefur mótmælum verið mætt af mikilli hörku á svæðinu, eins og í Arabavorinu. Smærri mótmæli áttu sér einnig stað í Egyptalandi, Palestínu Jórdaníu, Marokkó og Vestur-Sahara, Óman og Túnis.
Stjórnvöld brugðust víða við með harkalegum aðgerðum þar sem óhóflegri valdbeitingu var beitt gegn friðsömum mótmælendum. Amnesty International skráði óhóflega valdbeitingu með gúmmíkúlum, öflugum vatnsbyssum og kylfum í tíu löndum á svæðinu árið 2019. Líkt og undanfarin ár urðu hersveitir og öryggissveitir Ísraels valdir að dauða tugi Palestínubúa í mótmælum á Gaza og Vesturbakkanum árið 2019.
Öryggissveitir í Írak og Íran skutu einnig byssuskotum að mótmælendum. Mannfallið var með hæsta móti í þessum tveimur löndum en þar höfðu rúmlega 800 mótmælendur fallið í lok ársins 2019. Íran lokaði einnig nánast alveg fyrir netið þegar mótmælin stóðu sem hæst yfir í landinu.
Öryggissveitir handtóku að geðþótta þúsundir mótmælenda á svæðinu árið 2019, einkum í Alsír, Egyptaland, Íran og Írak. Þvinguð mannshvörf átti sér stað í að minnsta kosti átta löndum. Í Egyptalandi sættu hundruð mótmælenda þvinguðu mannshvarfi í allt að 183 daga þar sem fólki var haldið í leyni af hálfu yfirvalda. Vitað er um 710 þvinguð mannshvörf í landinu árið 2019. Þvinguð mannshvörf áttu sér einnig stað í tengslum við mótmælin í Íran. Stjórnvöld í Jemen beittu einnig þvinguðum mannshvörfum gegn gagnrýnendum stjórnvalda.
Enn og aftur sýnir fólk hugrekki að mótmæla út á götu þrátt fyrir harkalegar aðgerðir stjórnvalda.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu