Sádi-Arabía

Tján­ingar-, funda-, og félaga­frelsið er veru­lega skert í Sádi-Arabíu. Stjórn­völd hafa lokað öllum óháðum mann­rétt­inda­sam­tökum í landinu frá árinu 2013. Yfir­völd leyfa heldur ekki stjórn­mála­flokka eða stétt­ar­félög. Allar samkomur, þar á meðal frið­samleg mótmæli, hafa verið bann­aðar frá árinu 2011.

Kerf­is­bundin takmörkun á tján­ing­ar­frelsinu er hluti af herferð stjórn­valda til að bæla niður alla umræðu um mann­rétt­inda­brot í Sádi-Arabíu. Nánast allir mann­rétt­inda­fröm­uðir hafa verið fang­els­aðir, þaggað hefur verið niður í þeim eða þeir flúið land. Mann­rétt­inda­fröm­uðir, þar á meðal baráttu­konur fyrir kven­rétt­indum, trúar­leið­togar, rithöf­undar, ættingjar þolenda mann­rétt­inda­brota og einstak­lingar sem eiga í samskiptum við alþjóðleg mann­rétt­inda­samtök eins og Amnesty Internati­onal eru þeir hópar sem herjað er á. Í lok árs 2019 hafði Amnesty Internati­onal skráð 30 samviskufanga sem voru að afplána fimm til 30 ár í fang­elsi fyrir það eitt að nýta sér tján­ingar-og funda­frelsið.

Sérstakur sakamáladómstóll

Stjórn­völd hafa beitt sérstökum saka­mála­dóm­stól til kerf­is­bund­innar þögg­unar í landinu, samkvæmt skýrslu Amnesty Internati­onal. Mann­rétt­inda­fröm­uðir, aðgerða­sinnar, fjöl­miðla­fólk, trúarklerkar og sjíta-múslímar hafa hlotið þunga dóma í kjölfar ósann­gjarnra rétt­ar­halda.

Sérstaki saka­mála­dóm­stóllinn var upphaf­lega stofn­settur árið 2008 í þeim tilgangi að rétta yfir einstak­lingum sem voru ákærðir fyrir hryðju­verk en tímamót urðu í maí 2011 þegar dómstóllinn hóf að rétta yfir einstak­lingum sem stjórn­völd vildu þagga niður í með beit­ingu óljósra laga­ákvæða gegn hryðju­verkum og netglæpum.

Síðan þá hafa margir einstak­lingar sætt ósann­gjörnum rétt­ar­höldum fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tján­ing­ar­frelsis á frið­saman máta.

Dómstóllinn starfar ekki eftir skýru og grein­ar­góðu verklagi og talið er að skipan dómara byggist á tryggð við stjórn­völd. Ákærur eru óskýrar og ekki skil­greindar með skýrum hætti í lögum. Þannig hafa frið­samar póli­tískar aðgerðir oft flokkast sem hryðju­verk.

Algengar ákærur eru:

  • „Óholl­usta og óhlýðni gagn­vart þjóð­höfð­ingja Sádi-Arabíu“
  • „Að véfengja heil­indi embætt­is­manna“
  • „Ógnun við öryggi og hvatning til óeirða með mótmælum“
  • „Dreifing á fölskum upplýs­ingum til erlendra hópa“
  • „Stofnun og þátt­taka í óleyfi­legum samtökum“

 

Sumar af þessum ákærum stríða gegn alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum og -stöðlum.

Þöggun gegn baráttukonum

Rétt­indi kvenna í Sádi-Arabíu hafa verið bágborin. Konur ráða ekki yfir lífi sínu þar sem þær þurfa að lúta forsjá karl­manns. Einhverjar umbætur í lögum hafa þó verið gerðar á síðustu árum. Í júní árið 2018 var akst­urs­banni kvenna aflétt og í ágúst 2019 fengu konur aukið ferða­frelsi án samþykkis karl­kyns forráða­manns og rétt til að skrá hjóna­band, skilnað, fæðingu og dauðs­fall.

Þrátt fyrir þessar umbætur hafa yfir­völd á sama tíma herjað á helstu baráttu­konur landsins sem hafa meðal annars kallað eftir sömu rétt­indum.

Að mótmæla eða tjá sig um rétt­indi kvenna sem þykja sjálf­sögð annars staðar er hættu­legt. Barátta kvenna fyrir afnámi á akst­urs­banni kvenna er löng og hefur banninu reglu­lega verið  mótmælt allt frá 1990 þegar 40 konur mótmæltu með því að keyra bíl niður aðal­götu í höfuð­borg­inni Riyad en voru stöðv­aðar af lögreglu. Í október 2013 hófst enn ein herferðin og markaði Loujain al-Hathloul upphaf hennar með því að birta á netinu mynd­band af sér keyra. Þrátt fyrir hótanir og áreitni héldu tugir kvenna áfram að birta mynd­bönd af sér að keyra. Sumar þeirra voru hand­teknar en flestar voru leystar úr haldi eftir stuttan tíma.

Í kjölfar tilskip­unar stjórn­valda árið 2017 þar sem gefið var út að akst­urs­banni kvenna yrði aflétt í júní 2018 fengu nokkrar baráttu­konur símtöl þar sem þær voru varaðar við því að tjá sig opin­ber­lega um það.

Um sama leyti og eftir að akst­urs­banni kvenna var aflétt voru helstu baráttu­konur fyrir rétt­indum kvenna í Sádi-Arabíu hand­teknar fyrir baráttu sína.

Í maí 2020 stóðu 13 baráttu­konur enn frammi fyrir rétt­ar­höldum, þar af voru fimm enn í haldi, Loujain al-Hathloul, Samar Badawi, Nassima al-Sada, Nouf Abdulaziz and Maya’a al-Zahran. Mál þeirra fór ekki í gegnum sérstaka saka­máls­dóm­stólinn eins og búist var við í fyrstu en réttað var yfir þeim vegna frið­sam­legrar mann­rétt­inda­bar­áttu og baráttu fyrir rétt­indum kvenna. Loujain al-Hathloul var leyst úr haldi í febrúar 2021 og Nassima al-Sada og Samar Badawi voru leystar úr haldi í júní 2021 en voru allar settar í ferða­bann.

Tjáningarfrelsi á netinu

Lög um netglæpi í Sádi-Arabíu kveða á um að fram­leiðsla, undir­bún­ingur, útsending eða geymsla efnis sem stríðir gegn friði meðal almenn­ings, trúar­gildum, almennu siðferði og einka­lífi á netmiðlum eða tölvum sé refsi­verð. Allt að fimm ára fang­els­is­dómur auk sektar getur legið við brotum á umræddum lögum.

Stjórn­völd beittu þessum lögum þegar þau þrýstu á Netflix að fjar­lægja grín­þátt í Sádi-Arabíu þar sem þau sögðu hann brjóta gegn lögum um netglæpi. Umræddur þáttur, Patriot Act, gagn­rýnir krón­prins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, vegna morðsins á blaða­mann­inum Jamal Khasoggi. Netflix fjar­lægði þáttinn og sendi frá sér yfir­lýs­ingu í byrjun árs 2019 um að fyrir­tækið hefði farið eftir lögum í viðkom­andi landi en styddi að öðru leyti við list­rænt frelsi. Sömu lög hafa einnig verið notuð til að þagga niður í gagn­rýn­endum stjórn­valda og iðulega í gegnum sérstakan saka­mála­dóm­stól.

Mál einstaklinga

Nassima al-Sada

Nassima al-Sada hefur barist fyrir frelsi kvenna í Sádi-Arabíu mikinn hluta ævi sinnar. Baráttan leiddi til þess að hún var sjálf svipt frelsi. Hún var ein af nokkrum þekktum baráttu­konum í Sádi-Arabíu sem kröfðust þess að konur fengju rétt til að aka bíl og sinna daglegum erindum án leyfis karl­kyns forráða­manns. Árið 2016 skrifaði Nassima:

„Af hverju ætti piltur undir lögaldri að hafa forræði yfir full­orð­inni konu? Af hverju er ekki sjálfræðis­aldur fyrir konur svo þær fái að bera ábyrgð á ákvörð­unum sínum og lífi? Af hverju þarf karl­maður að bera ábyrgð á lífi konu?“

Nassima var hand­tekin fyrir frið­sam­lega mann­rétt­inda­bar­áttu sína í júlí 2018. Hún sætti illri meðferð í varð­haldi. Hún var sett í algjöra einangrun frá öðrum föngum frá febrúar 2019 til febrúar 2020. Hún fær að hringja viku­lega í fjöl­skyldu sína en fær engar heim­sóknir, ekki einu sinni frá lögmanni sínum.

Ákall Amnesty Internati­onal.

Góðar fréttir: Nassima var leyst úr haldi í júní 2021!

Loujain al-Hathlou var ein þeirra kvenna sem setti af stað herferð gegn akst­urs­banni kvenna í Sádi-Arabíu í október 2013. Hún var við nám í Kanada en fór til Sádi-Arabíu í þeim tilgangi að taka þátt í herferð­inni. Hún birti á netinu mynd­band af sér keyra bíl frá flug­vell­inum eftir komuna til landsins sem faðir hennar tók upp. Hún varð strax andlit #Women2Drive herferð­ar­innar.

Hún var hand­tekin í maí 2018 en áður hafði hún verið hand­tekin árin 2017 og 2014 vegna baráttu sinnar fyrir rétt­indum kvenna. Hún var sökuð um að brjóta hryðju­verkalög með því að stofna hryðju­verkahóp og eiga í samskiptum við erlenda aðila með það að mark­miði að grafa undan öryggi og stöð­ug­leika ríkisins. Fyrstu þrjá mánuði í haldi var hún í einangrun og fékk ekki að eiga samskipti við lögfræðing eða fjöl­skyldu sína. Að auki sætti hún pynd­ingum í fang­elsi.

Rétt­ar­höld hennar hófust í mars 2019 fyrir dómstól í Riyad. Hún var dæmd í desember 2020 í sex ára fang­elsi, þar af tæp þrjú ár óskil­orðs­bundin.

Hún var loks leyst úr haldi þann 10. febrúar 2021 eftir að hafa setið næstum þrjú ár í fang­elsi.

Loujain al-Hathloul er í litabók Amnesty Internati­onal ásamt öðru baráttu­fólki fyrir mann­rétt­indum. Hægt er að kaupa bókina hér.

Raif Badawi

Blogg­arinn Raif Badawi var samviskufangi sem var í haldi fyrir að nýta tján­ing­ar­frelsi sitt.

Hann var hand­tekinn í júní 2012 og dæmdur árið 2014 í tíu ára fang­elsi, tíu ára ferða­bann og til sektar sem samsvarar rúmlega 35 millj­ónum króna fyrir að móðga íslamstrú og að setja upp vefsíðu ætlaða til samfé­lags­legrar og póli­tískrar umræðu í Sádi-Arabíu. Að auki var hann dæmdur til 1000 svipu­högga. Hann sætti 50 svipu­höggum á almenn­ing­s­torgi í Jeddah í janúar 2015 en hefur ekki verið hýddur á ný. Hann var loks leystur úr haldi þann 11. mars 2022 en þá tók við 10 ára ferða­bann sem hindrar það að hann geti hitt fjöl­skyldu sína sem býr í Kanada.

Lögfræð­ingur hans, Waleed Abu al-Khair, var einnig dæmdur í 15 ára fang­elsis­vist fyrir mann­rétt­inda­störf sín árið 2014.

Blaða­mað­urinn Jamal Khashoggi flúði Sádi-Arabíu til Banda­ríkj­anna vegna ofsókna gegn aðgerða­sinnum. Hann átti erindi á skrif­stofu ræðis­manns Sádi-Arabíu í október 2018 til að ná í pappíra en ekkert spurðist til hans eftir það. Yfir­völd í Sádi-Arabíu neituðu í fyrstu vitn­eskju um hvarf hans. Amnesty Internati­onal kallaði eftir óháðri rann­sókn á hvarfi hans. Síðar kom í ljós að um aftöku án dóms og laga væri að ræða með aðkomu stjórn­valda í Sádi-Arabíu.

Síðasta grein hans bar yfir­skriftina: Það sem Arab­aheim­urinn þarfnast helst er tján­ing­ar­frelsi. Í grein­inni skrifaði hann: „Arab­aheim­urinn fylltist af von árið 2011 í arab­a­vorinu. Fjöl­miðla­fólk, háskóla­fólk og unga fólkið var uppfullt af vænt­ingum um bjart og frjálst arab­ískt samfélag í sínum eigin löndum.“

Í desember 2019 voru fimm einstak­lingar dæmdir til dauða og þrír til fang­elsis­vistar vegna morðsins á Khasoggi en rétt­ar­höldin voru lokuð. Litið var fram hjá ábyrgð yfir­valda í Sádi-Arabíu á morðinu í dóms­úrskurð­inum.

Samar Badawi, systir samviskufangans Raif Badawi, er einnig á meðal baráttu­kvenna sem var enn í haldi í mars 2020 fyrir baráttu sína fyrir mann­rétt­indum.

Hún var hand­tekin sumarið 2018. Stuttu síðar á Twitter-aðgangi utan­rík­is­ráðu­neytis Kanada var kallaði eftir lausn systkin­anna. Í kjöl­farið mynd­aðist mikil spenna á milli ríkj­anna þar sem Sádi-Arabía hótaði að loka sendi­ráði sínu í Kanada og reka sendi­herra Kanada úr landi.

Samar hafði áður verið hand­tekin í janúar 2016, líklega vegna þess að hún hafði umsjón með Twitter-aðgangi þar sem kallað var eftir lausn Waleed Abu al-Khair sem er fyrrum eigin­maður hennar og lögfræð­ingur bróður hennar.

Góð frétt: Samar Badawi var leyst úr haldi í júní 2021!

Tengt efni