Íran

16 ára fangelsisdómur fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu

Hvítum blómum dreift af hlýhug, höfuðslæða fjar­lægð gæti­lega: einföld athöfn sem Yasaman Aryani vogaði sér að standa fyrir í almenn­ings­lest í Íran. Þetta var á alþjóð­legum baráttu­degi kvenna 2019 og Yasaman, leik­kona sem elskar fjallaklifur, storkaði þarna lögum um höfuðslæður í Íran með ögrandi gjörn­ingi.

Góð frétt: Fang­els­is­dómur Yasaman og móður hennar hefur verið styttur úr 16 árum í 9 ár og 7 mánuði. Barátt­unni er þó ekki lokið.

Yasaman og móðir hennar gengu hiklaust með hárið óhulið um lest­ar­vagn einungis ætlaðan konum og dreifðu hvítum blómum meðal farþega. Yasaman talaði um fram­tíð­ar­vonir sínar þegar allar konur hefðu frelsi til að velja hverju þær klæðast og þær gætu allar gengið saman „ég án höfuðslæðu og þú með höfuðslæðu“. Þessi viðburður náðist á mynd­band og fór á flug á inter­netinu í mars 2019.

Þann 10. apríl 2019 var Yasaman hand­tekin og henni haldið í einangrun svo dögum skipti á meðan hún var yfir­heyrð. Henni var sagt að „játa“ að erlend öfl stæðu að baki aðgerðum hennar og að „iðrast“ gjörða sinna, annars yrðu vinir hennar og fjöl­skylda einnig hand­tekin. Þann 30. júlí 2019 fékk hún að vita að hún hefði verið dæmd í 16 ára fang­elsi. Hún þarf að afplána að minnsta kosti tíu ár.

Hin grimmi­lega refsing Yasaman er þáttur í víðtækri aðför gegn konum sem berjast gegn lögum um höfuðslæðu í Íran. Frá árinu 2018 hafa tugir kvenna, þar á meðal móðir Yasaman, Monireh Arab­s­hahi, verið hand­tekinn. Það má ekki viðgangast að írönsk stjórn­völd ræni Yasaman bestu árum lífs hennar vegna þess eins að hún telur að konur eigi að hafa frelsi til að velja hverju þær klæðast.

Skrifaðu undir bréfið og krefðu stjórn­völd í Íran um að leysa Yasaman án tafar úr haldi.

Tengt efni

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Íran

Yfirvofandi aftökur

Behrouz Ehsani, 69 ára, og Mehdi Hassani, 48 ára, eiga á hættu að verða teknir af lífi eftir afar ósanngjörn réttarhöld sem stóðu yfir í aðeins fimm mínútur og var litið fram hjá ásökunum þeirra um pyndingar og aðra illa meðferð til að þvinga fram „játningu“. Skrifaðu undir ákall og krefstu þess að írönsk yfirvöld ógildi dauðadóma yfir Behrouz Ehsani og Mehdi Hassani og leysi þá úr haldi án tafar.

Bandaríkin

Leysið Mahmoud Khalil úr haldi

Innflytjendayfirvöld Bandaríkjanna handtóku Mahmoud Khalil ólöglega og sætir hann nú geðþóttavarðhaldi. Hann er palestínskur aðgerðasinni sem nýlega lauk námi við Columbia-háskólann. Yfirvöld hafa upplýst hann um að þau hafi „afturkallað“ dvalarleyfi hans og að brottvísunarferli sé hafið. Skrifaðu undir og krefstu þess að bandarísk yfirvöld leysi Mahmoud úr haldi, virði tjáningar- og fundafrelsi hans og tryggi réttláta málsmeðferð.

Rússland

Stríðsglæpum gegn Úkraínubúum í haldi verður að linna

Í Rússlandi eru þúsundir úkraínskra hermanna og óbreyttra borgara í haldi. Fjölskyldur stríðsfanganna fá engar upplýsingar og ná ekki sambandi við fjölskyldumeðlimi sem eru í haldi. Þær leita örvæntingafull upplýsinga um ástvini sína og fjölskyldumeðlimi. Margir fangar njóta ekki grundvallarréttinda svo sem að eiga í samskiptum við ástvini og fjölskyldur og verða fyrir ómannúðlegri meðferð eins og pyndingum, kynferðisofbeldi og er synjað um heilbrigðisþjónustu á sama tíma og heilsu þeirra hrakar. Þessi meðferð stríðsfanga telst til stríðsglæpa og glæpa gegn mannúð. Skrifaðu undir ákall um að rússnesk yfirvöld bindi enda á þessa stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð.

Haítí

Vernd fyrir börn gegn glæpagengjum á Haítí

Síaukið ofbeldi glæpagengja á Haítí bitnar verst á haítískum börnum. Þau eru svipt öruggu rými til að leika sér og læra og eru neydd til að alast upp í umhverfi þar sem ótti og óvissa ráða ríkjum. Vegna áskorana hjá haítískum yfirvöldum og aðgerðaleysis alþjóðasamfélagsins hefur neyðin aukist og skapað vítahring ofbeldis og vanrækslu. Skrifaðu undir ákall til haítískra yfirvalda og krefstu verndar fyrir börn á Haítí.

Bandaríkin

Hætta steðjar að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að hrinda í framkvæmd áform um brottvísanir sem beinast að milljónum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Bandarískum stjórnvöldum ber skylda samkvæmt alþjóðalögum að tryggja að lög þeirra, stefnur og verklag leiði ekki til aukinnar hættu á að brotið sé á mannréttindum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Skrifaðu undir ákall um að Trump forseti virði mannréttindi innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd og hætti við þau áform um vísa fjölda fólks úr landi.

Íran

Hætta er á fleiri aftökum í tengslum við mótmæli

Að minnsta kosti tíu einstaklingar í Íran eiga yfir höfði sér aftöku í kjölfar dauðadóma í tengslum við mótmæli sem kennd voru við slagorðið „Kona, líf, frelsi“. Skrifaðu undir ákall um að írönsk stjórn­völd ógildi dauðadóma yfir friðsama mótmælendur og leysi úr haldi þá mótmæl­endur sem eru í haldi fyrir það eitt að tjá sig með frið­sam­legum hætti.

Ekvador

Binda þarf enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum

Stjórnvöld í Ekvador hafa ekki framfylgt dómsúrskurði sem féll í vil níu baráttustúlkna og ungra kvenna um að binda enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum. Gasbrunar brjóta á réttindum íbúa nærliggjandi svæða vegna mengunar sem þeir valda. Skrifaðu undir ákall og krefstu þess að forseti Ekvador hrindi af stað áætlun um að stöðva notkun gasbruna (sérstaklega þeirra sem staðsettir eru 5 km frá byggð) í samræmi við dómsúrskurð, verndi mannréttindi íbúa sem búa í grennd við gasbruna, stuðli að réttlátum orkuskiptum þar sem dregið verður smám saman úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Alþjóðlegt

TikTok þarf að gæta öryggis barna og ungs fólks

Ungir notendur lýsa TikTok sem skaðlegum og ávanabindandi miðli þar sem þeir eiga á hættu að verða háð miðlinum út af tillögum sem sérstaklega eru sniðnar að þeim. Börn og ungt fólk sem horfa á myndefni sem tengist geðheilsu á TikTok eru líklegri til að fá tillögur um að horfa á sífellt fleiri myndbönd sem fjalla um, fegra og jafnvel hvetja til þunglyndislegra hugsana, sjálfskaða og sjálfsvígs. Skrifaðu undir og krefstu þess að að TikTok banni á heimsvísu sérsniðnar auglýsingar sem beint er að ungum notendum, og sjái til þess að það sé val að hafa sérsníðaðar tillögur að myndefni á efnisveitunni í stað þess að það sé sjálfgefið.