Eftir írönsku byltinguna árið 1979 lögðu írönsk stjórnvöld grunninn að þeirri kúgunarstjórn sem er enn við lýði. Þá voru sett lög sem takmörkuðu tjáningar-, félaga- og fundafrelsið með ýmsum hætti. Í kjölfar umdeildra kosninga árið 2009 hertu stjórnvöld enn frekar tökin. Þúsundir einstaklinga voru handteknir eftir kosningarnar og margir ákærðir og fangelsaðir. Aðrir flúðu land eða hættu að tjá sig.
Miklar vonir voru bundnar við nýjan forseta, Hassan Rouhani, sem var kosinn árið 2013 vegna loforða hans um aukið frelsi. Raunin varð önnur þar sem fjöldi fólks hefur sætt fangelsisvist, eftirliti, yfirheyrslu og langvarandi málsóknum og þannig þvingað til sjálfsritskoðunar.
Aukin harka gegn gagnrýni
Það hefur lengi verið hættulegt að tjá skoðanir sínar í Íran. Hættan á handtöku hefur lengi fylgt einstaklingum sem þora að tjá skoðanir sem eru í óþökk stjórnvalda. Ákærur á hendur þeim tengjast oftast brotum gegn þjóðaröryggi. Skilgreiningar á þessum brotum eru allt of víðtækar og óljósar og gefa yfirvöldum færi á að beita þeim að geðþótta. Flest þessi brot stangast á við alþjóðalög um hvað telst vera glæpur.
Undanfarin ár hefur aukinni hörku verið beitt gegn þeim sem eru handteknir fyrir að tjá sig friðsamlega. Dómarnir hafa þyngst og minna tilefni þarf til að fá á sig ákæru á borð við „brot gegn þjóðaröryggi“. Sem dæmi má nefna hafa viðtöl við erlendan fjölmiðil um stöðu mannréttinda eða þátttaka í umræðum um mannréttindi á samfélagsmiðlum eins og Facebook verið notuð sem sönnun um glæpsamlegt athæfi. Fjölskyldumeðlimir geta einnig átt á hættu að sæta yfirheyrslum og áreitni yfirvalda.
Yfirvöld herja einnig gegn þeim sem gagnrýna stjórnvöld með myndbirtingum og rógburði á netinu þar sem einstaklingar eru kallaðir föðurlandssvikarar og útsendarar erlendra afla sem ógna þjóðaröryggi og menningarlegum gildum.
Árið 2019 voru að minnsta kosti 240 mannréttindafrömuðir handteknir, þeirra á meðal fjölmiðlafólk, stjórnarandstæðingar, lögfræðingar, umhverfisverndarsinnar, aðgerðasinnar gegn dauðarefsingunni og baráttufólk fyrir réttindum kvenna, verkafólks og minnihlutahópa.
Barátta fyrir réttindum kvenna er talin vera „samsæri gegn þjóðaröryggi“.
Fjölmargar konur hafa verið handteknar fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu sem þvingar konur til að ganga með höfuðslæðu á almannafæri. Ein af þeim er Yasaman Aryani sem var upphaflega dæmd í 16 ára fangelsi fyrir gjörning á baráttudegi kvenna í mars 2019 þar sem hún dreifði blómum og talaði um vonir sínar um frelsi kvenna til að velja hverju þær klæðast. Eftir að myndband af gjörningi hennar fór á flug var hún handtekin. Móðir hennar sem var með henni var einnig dæmd í fangelsi. Saba Kordafshari, 21 árs baráttukona fyrir mannréttindum, var dæmd í 24 ára fangelsi m.a. fyrir mótmæli gegn írönskum lögum um höfuðslæðu.
Fjölmiðlafrelsi
Fjölmiðlafrelsi hefur lengi verið takmarkað í Íran og í kjölfar kosninganna árið 2009 var reynt að bæla niður allt andóf með enn frekari takmörkunum. Fjöldi fjölmiðlafólks var handtekinn og fangelsaður, lokað var á útgáfu ýmiss efnis og fréttaflutnings. Í janúar 2010 bönnuðu írönsk yfirvöld samskipti við 60 erlenda fjölmiðla og samtök, þar á meðal BBC.
Stjórnvöld hafa einnig beitt leiðum eins og ritskoðun fjölmiðla, truflun á útsendingu erlendra gervihnattastöðva og lokun á Facebook, Telegram, Twitter og YouTube. Instagram-notendur með marga fylgjendur, eins og tónlistarfólk, hafa verið yfirheyrðir og í sumum tilfellum handteknir. Yfirvöld hafa tekið yfir reikning sumra þeirra.
Fjölmiðlafólk er fangelsað fyrir störf sín með beitingu óljósra ákvæða í lögum á borð við „útbreiðslu lyga“, „dreifingu áróðurs gegn stjórnkerfinu“ og „móðgun við ríkisstarfsmenn“.
Fjölmiðlakonan Marzieh Amiri var handtekin þegar hún fjallaði um kröfugöngu á alþjóðlega verkalýðsdeginum í maí 2019. Hún var ákærð fyrir „dreifingu áróðurs gegn stjórnkerfinu“ og dæmd í rúmlega tíu ára fangelsi auk 148 svipuhögga en dómur var mildaður í fimm ár við áfrýjun.
Funda-og félagafrelsi
Fundafrelsi er skert í Íran og það þarf hugrekki til að mæta á friðsöm mótmæli þar sem stjórnvöld bregðast harkalega við. Þrátt fyrir það hefur fjöldi mótmæla átt sér stað undanfarin ár. Árið 2018 voru 7.0000 einstaklingar handteknir fyrir andóf gegn stjórnvöldum í tengslum við mótmæli. Á meðal þeirra voru mótmælendur, fjölmiðlafólk, umhverfisverndarsinnar og mannréttindafrömuðir. Hundruð voru dæmd í fangelsi eða til hýðingar og 26 mótmælendur voru myrtir. Níu einstaklingar sem voru handteknir fyrir mótmæli létu lífið í varðhaldi við grunsamlegar aðstæður.
Ein harkalegustu viðbrögð stjórnvalda við mótmælum voru dagana 15.-18. nóvember 2019 í mótmælum gegn olíuhækkunum sem fram fóru um land allt. Öryggissveitir beittu óhóflegu valdi til að brjóta á bak mótmælin. 304 mótmælendur féllu fyrir hendi öryggissveita, þar af 23 börn. Skotsár var algeng dánarorsök. Þúsundir mótmælenda voru handteknir að geðþótta. Sumir þeirra sættu þvinguðu mannshvarfi, pyndingum og annarri illri meðferð. Stjórnvöld lokuðu einnig nánast algjörlega fyrir netið á meðan mótmælin stóðu yfir til að koma í veg fyrir að fólk myndi deila myndum og myndböndum af ofbeldi öryggissveita.
Írönsk stjórnvöld reyna að auka enn á óttann til að koma í veg fyrir frekari mótmæli í versnandi pólitísku og efnahagslegu ástandi með beitingu dauðarefsingarinnar. Rouhollah Zam, ritstjóri AmadNews vinsæls netmiðils, var handtekinn í október 2019 og ásakaður um að hvetja til mótmæla tveimur árum áður. Ríkissjónvarpið í Íran birti í kjölfarið „játningu“ hans í áróðursmyndbandi. Í lok júní 2020 var tilkynnt að Rouhollah hefði verið dæmdur til dauða fyrir „dreifingu spillingar í heiminum“.
Verkalýðsfélög eru bönnuð í Íran en þrátt fyrir það hefur verkafólk stofnað slík félög. Baráttufólk fyrir bættum kjörum hefur verið rekið úr starfi eða þvingað á eftirlaun, sætt ofbeldi lögreglu, handtekið að geðþótta, sætt varðhaldi, pyndingum og annarri illri meðferð og fengið langa fangelsisdóma fyrir að „brjóta gegn þjóðaröryggi“. Þátttaka í kröfugöngu á verkalýðsdögum og boð á alþjóðlegar ráðstefnur fyrir verkalýðsfélög hafa verið notuð sem sönnunargögn gegn þeim í réttarhöldum. Mehran Raoof var handtekinn í október 2020 fyrir baráttu sína fyrir réttindum verkafólks. Sjá ákall hér.
Mannréttindamiðuð samtök og samtök sem eru gagnrýnin á stjórnvöld hafa verið bönnuð frá árinu 2009. Þá var öllum slíkum samtökum lokað og þeim neitað um skráningu eða starfsleyfi. Fjöldi stofnenda og meðlima var handtekinn og dæmdur í fangelsi.
Baráttufólk fyrir mannréttindum hefur því ekki lengur samtök á bak við sig. Það berst oft sjálfstætt eða sem hluti af óformlegum hópi. Samfélagsmiðlar og samskiptaforrit eru því mikilvæg fyrir samskipti og skipulagningu. Yfirvöld hafa í auknum mæli notað færslur á samfélagsmiðlum sem sönnun um glæpsamlegt athæfi.
Einnig er brotlegt að ræða um stöðu mannréttinda við frjáls félagasamtök eins og Amnesty International.
Arash Sadeghi var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir brot gegn þjóðaröryggi vegna mannréttindastarfa hans og eitt af því sem var notað gegn honum voru samskipti hans við Amnesty International. Önnur sönnunargögn gegn honum voru fjölmiðlaviðtöl við hann og færslur hans á Facebook um mannréttindabrot. Réttarhöld yfir Arash voru ósanngjörn og stóðu yfir í samtals 30 mínútur.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu