Arabavorið, bylgja mótmæla í Miðausturlöndum sem hófst í lok árs 2010, náði einnig til Marokkó. Þúsundir mótmælenda fóru út á götur í febrúar 2011 til að kalla eftir lýðræði, umbótum á stjórnarskrá og endalokum spillingar. Konungurinn í Marokkó lofaði umbótum og að mannréttindi yrðu virt. Gerðar voru breytingar á stjórnarskránni en konungur og herinn héldu áfram völdum. Fjölmargir samviskufangar voru leystir úr haldi það ár en aðrir voru handteknir.
Tjáningarfrelsi hefur átt undir högg að sækja þrátt fyrir þessar umbætur, meðal annars hefur fólk verið handtekið fyrir að gagnrýna konunginn eða konungsveldið. Yfirvöld í Marokkó herja enn á fjölmiðlafólk, bloggara, listafólk og aðgerðasinna fyrir að tjá skoðanir sínar á friðsaman máta. Tjáningarfrelsi var skert enn frekar með nýjum lögum í mars 2020. Funda- og félagafrelsi er einnig takmarkað þar í landi. Komið var í veg fyrir starfsemi hópa sem gagnrýndu stjórnvöld og óhóflegri og ónauðsynlegri valdbeitingu var beitt gegn mótmælum í Marokkó og Vestur-Sahara árið 2019.
Kórónuveirufaraldurinn
Fjöldi einstaklinga er í haldi fyrir að nýta sér tjáningarfrelsi sitt á friðsaman máta, þar á meðal rapparar, bloggarar og fjölmiðlafólk.
Búast má við fleiri slíkum málum því í mars 2020, í miðjum kórónuveirufaraldri, voru samþykkt lög með óskýrum skilgreiningum á „fölskum fréttum“ og bjóða lögin upp á enn frekari ritskoðun og skerðingu á tjáningarfrelsi.
Dreifing „falskra frétta“ í þeim tilgangi að skaða „þjóðaröryggi“ getur varðað allt að fimm ára fangelsi. Svipuð lög voru einnig sett á í Alsír mánuði síðar. Í sama mánuði voru einnig sett neyðarlög þar sem meðal annars má ekki „sporna gegn ákvörðunum“ stjórnvalda í lýðheilsumálum í rituðu máli eða myndefni.
Þessi aðför að tjáningarfrelsi er áhyggjuefni á tímum kórónuveirufaraldursins þegar almenningur þarf einna helst að fá óhindraðan aðgang að upplýsingum um faraldurinn og aðgerðir stjórnvalda. Þess í stað nota stjórnvöld faraldurinn til að þagga niður í gagnrýnendum stjórnvalda. Besta leiðin gegn fölskum og misvísandi upplýsingum er að tryggja að fólk hafi aðgang að gagnreyndum og trúverðugum upplýsingum en ekki að setja fólk í fangelsi fyrir að tjá skoðun sína eða ritskoða samfélagsmiðla.
Í lok mars 2020 handtók lögreglan 56 einstaklinga fyrir birtingu „falskra upplýsinga“ um COVID-19 samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu ríkissaksóknara í Marokkó.
Refsingar fyrir að nýta tjáningarfrelsið
Fjölmörg dæmi eru um að herjað sé á fólk fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt í Marokkó. Fólk hefur verið handtekið, ákært, dæmt eða jafnvel reynt að njósna um það til að þagga niður í því.
Amnesty International hefur skráð fjölmörg mál fjölmiðlafólks og mannréttindafrömuða sem hefur verið stefnt, það saksótt og handtekið í Marokkó fyrir færslur eða myndbönd á samfélagsmiðlum.
Dómar árið 2019:
Stjórnvöld hafa herjað enn frekar á friðsama gagnrýnendur stjórnvalda á netinu. Frá nóvember 2019 til janúar 2020 voru tíu einstaklingar, þar á meðal fjölmiðlafólk og tveir rapparar, handteknir að geðþótta og dæmdir í fangelsi fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt vegna ásakana um „að móðga embættisfólk og stofnanir“. Sjö þeirra voru enn í fangelsi í apríl 2020. Fjórir voru ásakaðir um að „móðga konunginn eða konungsveldið“. Lengsti fangelsisdómurinn var fjögur ár.
Meðal dæmdra voru eftirfarandi:
Yfirvöld hafa haldið áfram að herja á aðgerðasinnum í kórónuveirufaraldrinum. Amnesty International hefur skráð mál fimm einstaklinga sem voru handteknir í apríl og maí 2020 fyrir færslur á samfélagsmiðlum í tengslum við kórónuveirufaraldurinn:
Reynt að njósna um aðgerðasinna
Ítrekað hefur verið reynt að njósna um tvo aðgerðasinna, Maati Monjib og Abdessadak El Bouchattaoui, frá árinu 2017 með hugbúnaði frá ísraelska fyrirtækinu NSO Group. Maatti Monjib var handtekinn í desember 2020 fyrir störf sín í þágu tjáningarfrelsins. Lestu nánar um ákall í máli hans hér.
Átta aðgerðasinnar lögðu fram kvörtun til persónuverndar árið 2019 vegna þess að herjað var á þá með hugbúnaðinum. Fyrirtækið NSO Group er þekkt fyrir að selja eingöngu stjórnvöldum hugbúnaðinn sem leiðir líkum að því að marokkósk yfirvöld hafi staðið að baki njósnum í umræddum tilvikum.
Amnesty International gaf út skýrslu í júní 2020 þar sem kom einnig fram að njósnað væri um Omar Radi, aðgerðasinna og blaðamann, frá janúar 2019 til janúar 2020. Byrjað var að njósna um Omar þremur dögum eftir að NSO Group gaf út stefnu um mannréttindi. Eftir að skýrslan kom út var Omar ítrekað áreittur af stjórnvöldum og loks handtekinn þann 29. júlí 2020 og ákærður. Sjá nánar ákall Amnesty International í máli Omar Radi.
Funda-og félagafrelsi
Fundafrelsi er takmörkunum sett í Marokkó. Eitt af stærri dómsmálum gegn mótmælendum síðustu ár er í tengslum við Hirak El-Rif mótmælin, sem hófust árið 2016 á Rif-svæðinu í norðurhluta landsins, í kjölfar dauða fisksala af völdum lögregluofbeldis. Frá maí til júlí 2017 handtóku öryggissveitir hundruð mótmælenda, þar á meðal börn, fyrir þátttöku í mótmælunum þar sem krafist var betra samfélags. Í upphafi voru 54 dregnir fyrir dóm en 11 fengu náðun.
Á árinu 2019 var dómur yfir hinum 43 einstaklingunum staðfestur en þeir höfðu verið dæmdir í kjölfar ósanngjarna réttarhalda. Nasser Zefzafi, leiðtogi Hirak El-Rif-hreyfingarinnar, var dæmdur í 20 ára fangelsi meðal annars fyrir að „grafa undan þjóðaröryggi“. Í október 2019 bönnuðu stjórnvöld mótmæli til minningar um fisksalann sem var upphafið af Hirak El-Rif mótmælunum.
Í mótmælum árið 2019 beitti lögregla einnig óhóflegri og ónauðsynlegri valdbeitingu gegn friðsömum mótmælum kennara í Rabat sem kölluðu eftir betri vinnuaðstæðum en lögreglan beitti öflugum vatnsbyssum og kylfum til að sundra mótmælin.
Í júlí 2019 beitti lögregla óhóflegri valdbeitingu í Vestur-Sahara, með notkun gúmmíkúlna, kylfa og öflugra vatnsbyssa gegn fólki sem fagnaði sigri Alsírs í Afríkumótinu í fótbolta. Sabah Njourni lét lífið eftir að tveir lögreglubílar keyrðu yfir hana. Allt að 80 einstaklingar særðust en talan er þó ónákvæm þar sem margir þorðu ekki á spítala af ótta við hefndaraðgerðir.
Yfirvöld hafa einnig takmarkað félagafrelsi.
Löglega skráð menningarfélag var leyst upp af stjórnvöldum í apríl 2019 í kjölfar þess að gestur í netumræðuþætti á vegum hópsins gagnrýndi yfirvöld.
Mannréttindasamtökum í Marokkó, Moroccan Association for Human Rights (AMDH), var auk þess bannað árið 2019 að halda viðburð sem búið var að veita leyfi fyrir vegna þess að færa þurfti viðburðinn í annað rými er var í óþökk stjórnvalda. Lagalegri glufu var beitt til að koma í veg fyrir að samtökin gætu starfað löglega.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu