Tjáningar-, funda-, og félagafrelsið er verulega skert í Sádi-Arabíu. Stjórnvöld hafa lokað öllum óháðum mannréttindasamtökum í landinu frá árinu 2013. Yfirvöld leyfa heldur ekki stjórnmálaflokka eða stéttarfélög. Allar samkomur, þar á meðal friðsamleg mótmæli, hafa verið bannaðar frá árinu 2011.
Kerfisbundin takmörkun á tjáningarfrelsinu er hluti af herferð stjórnvalda til að bæla niður alla umræðu um mannréttindabrot í Sádi-Arabíu. Nánast allir mannréttindafrömuðir hafa verið fangelsaðir, þaggað hefur verið niður í þeim eða þeir flúið land. Mannréttindafrömuðir, þar á meðal baráttukonur fyrir kvenréttindum, trúarleiðtogar, rithöfundar, ættingjar þolenda mannréttindabrota og einstaklingar sem eiga í samskiptum við alþjóðleg mannréttindasamtök eins og Amnesty International eru þeir hópar sem herjað er á.
Frá árinu 2022 hafa yfirvöld beint sjónum sínum í auknum mæli að einstaklingum sem eru hvorki áberandi í samfélaginu né í aðgerðastarfi og dæmt þá í langa fangelsisvist og jafnvel til dauða fyrir það að tjá sig á samfélagsmiðlum um kvenréttindi, efnahagsástandið eða kalla eftir lausn einstaklinga.
Sérstakur sakamáladómstóll
Stjórnvöld hafa beitt sérstökum sakamáladómstól til kerfisbundinnar þöggunar í landinu, samkvæmt skýrslu Amnesty International. Mannréttindafrömuðir, aðgerðasinnar, fjölmiðlafólk, trúarklerkar og sjíta-múslímar hafa hlotið þunga dóma í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda.
Sérstaki sakamáladómstóllinn var upphaflega stofnsettur árið 2008 í þeim tilgangi að rétta yfir einstaklingum sem voru ákærðir fyrir hryðjuverk en tímamót urðu í maí 2011 þegar dómstóllinn hóf að rétta yfir einstaklingum sem stjórnvöld vildu þagga niður í með beitingu óljósra lagaákvæða gegn hryðjuverkum og netglæpum.
Síðan þá hafa margir einstaklingar sætt ósanngjörnum réttarhöldum fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis á friðsaman máta.
Dómstóllinn starfar ekki eftir skýru og greinargóðu verklagi og talið er að skipan dómara byggist á tryggð við stjórnvöld. Ákærur eru óskýrar og ekki skilgreindar með skýrum hætti í lögum. Þannig hafa friðsamar pólitískar aðgerðir oft flokkast sem hryðjuverk.
Frá árinu 2022 þegar Awad al-Ahmari var skipaður yfir dómstólnum hafa fangelsisdómar orðið fáránlega harðir og beinst gegn almenningi sem tjáir skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Lengsti dómurinn fyrir friðsama tjáningu var 45 ár.
Árið 2023 voru nokkrir fyrrum dómarar dómstólsins ákærðir fyrir landráð. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum voru dómarar ákærðir fyrir hafa kveðið upp of væga dóma.
Þaggað niður í baráttukonum
Réttindi kvenna í Sádi-Arabíu hafa verið bágborin. Konur ráða ekki yfir lífi sínu þar sem þær þurfa að lúta forsjá karlmanns. Einhverjar umbætur í lögum hafa þó verið gerðar á síðustu árum. Í júní árið 2018 var akstursbanni kvenna aflétt og í ágúst 2019 fengu konur aukið ferðafrelsi án samþykkis karlkyns forráðamanns og rétt til að skrá hjónaband, skilnað, fæðingu og dauðsfall. Þrátt fyrir að þetta hefur haft jákvæð áhrif á líf kvenna þá er ekki enn búið að afnema með öllu forsjá karla yfir konum.
Að mótmæla eða tjá sig um réttindi sem þykja sjálfsögð annars staðar getur verið hættulegt í Sádi-Arabíu.
Um sama leyti og eftir að akstursbanni kvenna var aflétt voru helstu baráttukonur fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu handteknar fyrir baráttu sína. Á meðal þeirra voru Loujain al-Hathloul og Nassima al-Sada sem voru handteknar árið 2018 fyrir baráttu sína. Þær voru leystar úr haldi árið 2021 en settar í ferðabann.
Salma al-Shehab, doktorsnemi og tveggja barna móðir, var handtekin árið 2021. Hún afplánar 27 ára fangelsisdóm og 27 ára ferðabann að lokinni afplánun vegna færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum til stuðnings kvenréttindum.
Manahel al-Otaibi, líkamræktarþjálfari og aðgerðasinni, var handtekin þann 16. nóvember 2022 og ákærð fyrir að styðja kvenréttindi á samfélagsmiðli með myllumerki þar sem kallað var eftir afnámi þess að konur lúti forsjá karla (#EndMaleGuardianship) og fyrir að birta mynd af sér á Snapchat í „ósæmilegum“ fatnaði þar sem hún var klædd án abaya (hefðbundinn kufl sem nær frá höfði til táar) .
Tjáningarfrelsi á netinu
Lög um netglæpi í Sádi-Arabíu frá árinu 2007 kveða á um að framleiðsla, undirbúningur, útsending eða geymsla efnis sem stríðir gegn friði meðal almennings, trúargildum, almennu siðferði og einkalífi á netmiðlum eða tölvum sé refsiverð. Allt að fimm ára fangelsisdómur auk sektar getur legið við brotum á umræddum lögum.
Lög gegn hryðjuverkjum frá árinu 2017 kveða á um allt að tíu ára dóm fyrir að móðga kónginn eða krónprinsinn með beinum eða óbeinum hætti.
Árið 2022 voru 15 einstaklingar sem Amnesty International skrásettir dæmdir í 10-45 ára fangelsi á grundvelli laga gegn hryðjuverkum og lög um netglæpi fyrir friðsamlega tjáningu á netinu.
Mál einstaklinga
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu