Arabavorið, bylgja mótmæla í Miðausturlöndum sem hófst í lok árs 2010, náði til Egyptalands í janúar 2011 og endaði valdatíð Hosni Mubarak sem hafði stjórnað landinu undir herlögum í 30 ár. Nýr forseti, Mohamed Morsi var svo kosinn í lýðræðislegum kosningum árið 2012 en herinn steypti honum af stóli í júlí 2013 í kjölfar bylgju mótmæla gegn umdeildri tilskipun forsetans. Margir Egyptar fögnuðu valdaráni hersins á meðan aðrir voru ósáttir að lýðræðiskjörinn forseti væri hrakinn frá völdum.
Vonir um pólitískar umbætur og samfélagslegt réttlæti í kjölfar Arabavorsins urðu að engu í Egyptlandi þar sem stjórnvöld hafa herjað á andstæðinga sína. Tjáningarfrelsið er tarkmarkað þar sem það er beinlínis hættulegt að tjá skoðanir sem eru andsnúnar stjórnvöldum.
Eftir valdarán hersins
Í kjölfar valdarán hersins brutust út mótmæli. Í ágúst 2013 voru 900 mótmælendur sem studdu Morsi drepnir af hernum og þúsundir særðust. Í september var, Bræðralag múslíma, stjórnmálaflokkur Morsi bannaður, allar eignir gerðar upptækar og þúsundir sem tengdust flokknum voru ákærðir.
Abd el Fattah al-Sisi, hershöfðinginn sem steypti Morsi af stóli, var kosinn forseti landsins í maí 2014. Ríkisstjórn hans hefur haldið áfram að herja á stuðningsfólk Morsi og dæmt hundruð til dauða í ósanngjörnum hópréttarhöldum. Auk þess hafa hundruð aðgerðasinnar, mannréttindafrömuðir og lögfræðingar verið handteknir fyrir að gagnrýna stjórnvöld. Þvinguð mannshvörf, þar sem yfirvöld handtaka fólk án þess að gefa upp hvert er farið með það, eru algeng. Mazen Mohamed Abdallah var aðeins 14 ára þegar hann sætti þvinguðu mannshvarfi og pyndingum í varðhaldi vegna þátttöku í mótmælum.
Frá árinu 2013 voru auknar árásir af hálfu vopnaðra hópa í landinu. Stjórnvöld hafa notað þessa ógn sem fyrirslátt til að brjóta mannréttindi. Í ágúst 2015 var skrifað undir ný harðneskjuleg hryðjuverkalög sem takmarka tjáningar-, félaga- og fundafrelsi í landinu. Í apríl 2017 tóku herlög gildi á ný í landinu og voru í gildi til október 2021.
Varðhald fyrir tjáningu
Það sem er skrifað á Facebook gæti valdið einstaklingum vandræðum.
Blaðamaður var handtekinn þann 18. mars 2020 fyrir að tjá sig á Facebook-síðu sinni þar sem hann dró í efa opinberar tölur stjórnvalda í landinu um fjölda smita í kórónuveirufaraldrinum. Honum var haldið á leynilegum stað án þess að geta átt í samskiptum við umheiminn í tæpan mánuð þar til hann var ákærður fyrir „dreifingu falskra frétta“ og „að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök“.
Rannsakandinn og mastersneminn Ahmed Samir Santawy var dæmdur til fjögurra ára í fangelsi fyrir birtingu „falskra frétta“ þann 22. júní 2021 af öryggis- og neyðardómstól ríkisins. Sakfellingin byggðist einungis á færslum á samfélagsmiðlum þar sem mannréttindabrot í egypskum fangelsum og aðgerðir stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum voru gagnrýnd en Ahmed hefur neitað því að hafa skrifað þær. Mál hans var í netákalli í apríl 2022.
„Burtséð frá höfundi færslnanna þá er það brot á tjáningarfrelsinu að refsa fyrir dreifingu upplýsinga sem byggt er á óljósum hugtökum eins og „falskar fréttir“. Tjáningarfrelsið er verndað í stjórnarskrá Egyptalands og alþjóðamannréttindalögum,” segir Philip Luther, framkvæmdastjóri rannsókna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku hjá Amnesty International.
Í Egyptalandi er hættulegt að gagnrýna stjórnvöld í fjölmiðlum.
Mannréttindalögfræðingur, fyrrum þingmaður og leiðtogi egypska sósíalíska demókrata-flokksins, Zyad el-Elaimy, var handtekinn í júní 2019 fyrir sjónvarpsviðtal við arabíska BBC árið 2017 þar sem hann ræddi fangelsanir sprottnar af pólitískum rótum, þvinguð mannshvörf og pyndingar í Egyptalandi. Í mars 2020 var hann dæmdur í eins árs fangelsi og sekt sem samsvarar um 170 þúsund krónum (20 þúsund egypsk pund) fyrir að „dreifa fölskum fréttum og skapa ótta meðal almennings“. Í nóvember 2021 var hann síðan dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir að „dreifa fölskum réttum til að draga úr þjóðaröryggi“ vegna pólítískra starfa hans. Hann var að lokum leystur úr haldi eftir að hafa setið 40 mánuði í varðhaldi að geðþótta.
Í sumum tilfellum er nóg að tengjast gagnrýni á stjórnvöld með langsóttum hætti.
Mál Moustafa Gamal er dæmi um slíkt en hann hefur sætt varðhaldi frá mars 2018 þrátt fyrir að samkvæmt lögum megi ekki halda fólki lengur en í tvö ár án dóms. Ástæðan fyrir varðhaldi hans er að hann var staðfestur sem stjórnandi á samfélagssíðu söngvarans Ramy Essam árið 2015, þremur árum áður en söngvarinn gaf út lag sem gerði háð að al-Sisi forseta landsins en Moustafa kom þó ekki nálægt útgáfu lagsins. Í byrjun maí 2020 var hann sá eini sem var enn í haldi út af laginu eftir að Shady Habash, 24 ára kvikmyndagerðarmaður, lét lífið í varðhaldi vorið 2020 eftir rúm tvö ár í haldi.
Amnesty International telur að lagið hafi ekki falið í sér neina hvatningu til haturs og því er þetta skýrt brot á tjáningarfrelsinu.
Árásir á fjölmiðlafólk
Frá því að forseti landsins, Abdel Fattah al-Sisi, tók við völdum hafa árásir gegn fjölmiðlafólki farið vaxandi, sérstaklega ef það er talið styðja Bræðralag múslima en einnig einstaklinga sem gagnrýna stjórnvöld. Frá 2015 til 2020 hefur að minnsta kosti fimm fjölmiðlum verið lokað. Yfirvöld hafa í nokkur ár lokað fyrir fjölda vefsíðna. Að minnsta kosti 600 vefsíður, þar á meðal veffréttamiðla eins og BBC og síður mannréttindasamtaka voru lokaðar í Egyptalandi í byrjun árs 2022.
Algengt er að fjölmiðlafólk sé handtekið og sæti ósanngjörnum réttarhöldum fyrir störf sín í landinu. Árið 2019 voru að minnsta kosti tuttugu blaðamenn handteknir fyrir að tjá skoðun sína á friðsamlegan máta. Á meðal þeirra voru Sayed Abdella og Mohammed Ibrahim sem voru handteknir að geðþótta í september fyrir að birta myndbönd og fréttir af mótmælum gegn forsetanum.
Í nóvember 2019 voru Solafa Magdy, Hossam El-Sayed and Mohamed Salah færð í varðhald vegna rannsóknar á hryðjuverkabrotum. Hjónin Solafa Magdy og Hossam El-Sayed voru leyst úr haldi eftir 16 mánuði í fangelsi. Amnesty International telur að varðhald þeirra tengist skrifum þeirra og aðgerðum á samfélagsmiðlum gegn mannréttindabrotum. Vorið 2020 voru 37 fjölmiðlamenn í varðhaldi fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsi sitt. Þar af voru tuttugu þeirra í haldi vegna starfa sinna.
Funda- og félagafrelsi
Í mótmælum gegn stjórnvöldum þann 20. september 2019 voru 4000 einstaklingar handteknir. Mál 3715 þeirra eru í rannsókn vegna ákæra um brot tengd hryðjuverkum. Þetta er stærsta glæparannsókn sem gerð hefur verið í tengslum við ein mótmæli í Egyptalandi.
Í kjölfar mótmælanna var herjað á aðgerðasinna með handtökum, varðhaldi, glæparannsóknum, pyndingum og annarri illri meðferð. Esraa Abdelfattah, aðgerðasinni og blaðakona, var í þeim hópi. Henni var rænt af óeinkennisklæddum lögreglumönnum og sætti pyndingum á ótilgreindum stað. Hún sat í varðhaldi á meðan hún beið réttarhalda fyrir rangar sakargiftir sem tengdust hryðjuverkum. Sjá nánar ákall um mál hennar. Esraa Abdelfattah var leyst úr haldi þann 17. júlí 2021.
Í september 2020 voru víða mótmæli í Egyptalandi til að mótmæla lögum og eyðileggingu á óskráðu húsnæði af hálfu stjórnvalda. Til að hindra að mótmælt yrði þann 20. september til að minnast mótmælanna árinu áður voru fjölmargir einstaklingar handteknir jafnvel þó þeir hefðu engin tengsl við mótmæli.
Samkvæmt heimildum Amnesty International létust tveir einstaklingar af völdum óhóflegrar valdbeitingu öryggissveita og að minnsta kosti 459 einstaklingar voru handteknir í herferð stjórnvalda í september 2020 í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur öll mótmæli. Allt frá 11 ára að aldri upp í 65 ára.
„Yfirvöld hafa enn og aftur beitt ofbeldi og fjöldahandtökum til að senda skýr skilaboð um að mótmæli séu ekki liðin. Við köllum á yfirvöld að leysa úr haldi án tafar og skilyrðislaust alla þá einstaklinga sem hafa verið handteknir fyrir það eitt að nýta tjáningar-og fundafrelsið sitt,“ segir Philip Luther yfirmaður rannsóknardeildar Miðausturlanda hjá Amnesty International.
Frjáls félagasamtök, eins og mannréttindasamtök og pólitískir flokkar, hafa lengi átt undir högg að sækja í Egyptalandi.
Lög um frjáls félagasamtök eru með grimmileg ákvæði þar sem yfirvöld hafa völd til að leysa í sundur mannréttindahópa og lögmæt starfsemi frjálsra félagasamtaka er refsiverð. Félagasamtök mega ekki safna innlendu eða erlendu fjármagni. Þau mega ekki framkvæma og birta rannsóknir án leyfis stjórnvalda. Einnig er lokað fyrir vefsíður mannréttindasamtaka.
Starfsfólk frjálsra félagasamtaka er í stöðugri hættu vegna starfa sinna þar sem hægt er að sækja það til saka á grundvelli óljósra ásakana. Starfsfólk ýmissa samtaka hefur verið sett í ferðabann, yfirheyrt, handtekið, ákært fyrir hryðjuverk og/eða sætt illri meðferð.
Starfsemi pólitískra flokka er skert vegna ýmissa takmarkana á starfi þeirra. Fjölmargir voru handteknir árið 2019 vegna pólitískra starfa, þar af þrír leiðtogar pólitískra flokka í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sameiginlegt framboð flokkanna í kosningum árið 2020. Nokkrir flokksmeðlimir fimm pólitískra flokka voru handteknir haustið 2019 eftir að þeir kölluðu eftir því að yfirvöld virtu rétt þeirra til fundafrelsis.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu