Rúanda

Dóttir prests í útlegð handtekin að geðþótta

Jackie Umuhoza var hand­tekin að morgni dags þann 27. nóvember 2019 í Kígali í Rúanda. Þegar fjöl­skylda hennar og vinir vöktu athygli á hvarfi Jackie á samfé­lags­miðlum daginn eftir stað­festi rann­sókn­ar­skrif­stofa Rúanda hand­töku hennar í tísti á Twitter. Ástæða hand­tök­unnar var sögð grunur um landráð og njósnir. Jackie er enn í haldi og hefur mál hennar ekki enn farið fyrir dóm.

Jackie Umuhoza er dóttir Deo Nyirigira, safn­að­ar­prests í Úganda. Deo Nyirigira og fjöl­skylda hans fóru frá Rúanda til Úganda árið 2001 í kjölfar ofsókna. Nýlega hafa fjöl­miðlar sem styðja stjórn­völd í Rúanda sakað Deo Nyirigira um að safna liði í stjórn­ar­and­stöðu­flokkinn Rwanda Nati­onal Congress sem er í útlegð frá Rúanda. Dætur hans þrjár Lilian Umutoni, Axelle Umutesi og Jackie Umuhoza hafa allar snúið aftur til Rúanda að loknu háskóla­námi í Úganda. Fjöl­skyldan stað­festir að frá árinu 2017 hafi syst­urnar ítrekað verið kall­aðar í yfir­heyrslur vegna aðgerða föður þeirra og í mars 2019 voru þær hand­teknar og settar í varð­hald í eina viku. Úgönsk persónu­skil­ríki þeirra og vega­bréf voru tekin af þeim en rúöndsk persónu­skil­ríki og vega­bréf þeirra höfðu verið tekin að þeim árinu áður. Lilian Umutoni og Axelle Umutesi voru einnig hand­teknar þann 27. nóvember síðast­liðinn en var sleppt úr haldi daginn eftir.

Ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur Jackie Umuhoza og er hún því í haldi að geðþótta stjórn­valda. Netákalls­fé­lagar krefjast þess að hún verði leyst úr haldi tafar­laust og fái greiðan aðgang að fjöl­skyldu sinni, heil­brigð­is­þjón­ustu og lögfræði­þjón­ustu.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Bandaríkin

Bandaríkin: Krefstu réttlætis fyrir George Floyd

„Ég næ ekki andanum“ kvað George Floyd á meðan lögreglumaður kraup yfir honum, þrýsti hné sínu að hálsi hans og neitaði að færa sig af honum í sjö mínútur. „Ég er að deyja!“ sagði George með hendurnar bundnar fyrir aftan bak. Þegar lögreglumaðurinn loksins fjarlægði hnéð af hálsi George var hann meðvitundarlaus. George var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. George Floyd var óvopnaður, svartur karlmaður.

Malta

160 einstaklingum haldið í ferjum á sjó

Stjórnvöld á Möltu hafa haldið 160 einstaklingum í tveimur ferjum ætluðum ferðamönnum undan ströndum landsins undir því yfirskini að þau geti ekki lagst að landi vegna kórónuveirufaraldursins. Fólkið var fært í ferjurnar eftir að þeim var bjargað úr öðrum minni bátum á Miðjarðarhafinu dagana 29. apríl og 7. maí. Ástandið um borð í ferjunum er hrikalegt þar sem þær eru ekki gerðar til langtímadvalar. Maltnesk stjórnvöld þurfa að koma fólkinu í land hið fyrsta, tryggja þeim öruggar móttökur og aðgang að umsókn um vernd.

Víetnam

Meðlimir sjálfstæðrar bókaútgáfu pyndaðir af lögreglu

Meðlimir bókaútgáfunnar Liberal Publishing House sem er sjálfstætt rekin bókaútgáfa og selur bækur sem stjórnvöld telja innihalda viðkvæmar upplýsingar hafa verið fangelsaðir og pyndaðir af lögreglu í borginni Ho Chi Minh í Víetnam. Frá því í október á síðasta ári hafa hundruð einstaklinga, bæði viðskiptavinir og starfsfólk, verið áreittir og ógnað af lögreglu vegna tengsla þeirra við Liberal Publishing House. Bókaútgáfan sem var stofnuð í febrúar 2019 gefur út fræðibækur um stjórnmál, stefnumál stjórnvalda og önnur samfélagsleg málefni.

Indland

Handtekin fyrir að mótmæla harðneskjulegum lögum

Aðgerðasinnarnir Meeran Haider, Shifa-Ur-Rehman og Safoora Zargar voru handtekin í apríyrir friðsöm mótmæli í febrúar gegn breytingum á lögum um ríkisborgararétt. Safoora er þunguð og komin þrjá mánuði á leið. Breytingarlögin heimila mismunun á grundvelli trúarbragða og ganga í berhögg við stjórnarskrá Indlands og alþjóðamannréttindalög.

Sri Lanka

Lögfræðingur í haldi

Hejaaz Hizbullah, þekktur lögfræðingur á Sri Lanka var handtekinn 14. apríl síðastliðinn og hefur setið í varðhaldi síðan án ákæru og aðgengis að lögfræðingi. Fjölskylda hans telur Hejaaz vera skotspón stjórnvalda vegna vinnu sinnar, ekki síst mannréttindabaráttu í þágu múslima sem eru minnihlutahópur í landinu.

Filippseyjar

Íbúar í leit að aðstoð vegna COVID-19 ákærðir

Lögregla leysti upp friðsöm mótmæli íbúa þorpsins San Roque í Quezon City á Filippseyjum með ofbeldi. Mótmælendur kröfðust aðstoðar borgaryfirvalda vegna  kórónuveirufaraldursins en allt samfélagið er í sóttkví. Tuttugu og einn mótmælandi var handtekinn og settur í varðhald í fimm daga þar til hópnum var sleppt gegn tryggingu.

Tyrkland

Ranglega fangelsaðir og í mestri hættu vegna COVID-19 verði leystir úr haldi

COVID-19 faraldurinn dreifist hratt í Tyrklandi um þessar mundir og líf þúsunda fanga og fangavarða í yfirfullum og óhreinum fangelsum eru í mikilli hættu. Nýlega greindu stjórnvöld frá fyrirhuguðum aðgerðum sínum um lagasetningu sem gæti leitt til þess að 100.000 fangar verði leystir úr haldi fyrr en áætlað var. Umræddar aðgerðir eru skref í rétta átt en ekki nóg.

Bandaríkin

Farandfólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd í hættu vegna covid-19

Á sama tíma og heimurinn bregst við fordæmalausum aðstæðum sem skapast hafa vegna kórónuveirunnar eru fullorðnir og börn, vistuð í varðhaldi á vegum innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna í yfirfullum rýmum, í mikilli smithættu og með takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.