Mannréttindafræðsla (e. human rights education eða HRE) snýst um að skapa þjóðfélag þar sem ríkir skilningur á mannréttindum, þar sem allir þekkja réttindi sín og öllum er gert kleift að gera tilkall til þeirra.
Samkvæmt 26. grein Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna skal beina menntun „í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.“
Markmið fræðslunnar er ekki einungis að auka þekkingu þátttakenda heldur líka að virkja til þess að taka þátt í baráttunni fyrir mannréttindum. Því má segja að tilgangur mannréttindafræðslunnar sé að koma í veg fyrir mannréttindabrot, reyna að útrýma þeim og byggja upp samfélög sem virða mannréttindi í hvívetna.
Með þessari fræðslu getum við barist gegn mismunun, stuðlað að jafnrétti og virkri þátttöku einstaklinga í lýðræðislegum ákvörðunum samfélagsins og þannig unnið að betri heimi.