Filippseyjar

Baráttukona yfir sextugt, handtekin í þriðja sinn

Adora Faye de Vera var hand­tekin í ágúst 2022 og er enn í haldi, ákærð fyrir morð, tilraunar til mann­dráps og andófs. Hún er 66 ára gömul, ljóð­skáld og baráttu­kona fyrir mann­rétt­indum. Fjöl­skylda hennar telur að verið sé að veitast að henni vegna baráttu hennar í þágu þolenda mann­rétt­inda­brota. Adora Faye hefur áður verið hand­tekin. Hún var samviskufangi og sætti pynd­ingum og illri meðferð árið 1976 vegna mann­rétt­inda­bar­áttu sinnar.

Adora Faye var hand­tekin í Quezon-borg, þann 24. ágúst 2022, en hún var þar að sækja sér lækn­is­að­stoð vegna astma og blóð­leysis. Samkvæmt mann­rétt­inda­sam­tök­unum Karapatan komu tvær einkennisklæddar konur, sem voru óvopn­aðar og sögðust vera frá bruna­eft­ir­litinu, á dval­ar­stað Adoru vegna gruns um vörslu á marijúana. Einkennisklæddu konurnar yfir­gáfu svæðið og komu aftur í fylgd með vopn­uðum einstak­lingum sem sögðust vera frá lögregl­unni og hand­tóku Adoru. Farið var með hana á flug­völl og flogið með hana á lögreglu­stöð í Iloilo-héraði, hundruðum kíló­metra frá Quezon-borg. Í tvo daga var henni meinað að hafa samband við lögfræðing eða fjöl­skyldu.

Fjöl­skyldu­með­limur hennar mætti á lögreglu­stöðina með lögfræð­ingi þann 26. ágúst og í kjöl­farið fékk hún lækn­is­skoðun. Lögreglu­yf­ir­völd ásökuðu Adoru Faye um að vera valda­mikil innan komm­ún­ista­flokksins á Filipps­eyjum og sögðust hafa hand­töku­heimild á hendur henni vegna gruns um morð, mann­dráp­stilraunar og andófs. Atvikið sem vísað var til snérist um meint laun­sátur sem leiddi til mann­falls innan örygg­is­sveit­ar­innar.

Áratugum saman hafa yfir­völd og óþekktir einstak­lingar á Filipps­eyjum bendlað aðgerða­sinna og baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum við vopnaða hópa. Á undan­förnum árum, í stjórn­artíð Rodrigo Duterte, fyrrum forseta Filipps­eyja, jókst aðförin að aðgerða­sinnum veru­lega.

Þessar gengd­ar­lausu ásak­anir yfir­valda hafa leitt af sér auknar árásir þar sem aðgerða­sinnar hafa meðal annars verið drepnir. Filipp­eysk yfir­völd hafa ítrekað samþykkt að virða mann­rétt­indi en hand­taka og varð­hald Adoru Faye sýna að staða mann­rétt­inda í landinu fer versn­andi.

Skrifaðu undir og krefstu þess að:

  • Stjórn­völd leysi Adoru Faye úr haldi og felli niður ákærur á hendur henni.
  • Hún fái viðeig­andi lækn­is­með­ferð á meðan hún er í haldi.
  • Rann­sókn verði gerð á hand­töku og varð­haldi Adoru Faye, hinir ábyrgðu verði dregnir fyrir dóm og fái rétt­láta máls­með­ferð.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Egyptaland

Mannréttindalögfræðingur þjáist í fangelsi og fær ekki læknisaðstoð

Hoda Abdelmoniem hefur verið í varðhaldi í fjögur ár að geðþótta yfirvalda. Réttarhöld standa yfir í máli hennar vegna falskra ákæra sem má rekja til mannréttindastarfs hennar. Egypsk yfirvöld synja henni um samskipti við fjölskyldu og viðunandi læknisaðstoð þrátt fyrir að Hoda glími við alvarlegan heilsubrest. Hún á langa sjúkrasögu að baki, er með hjartasjúkdóm og nýrun eru að gefa sig. Augu heimsins eru á Egyptalandi í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP27 sem haldin verður þar í landi dagana 6.-18. nóvember. Nú er einstakt tækifæri til að skapa aukinn þrýsting á egypsk stjórnvöld. Skrifaðu undir og krefstu þess að mannréttindi séu virt í Egyptalandi og að Hoda Abdelmoniem verði látin laus skilyrðislaust og án tafar.

Íran

Blóðsúthellingunni verður að linna

Mótmæli hafa brotist út á landsvísu í Íran í kjölfar þess að hin 22 ára gamla Mahsa (Zhina) Amini lét lífið í varðhaldi yfirvalda. Írönsk yfirvöld hafa brugðist grimmilega við mótmælunum. Við krefjumst þess að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða.

Færeyjar

Réttur til þungunarrofs ekki virtur

Alþjóðadagur öruggs þungunarrofs er ár hvert 28. september. Á þeim degi er sjálfræði yfir eigin líkama fagnað og vakin athygli á því að réttur til þungunarrofs er víða takmarkaður. Færeyjar eru eina þjóðin á Norðurlöndunum þar sem konur geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þungunarrof. Færeysk þungunarrofslög eru með þeim ströngustu í Evrópu. Við krefjumst þess að færeyskar stúlkur, konur og ólétt fólk fái að njóta réttarins til þungunarrofs.

Bandaríkin

Bandaríkin: Verndið réttinn til þungunarrofs

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur snúið við fordæmi dóms sem verndaði réttinn til þungunarrofs í landinu. Krefjumst þess að ríkisstjórar í öllum ríkjum Bandaríkjanna komi í veg fyrir þungunarrofsbann og verndi réttinn til þungunarrofs. 

Rússland

Stöðvið árásina og verndið almenning í Úkraínu

Hörmungar og mannréttindaneyð dynur á Úkraínubúum. Nú þegar hafa fullorðnir og börn látið lífið og líf fleiri þúsunda eru í hættu. Krefstu þess að rússnesk yfirvöld stöðvi þessa árás og verndi almenna borgara núna strax!

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.