Mannúðar- og mannréttindaneyðin á Haítí, vegna síaukins ofbeldis glæpagengja, bitnar verst á börnum þar í landi. Yfirvöldum og alþjóðasamfélaginu hefur mistekist að vernda þau.
Yfir ein milljón barna býr á svæðum sem eru undir áhrifum gengja, þar sem þau standa andspænis lífshættulegu ofbeldi. Fyrir utan líkamlegan skaða, skaðar ástandið andlega heilsu barnanna og takmarkar tækifæri þeirra til að leika sér, læra og dafna í öruggum aðstæðum.
Hvert er vandamálið?
Milljónir barna á Haítí hafa þolað harðræði vegna aukins ofbeldis af hálfu gengja. Gengin hafa tekið yfir samfélög barnanna og raskað lífi þeirra. Mörg þeirra eru fengin til liðs við gengin, verða vitni að ofbeldi og beitt kynferðislegri misnotkun. Börnin eru þolendur ofsafenginna hótana, hafa misst fjölskyldur sínar, heimili og réttur þeirra til menntunar og fæðu er skertur.
Fjölskyldur sem hafa þurft að flýja þessar aðstæður eiga erfitt með að tryggja börnum sínum nauðsynjar eins og mat, hreint vatn og heilbrigðisþjónustu. Skortur á aðföngum eykur á neyðina þar sem börn eru vannærð, upplifa áföll og eru útsett fyrir sjúkdómum sem væri hægt að fyrirbyggja. Menntun er grundvallarþáttur til að uppræta mynstur fátæktar og ofbeldis, en mörg haítísk börn hafa ekki aðgang að menntun þar sem skólum hefur verið lokað eða þeir óaðgengilegir þar sem þeir eru staðsettir á svæðum sem eru undir yfirráðum gengja.
Andlega álagið sem börnin búa við er tortímandi. Þau eru svipt öruggu rými til að leika sér og læra og eru neydd til að alast upp í umhverfi þar sem ótti og óvissa ráða ríkjum. Vegna áskorana hjá haítískum yfirvöldum og aðgerðaleysis alþjóðasamfélagsins hefur neyðin aukist og skapað vítahring ofbeldis og vanrækslu.
Börn sem gengi misnota eru fórnarlömb, fyrst og fremst. Til að beita sér fyrir hag barnanna í Haítí þarf með hraði að hrinda af stað yfirgripsmikilli verndaráætlun. Áætlunin verður að tilgreina aðgerðir til að fyrirbyggja liðssöfnun og að gengin nýti sér börn í starfsemi sína, veita aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og tryggja réttlæti fyrir haítísk börn.
Skrifaðu undir ákall til haítískra yfirvalda og krefstu verndar fyrir börn á Haítí.