Haítí

Vernd fyrir börn gegn glæpagengjum á Haítí

Mann­úðar- og mann­rétt­inda­neyðin á Haítí, vegna síaukins ofbeldis glæpa­gengja, bitnar verst á börnum þar í landi. Yfir­völdum og alþjóða­sam­fé­laginu hefur mistekist að vernda þau.

Yfir ein milljón barna býr á svæðum sem eru undir áhrifum gengja, þar sem þau standa andspænis lífs­hættu­legu ofbeldi. Fyrir utan líkam­legan skaða, skaðar ástandið andlega heilsu barn­anna og takmarkar tæki­færi þeirra til að leika sér, læra og dafna í öruggum aðstæðum.

Hvert er vanda­málið?

Millj­ónir barna á Haítí hafa þolað harð­ræði vegna aukins ofbeldis af hálfu gengja. Gengin hafa tekið yfir samfélög barn­anna og raskað lífi þeirra. Mörg þeirra eru fengin til liðs við gengin, verða vitni að ofbeldi og beitt kynferð­is­legri misnotkun. Börnin eru þolendur ofsa­feng­inna hótana, hafa misst fjöl­skyldur sínar, heimili og réttur þeirra til mennt­unar og fæðu er skertur.

Fjöl­skyldur sem hafa þurft að flýja þessar aðstæður eiga erfitt með að tryggja börnum sínum nauð­synjar eins og mat, hreint vatn og heil­brigð­is­þjón­ustu. Skortur á aðföngum eykur á neyðina þar sem börn eru vannærð, upplifa áföll og eru útsett fyrir sjúk­dómum sem væri hægt að fyrir­byggja. Menntun er grund­vall­ar­þáttur til að uppræta mynstur fátæktar og ofbeldis, en mörg haítísk börn hafa ekki aðgang að menntun þar sem skólum hefur verið lokað eða þeir óaðgengi­legir þar sem þeir eru stað­settir á svæðum sem eru undir yfir­ráðum gengja.

Andlega álagið sem börnin búa við er tortím­andi. Þau eru svipt öruggu rými til að leika sér og læra og eru neydd til að alast upp í umhverfi þar sem ótti og óvissa ráða ríkjum. Vegna áskorana hjá haítískum yfir­völdum og aðgerða­leysis alþjóða­sam­fé­lagsins hefur neyðin aukist og skapað víta­hring ofbeldis og vanrækslu.

Börn sem gengi misnota eru fórn­ar­lömb, fyrst og fremst. Til að beita sér fyrir hag barn­anna í Haítí þarf með hraði að hrinda af stað yfir­grips­mik­illi verndaráætlun. Áætl­unin verður að tilgreina aðgerðir til að fyrir­byggja liðs­söfnun og að gengin nýti sér börn í starf­semi sína, veita aðgang að menntun og heil­brigð­is­þjón­ustu og tryggja rétt­læti fyrir haítísk börn.

Skrifaðu undir ákall til haítískra yfir­valda og krefstu verndar fyrir börn á Haítí.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Georgía

Leikari í fangelsi í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda

Andro Chichinadze, 29 ára leikari frá Georgíu, var dæmdur í tveggja ára fangelsi 3. september 2025 eftir þátttöku í mótmælum í Tbilisi. Hann er vel þekktur í Georgíu og hefur hann gagnrýnt stjórnvöld opinberlega og verið virkur þátttakandi í mótmælum frá nóvember til desember 2024.