Mótmæli hafa brotist út á landsvísu í Íran í kjölfar þess að hin 22 ára gamla Mahsa (Zhina) Amini lét lífið í varðhaldi yfirvalda. Írönsk yfirvöld hafa brugðist grimmilega við mótmælunum. Við krefjumst þess að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða.
Írönsk-kúrdísk kona að nafni Mahsa Amini var handtekin í Tehran af svokallaðri siðferðislögreglu þann 13. september 2022. Vitni sögðust hafa séð lögreglu ganga í skrokk á henni í flutningsbifreið lögreglunnar. Örfáum klukkustundum síðar var hún færð á sjúkrahús í dái og lést þremur dögum síðar.
Siðferðislögreglan hefur reglubundið handtekið konur og stúlkur af geðþótta, pyndað og beitt illri meðferð fyrir að fylgja ekki svívrðilegum, niðrandi og óréttlátum lögum um skyldunotkun höfuðslæða. Dauði Amini er kveikjan að mótmælum þvert og breitt um Íran en yfirvöld hafa svarað með harkalegum aðgerðum sem valdið hafa dauðsföllum.
Öryggissveitir hafa ítrekað beitt ólögmætu valdi gegn mótmælendum. Skotvopnum hefur verið beitt af stuttu færi, táragasi og vatnsfallbyssum hefur verið misbeitt og mótmælendur hafa verið barðir harkalega með lögreglukylfum. Hundruð manna, kvenna og barna hafa slasast í aðgerðum yfirvalda, tugir látið lífið og tvær manneskjur eru varanlega blindar á öðru eða báðum augum. Flest hinna særðu forðast að leita sér hjálpar á sjúkrahúsum af ótta við handtöku, sem eykur líkur á sýkingum og heilsutjóni. Írönsk yfirvöld reyna að fela glæpi sína með því að loka fyrir netaðgang í landinu.
Írönsk yfirvöld hafa á liðnum árum ekki þurft að sæta ábyrgð vegna morða á hundruðum mótmælenda eða illrar meðferðar á þúsundum þeirra. Það er tími kominn til að ríki Sameinuðu þjóðanna takist á við þetta refsileysi í Íran.
Skrifaðu undir ákall til utanríkisráðherra Íslands, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð GYlfadóttur, um að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar setji af stað óháða rannsókn á alvarlegustu mannréttindabrotunum í Íran og tryggi að gerendur verði dregnir til ábyrgðar.