Frá því að Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar, hefur hann hrint í framkvæmd ómannúðlegri stefnu gegn innflytjendum og fólki í leit að öryggi sem flúið hefur neyð. Yfirvöld í Bandaríkjunum, undir stjórn Trump, hafa beitt grimmilegum aðferðum til að vekja ótta, aðskilja og handsama fjölskyldur ásamt því að herja á aðgerðasinna.
Fjölmargir innflytjendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga á hættu að vera vísað úr landi, fangelsaðir og aðskildir frá fjölskyldu sinni. Yfirvöld hafa ólöglega handtekið einstaklinga sem hafa búið í Bandaríkjunum í nokkur ár, aðskilið þá frá börnum sínum og ákært, þrátt fyrir að þeir séu með tímabundna vernd (e. TPS) og umsókn um alþjóðlega vernd í vinnslu.
Aðgerðirnar svipta fólk tækifæri til að leita öryggis, leiða til geðþóttavarðhalds og brottvísunar á hættusvæði, þær valda aðskilnaði fjölskyldna, samfélagsrofi, mismunun á grundvelli kynþáttar og auknum ótta auk þess að grafa undan öryggi, velferð og reisn fólks.
Einstaklingar eiga rétt á að sækja um alþjóðlega vernd, sama hvernig þeir koma til landsins og ólögmætt er að handataka fólk með gilda tímabundna vernd (e. TPS).
Bandarískum stjórnvöldum ber skylda samkvæmt alþjóðalögum að tryggja að lög þeirra, stefnur og verklag leiði ekki til aukinnar hættu á að brotið sé á mannréttindum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þó að Bandaríkin, eins og öll lönd, hafi vald til að setja reglur um komu og dvöl erlendra ríkisborgara á yfirráðasvæði sínu, geta þau aðeins gert það innan marka mannréttindaskuldbindinga sinna.
Niðurstöður rannsóknar Amnesty International við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó frá árinu 2018 voru þær að aðskilnaður fjölskyldna, sem yfirvöld nota með það að markmiði að refsa og fæla fólk frá því sækja um alþjóðlega vernd við landamæri Bandaríkjanna, telst til pyndinga samkvæmt bandarískum og alþjóðlegum lögum.
Fjölskylduaðskilnaður veldur langvarandi sálrænum skaða, sérstaklega hjá börnum og er gróft brot á mannréttindum þeirra.
Skrifaðu undir ákallið og krefstu þess að ríkisstjórn Trumps breyti tafarlaust um stefnu og bindi enda á aðskilnað fjölskyldna, varðhald fjölskyldna, og fjöldabrottvísanir.