Kólumbía

Krefjumst rannsóknar á morði Kevin Agudelo í tengslum við mótmæli

Rann­saka þarf morðið á Kevin Agudelo sem átti sér stað í aðgerðum lögreglu. Þúsundir fólks fór út á götur í þjóð­ar­verk­falli í mörgum borgum Kólumbíu árið 2021 til að krefjast réttar síns. Viðbrögð stjórn­valda var að ráðast á og refsa þeim einstak­lingum sem létu í sér heyra. Flest mann­rétt­inda­brot í tengslum við mótmælin áttu sér stað í borg­inni Cali. 

Ein mesta ofbeld­is­nóttin átti sér stað þann 3. maí 2021 þegar nokkrar lögreglu­sveitir beittu banvænum vopnum og tára­gasi gegn fólki sem var að halda minn­ing­ar­at­höfn um ungan mann sem var að sögn drepinn af lögreglu í frið­samri kröfu­göngu daginn áður. Athöfnin var við hring­torg í Siloé-hverfinu í Cali og létu þrír einstak­lingar lífið þetta kvöld, þeirra á meðal var Kevin Agudelo, ungur fótbolta­leik­maður. Þessi lögreglu­að­gerð hefur verið kölluð „Siloé-aðgerðin“. 

„Við hlupum eins og brjál­æð­ingar til að bjarga lífi okkar, skotin og tára­gasið komu úr öllum áttum. Þetta var of mikið, við vorum óvopnuð og við gátum engan veginn svarað fyrir okkur, þeir beindu rifflum að okkur sem eru notuð í stríði,“ segir ungur maður um atburða­rásina kvöldið sem Kevin dó.  

Tryggja þarf að rétt­læti nái fram að ganga! 

Ríkis­sak­sóknari Kólumbíu verður að tryggja að rann­sókn fari fram á dauða Kevin Agudelo og öðrum mann­rétt­inda­brotum í tengslum við Siloé-aðgerðina til að þetta gerist aldrei aftur. Skrifaðu undir núna!

 

Mynd­band um atburða­rásina.

Við vörum við að mynd­efnið getur valdið óhug.

 

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Egyptaland

Mannréttindalögfræðingur þjáist í fangelsi og fær ekki læknisaðstoð

Hoda Abdelmoniem hefur verið í varðhaldi í fjögur ár að geðþótta yfirvalda. Réttarhöld standa yfir í máli hennar vegna falskra ákæra sem má rekja til mannréttindastarfs hennar. Egypsk yfirvöld synja henni um samskipti við fjölskyldu og viðunandi læknisaðstoð þrátt fyrir að Hoda glími við alvarlegan heilsubrest. Hún á langa sjúkrasögu að baki, er með hjartasjúkdóm og nýrun eru að gefa sig. Augu heimsins eru á Egyptalandi í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP27 sem haldin verður þar í landi dagana 6.-18. nóvember. Nú er einstakt tækifæri til að skapa aukinn þrýsting á egypsk stjórnvöld. Skrifaðu undir og krefstu þess að mannréttindi séu virt í Egyptalandi og að Hoda Abdelmoniem verði látin laus skilyrðislaust og án tafar.

Íran

Blóðsúthellingunni verður að linna

Mótmæli hafa brotist út á landsvísu í Íran í kjölfar þess að hin 22 ára gamla Mahsa (Zhina) Amini lét lífið í varðhaldi yfirvalda. Írönsk yfirvöld hafa brugðist grimmilega við mótmælunum. Við krefjumst þess að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða.

Færeyjar

Réttur til þungunarrofs ekki virtur

Alþjóðadagur öruggs þungunarrofs er ár hvert 28. september. Á þeim degi er sjálfræði yfir eigin líkama fagnað og vakin athygli á því að réttur til þungunarrofs er víða takmarkaður. Færeyjar eru eina þjóðin á Norðurlöndunum þar sem konur geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þungunarrof. Færeysk þungunarrofslög eru með þeim ströngustu í Evrópu. Við krefjumst þess að færeyskar stúlkur, konur og ólétt fólk fái að njóta réttarins til þungunarrofs.

Bandaríkin

Bandaríkin: Verndið réttinn til þungunarrofs

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur snúið við fordæmi dóms sem verndaði réttinn til þungunarrofs í landinu. Krefjumst þess að ríkisstjórar í öllum ríkjum Bandaríkjanna komi í veg fyrir þungunarrofsbann og verndi réttinn til þungunarrofs. 

Rússland

Stöðvið árásina og verndið almenning í Úkraínu

Hörmungar og mannréttindaneyð dynur á Úkraínubúum. Nú þegar hafa fullorðnir og börn látið lífið og líf fleiri þúsunda eru í hættu. Krefstu þess að rússnesk yfirvöld stöðvi þessa árás og verndi almenna borgara núna strax!

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.