Leonard Peltier er aðgerðasinni sem hefur setið í fangelsi í Bandaríkjunum í rúm 46 ár, þar af töluverðan tíma í einangrun. Hann er að afplána tvöfaldan lífstíðardóm þrátt fyrir gagnrýnisraddir um réttmæti dómsins. Leonard verður bráðum 79 ára gamall og hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Á síðasta ári fékk hann COVID-19 og stríðir einnig við langvarandi heilsuvanda sem gæti dregið hann til dauða.
Leonard Peltier er amerískur frumbyggi af Anishinaabe-Lakota ættbálknum og meðlimur í hópi sem berst fyrir réttindum amerískra frumbyggja, American Indian Movement. Hann var ákærður fyrir að hafa skotið tvo útsendara FBI út frá vitnisburði konu sem síðar dró vitnisburðinn til baka. Dómari hafnaði beiðni um að konan kæmi fyrir rétt sem vitni verjandans. Árið 2000 gaf hún út opinbera yfirlýsingu um að ítrekaðar hótanir FBI hafi leitt til vitnisburðarins.
Lögfræðingur Leonards biðlaði til Joe Biden, Bandaríkjaforseta, um náðun árið 2021 byggt á mannúðar og réttlætisforsendum, í ljósi vafasamrar málsmeðferðar, langs afplánunartíma og þverrandi heilsu Leonards, sem á ekki rétt á skilorði fyrr en 2024.
Skrifaðu undir ákall um að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, náði Leonard Peltier.