Í ágúst árið 2022 sköpuðust óeirðir í nokkrum borgum Síerra Leóne, þar á meðal í höfuðborginni Freetown. Uppþotin orsökuðust af ýmsum þáttum, þeirra á meðal óánægju með stefnu stjórnvalda og efnahagskreppu.
Þrátt fyrir ríkulegar náttúruauðlindir er Síerra Leóne eitt af fátækustu löndum heims. Samkvæmt lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna er landið í 181. sæti af 191 landi. Síerra Leóne telst einnig til landa sem minnst hafa fjárfest í félagsvernd eða aðeins 0,7% af veginni landsframleiðslu, að kostnaði við heilbrigðisþjónustu undanskildum.
Ákvörðun stjórnvalda um að hækka bensínverð um 20% var kornið sem fyllti mælinn og hratt af stað öldu mótmæla þann 10. ágúst á síðasta ári. Yfirvöld brugðust við mótmælunum með því að setja á útgöngubann sem fylgt var eftir með hervæðingu á götum úti. Fjöldi staðhæfinga hafa borist um ofbeldisfullar aðgerðir gegn mótmælendum.
Í nokkrum borgum leiddu mótmælin til ofbeldis og skemmdarverka, þar sem búðir voru rændar og kveikt var í húsum. Stjórnleysi greip um sig og fréttir bárust af lögregluþjónum sem látið höfðu lífið og óhóflegri beitingu ofbeldis. Alls létust sex lögregluþjónar og 20 mótmælendur og sjónarvottar í borgunum Freetown, Makeni og Kamakwie.
Í tengslum við mótmælaölduna 10. ágúst voru 515 einstaklingar fangelsaðir, þar af 200 fyrir brot á útgöngubanni. Sumir voru handteknir seinna vegna tilkomu sönnunargagna gegn þeim. Ákærur gegn mótmælendum voru af ólíkum toga og gátu verið vegna skemmdarverka, íkveikja, ólögmætrar fjöldasamkoma, uppþota og hvatningar til manndráps. Einnig var fólk handtekið vegna morða á lögregluþjónunum fljótlega eftir mótmælin. Hinsvegar hefur engin rannsókn hafist vegna mótmælenda sem voru drepnir.
Daginn eftir jarðarför lögregluþjónanna komu yfirvöld á sérstakri rannsóknarnefnd. Niðurstaða nefndarinnar birtist svo 24. apríl 2023, um að ekki væri fullvíst að ásakanir um ólögmæt manndráp væru sannar. Engar handtökur hafa verið gerðar vegna mótmælenda sem dóu þann 10. ágúst og rannsókn atburðanna hefur verið hætt.
Skrifaðu undir ákall um að yfirvöld í Síerra Leóne og sérstök rannsóknarnefnd stofnuð af yfirvöldunum þann 24. ágúst 2022, framkvæmi með hraði óháða, hlutlausa og vandaða rannsókn, ekki aðeins vegna lögregluþjóna sem létu lífið heldur einnig vegna meintrar óhóflegrar valdbeitingar lögreglu á mótmælunum og í kjölfar þeirra, sem leiddi til meiðsla og dauðsfalla. Einnig þarf að tryggja að þeir sem bera ábyrgð á ólögmætum manndrápum, pyndingum og annarri illri meðferð verði látnir sæta ábyrgð.