Alþjóðadagur öruggs þungunarrofs er ár hvert 28. september. Á þeim degi er sjálfræði yfir eigin líkama fagnað og vakin athygli á því að réttur til þungunarrofs er víða takmarkaður.
Færeyjar eru eina þjóðin á Norðurlöndunum þar sem konur geta ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um þungunarrof. Færeysk þungunarrofslög eru með þeim ströngustu í Evrópu. Við krefjumst þess að færeyskar stúlkur, konur og ólétt fólk fái að njóta réttarins til þungunarrofs.
Færeysk lög um þungunarrof eru frá árinu 1956 og veita aðeins heimild til þungunarrofs vegna nauðgunar, sifjaspells, vangetu til að sjá um barn eða ef líf og heilsa fósturs eða barnshafandi manneskju er í hættu. Það er refsivert samkvæmt lögum að framkvæma þungunarrof ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt. Einnig er refsivert ef stúlka, kona eða ólétt manneskja framkvæmir þungunarrofið sjálf. Læknir þarf að meta hvort að viðkomandi uppfylli skilyrði fyrir þungunarrof og senda beiðni til kvenlækningadeildar í höfuðborginni Þórshöfn sem þarf einnig að veita samþykki.
Anna í Færeyjum var um þrítugt þegar hún varð ólétt. Hún taldi sig ekki færa um að ala upp barn vegna persónulegra aðstæðna. Anna óskaði eftir þungunarrofi en uppfyllti ekki skilyrði um þungunarrof samkvæmt færeyskum lögum.
„Samkvæmt áliti læknis uppfyllti beiðni mín ekki skilyrði laganna. Ég bað lækninn um senda beiðnina aftur en hann vildi ekki gera það. Ég þurfti því að leita til einkarekinna spítala í Danmörku án stuðnings frá dönskum sjúkratryggingum.“
Saga Önnu endurspeglar reynslu margra. Ekki er vitað um nákvæmar tölur um fjölda en ár hvert sækja færeyskar konur sér þjónustu erlendis til að geta farið í þungunarrof. Þetta er kostnaðarsamt og streituvaldandi ferli.
„Ég fann nánast fyrir sömu sorg eins og að missa nákominn ástvin og það er óskiljanlegt hvers vegna heimurinn stendur ekki í stað. Það var ekki vegna þungunarrofsins, heldur vegna þess að læknir og færeysku lögin tóku ákvörðun um líkama minn og framtíð. Sorglegast var að finna fyrir svo mikillli skömm út af þessu. Ég hélt ég væri upplýstari en svo að mér þyrfti að líða þannig. Það var ferlið hjá færeyska heilbrigðiskerfinu sem gerði lítið úr mér og lét mig finna fyrir skömm.“
Amnesty International gengur út frá því að allar manneskjur hafi sjálfræði yfir eigin líkama og frjósemi, líka konur og manneskjur sem geta orðið barnshafandi. Með undirskrift þinni þrýstirðu á færeysk yfirvöld að virða réttinn til öruggs þungunarrofs.
Krefjumst þess að félagsmálaráðherra Færeyja, Sólvit E. Nolsø, sem hefur vald til að breyta þungunarrofsslögum, uppfæri lögin svo færeyskar stúlkur, konur og ólétt fólk fái að njóta réttarins til þungunarrofs.