Salma al-Shehab er 34 ára gömul baráttukona, fræðikona og tveggja barna móðir frá Sádi-Arabíu. Hún tilheyrir minnihlutahópi sjíta-múslima þar í landi. Hún var handtekin í janúar 2021, nokkrum dögum fyrir áætlað flug til Bretlands til að halda áfram doktorsnámi sínu við háskólann í Leeds.
Hún var ákærð vegna friðsamlegrar tjáningar á Twitter (nú X) til stuðnings réttindum kvenna. Réttarhöld hófust í október 2021. Samkvæmt gögnum sem Amnesty International hefur skoðað sætti hún einangrunarvist í 285 daga áður en réttarhöldin fóru fram og hún fékk engan aðgang að lögfræðingi á þessum tíma.
Um mitt ár 2022 var hún dæmd í sex ára fangelsi en í ágúst sama ár herti sérstaki sakamáladómstóllinn dóm hennar. Hún hlaut 34 ára fangelsisdóm ásamt 34 ára ferðabanni að afplánun lokinni. Hún var meðal annars ásökuð um að „raska allsherjarreglu“ með því að deila tísti á Twitter frá aðgerðasinnum sem styðja réttindi kvenna.
Í janúar 2023 var dómnum breytt í kjölfar þess að hæstiréttur vísaði máli hennar aftur til sérstaka sakamáladómstólsins eftir að hún áfrýjaði málinu. Í þetta sinn var hún dæmd í 27 ára fangelsi ásamt 27 ára ferðabanni að lokinni afplánun. Dómstóllinn felldi niður ákærur um netglæpi en féllst á ákærur á grundvelli laga gegn hryðjuverkum.
Í mars 2023 fór Salma í hungurverkfall til að mótmæla geðþóttavarðhaldi og ósanngjörnum réttarhöldum. Um fjórum vikum síðar hætti hún í hungurverkfalli til að geta tekið lyf þar sem heilsu hennar fór hrakandi.
Yfirvöld í Sádi-Arabíu sýna enga miskunn gagnvart gagnrýni sama hversu meinlaus hún er.
Skrifaðu undir og krefstu þess að Salma al-Shehab verði leyst úr haldi án tafar þar sem hún er í haldi fyrir það eitt að tjá sig friðsamlega. Auk þess er krafist að yfirvöld hætti að leggja friðsamlega tjáningu að jöfnu við „hryðjuverk“.
Fréttatilkynning um Sádi-Arabíu
Nánar um stöðu tjáningarfrelsis í Sádi-Arabíu