Yfirvöld í Sádi-Arabíu leggja allt kapp á að þagga niður í gagnrýnisröddum í landinu. Samfélagsmiðlafærslur þar sem kallað er eftir umbótum í mannréttindamálum eða yfirvöld gagnrýnd geta einar og sér leitt til ferðabanns, fangelsisvistar svo áratugum skiptir eða jafnvel dauðadóms. Á sama tíma verja yfirvöld gífurlegum fjármunum í ímyndarherferð til að skapa þá tálsýn að Sádi-Arabía sé land framfara og umbóta. Frægu íþróttafólki og skemmtikröftum er meðal annars boðið til landsins til að draga athyglina frá skelfilegum mannréttindabrotum í landinu.
Í mars árið 2019 leiddu íslensk stjórnvöld sameiginlegt ávarp 36 ríkja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu. Ávarpið markaði tímamót því aldrei áður hafði landið sætt sameiginlegri gagnrýni fjölda ríkja í ráðinu með sambærilegum hætti. En þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda í Sádi-Arabíu um að bæta mannréttindaástandið í landinu er hyldýpi á milli loforða og efnda í dag. Íslensk stjórnvöld geta enn haft forystu um að þrýsta á stjórnvöld í Sádi-Arabíu að standa við stóru orðin með innleiðingu raunverulegra mannréttindaumbóta í landinu.
Hvert er vandamálið?
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu sýna ekkert umburðarlyndi gagnvart gagnrýni. Fólk hlýtur nú harðari dóma en Amnesty International hefur nokkru sinni áður skrásett í Sádi-Arabíu fyrir að nýta rétt sinn til tjáningar.
Hin 29 ára gamla Manahel al-Otaibi, líkamsræktarkennari og aðgerðarsinni, var dæmd í 11 ára fangelsi í febrúar 2024 fyrir að styðja kvenréttindi á samfélagsmiðli og birta mynd af sér í klæðnaði sem yfirvöld töldu ósæmilegan.
Mannréttindafrömuðurinn Mohammed al-Qahtani situr enn í fangelsi fyrir mannréttindastarf sitt þrátt fyrir að hafa á síðasta ári átt að ljúka afplánun á þeim tíu ára dómi sem hann hlaut.
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu herja einnig á fólk sem hefur ekki áður tekið þátt í pólitísku aðgerðastarfi.
Mohammad bin Nasser al-Ghamdi, fyrrum kennari sem er nú er kominn á eftirlaun, var dæmdur til dauða fyrir að gagnrýna yfirvöld á X (áður Twitter). Hann hafði samanlagt aðeins tíu fylgjendur.
Salma al-Shehab, doktorsnemi og tveggja barna móðir, afplánar 27 ára fangelsisdóm vegna færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum til stuðnings kvenréttindum. Hún hlaut einnig 27 ára ferðabann að lokinni afplánun.
Abdulrahman al-Sadhan, hjálparstarfsmaður Rauða hálfmánans, var handtekinn í mars 2018 og sætti þvinguðu mannshvarfi (leynilegu haldi yfirvalda) í rúmlega tvö ár. Hann hlaut 20 ára fangelsisdóm sem lýkur með 20 ára ferðabanni vegna háðsádeilu sem hann tísti.
Á meðan þessi svívirðilega kúgun á sér stað í Sádi-Arabíu ver krónprinsinn Mohammad bin Salman milljörðum dollara til að fela sannleikann og hvítþvo ímynd landsins.
Hvernig getur þú hjálpað?
Yfirvöld í Sádi-Arabíu mega ekki komast upp með það að þagga niður raddir og sögur þeirra einstaklinga sem yfirvöld hafa fangelsað í aðför sinni gegn tjáningarfrelsinu.
Við megum ekki leyfa Sádi-Arabíu að kaupa þögn okkar!
Gríptu til aðgerða strax!
Skrifaðu undir og skoraðu á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að yfirvöld í Sádi-Arabíu leysi öll þau úr haldi sem hafa ranglega verið fangelsuð fyrir að nýta rétt sinn til tjáningar.
Fjöldi undirskrifta fyrir þetta ákall verður einnig komið beint til skila til yfirvalda í Sádi-Arabíu.
Fréttatilkynning um Sádi-Arabíu
Nánar um stöðu tjáningarfrelsis í Sádi-Arabíu