Fjölmiðlun er hættuleg starfsgrein í Mjanmar. Rúmlega tvö hundruð fjölmiðlamenn hafa verið fangelsaðir frá því að herinn tók við völdum árið 2021. Vitað er um að minnsta kosti sjö fjölmiðlamenn sem hafa verið drepnir. Fjölmiðlar hafa verið bannaðir og gerðir útlægir.
Þrátt fyrir þessa hættu ferðaðist blaðaljósmyndarinn Sai Zaw Thaike leynilega til Rakine-héraðs í kjölfar þess að fellibylurinn Mocha reið yfir Mjanmar í maí 2023. Hann var staðráðinn í að greina frá eyðileggingunni.
Hann slóst í för með hjálparstarfsfólki. Eftir viku á staðnum var Sai Zaw handtekinn. Hann var yfirheyrður, barinn og í september 2023 var hann dæmdur af herrétti í 20 ára fangelsi með erfiðisvinnu. Réttarhöld yfir honum stóðu í aðeins einn dag.
Sai Zaw á að geta unnið sitt starf í friði. Hann ætti að fá að vera heima í faðmi fjölskyldu sinnar og stunda áhugamál sín, eins og að spila fótbolta, hitta vini sína og sinna köttunum sínum sem eru í miklum metum hjá honum.
Þess í stað er hann á bak við lás og slá. Hann hefur mátt þola einangrunarvist og barsmíðar af hálfu starfsfólks fangelsisins.
Krefstu þess að herinn í Mjanmar leysi Sai Zaw Thaike tafarlaust úr haldi.