Chandaravuth Ly, Keoraksmey Phuon, Kunthea Long, Leanghy Yim, Ratha Sun og Ratha Thun eiga það öll sameiginlegt að hafa unun af kaffidrykkju, bóklestri og göngum úti í náttúrunni. Umfram allt deila þau ást sinni á náttúrunni. Baráttuhópur þeirra, Móðir náttúra Kambódía (e. Mother Nature Cambodia), hefur ötullega verndað umhverfið fyrir skaðlegum aðgerðum fyrirtækja og ríkisstjórnarinnar.
Hópurinn náði þeim árangri árið 2015 að stöðva áætlun um gerð stíflu sem hefði leitt til gríðarlegrar skógareyðingar. Árið 2016 átti hann þátt í að banna útflutning á sandi til verndar strandsvæði gegn umhverfisspjöllum.
Barátta þeirra í þágu umhverfisverndar hefur verið ungu fólki í landinu hvatning en einnig verið þeim dýrkeypt. Yfirvöld hafa ítrekað gert atlögu að hópnum með handtökum og saksóknum. Árið 2020 voru þrír aðgerðasinnar hópsins handteknir fyrir friðsamleg mótmæli gegn uppfyllingu stöðuvatns. Ári síðar voru þrjú til viðbótar úr hópi þeirra handtekin á meðan þau rannsökuðu mengun í á.
Aðgerðasinnarnir sex voru dæmdir í sex til átta ára fangelsi í júní 2024. Meintur glæpur þeirra var að vernda náttúruna sem þeim þykir svo vænt um. Ratha Sun flúði Kambódíu til að geta haldið starfi þeirra áfram en hin fimm úr hópnum þurfa að þola erfiðar aðstæður í fangelsi.
Krefstu lausnar aðgerðasinnanna fimm og ógildingar á sakfellingu hópsins.