Damisoa neyddist ásamt fjölskyldu sinni til að flýja heimili sitt í Androy-héraði í suðurhluta Madagaskar árið 2021. Ekki var nægur matur til að lifa af vegna versnandi þurrka af völdum loftslagsbreytinga.
Eftir átakanlega fjóra mánuði og 1.500 km ferðalag komust þau til Boeny í norðvesturhluta landsins þar sem þau vonuðust eftir betra lífi. Aðstæður þar hafa verið erfiðar. Þeim var úthlutað fimm fermetra kofa árið 2023 á svæði sem stjórnvöld settu á laggirnar fyrir endurbúsetu fólks vegna þurrka. Á regntímabilinu flæðir yfir bakka Kamoro-fljótsins þar sem krökkt er af krókódílum og straumhart vatnið umlykur svæðið. Það veldur því að það er hættulegt fyrir íbúa að yfirgefa svæðið. Landið er hrjóstrugt og aðgangur að mat, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu er takmarkaður. Nýfædd frænka Damisoa lét lífið í byrjun árs 2025 í kjölfar þess að móðir hennar gat ekki gefið henni brjóst lengur þar sem hún sjálf var orðin veikburða vegna hungurs og þorsta. Damisoa var útnefndur af stjórnvöldum sem umsjónarmaður svæðisins og hefur hann varið miklum hluta tíma síns í að tala máli íbúanna sem búa við niðurlægjandi aðstæður. Beiðnum hans um úrbætur hefur hins vegar ekki verið svarað.
Damisoa og aðra íbúa svæðisins, sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna hungursneyðar og búa nú í Boeny, bráðvantar mannúðaraðstoð. Aðstoðin sem er veitt miðast nær eingöngu við þurrkasvæðin í suðurhluta Madagaskar.
Krefstu þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja mannréttindi Damisoa og annars fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna þurrka í Madagaskar.