Ellinor Guttorm Utsi er samísk frumbyggjakona og ástríðufullur leiðtogi sem berst fyrir því að vernda ævaforna lífshætti samfélags hreindýrahirðingja í norðurhluta Noregs. Sem talsmaður talar Ellinor máli fjölskyldu sinnar og annarra í samfélaginu sem hafa kynslóðum saman fylgt breytilegum árstíðum til að færa sig um set á norðurskautinu. Á sumrin reiðir samfélagið sig á beitarlandið Čorgaš sem er nú í bráðri hættu.
Samar eru frumbyggjar á svæðum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Hreindýraræktun er meginþáttur í fæðuöflun Sama sem gefur af sér sjálfbæran mat, klæðnað og handverk. Ræktunin byggist á að flytja hjarðir á milli beitilanda um norðurskautið. Ellinor leiðir baráttu samfélags síns fyrir réttinum til lands og menningar. Hún beinir athygli að erfiðleikum frumbyggja í tengslum við landréttindi þeirra vegna loftslagsbreytinga og þróunar á endurnýjanlegri orku.
Árið 2023 var skyndilega lagt til að setja upp hundruð vindmylla á landsvæði Sama og margar þeirra á beitilandi Ellinor. Við þessar risastóru framkvæmdir myndu vindmyllur, vegir og raflínur skera í sundur landið, valda truflunum á flutningum hreindýra á milli beitilanda og eyðileggja djúpa náttúrutengingu samfélagsins.
Þrátt fyrir mikla andstöðu kappkosta norsk yfirvöld að samþykkja leyfisveitingar fyrir vindmyllunum sem fyrst. Ellinor vinnur hörðum höndum að því að raddir Sama fái að heyrast og réttindi þeirra verði virt. Tíminn er að renna út.
Krefstu þess að Noregur virði réttindi Sama og verndi land þeirra, lífsviðurværi og menningu.