Komum í veg fyrir aftöku Rockys Myers

Á dauðadeild í þrjá áratugi þrátt fyrir gallaða málsmeðferð

Rocky Myers er lýst af þeim sem þekkja hann sem blíðum og góðum einstak­lingi. Hann elskar systkini sín, börnin sín og barna­börn og þau dýrka hann. Hann spilaði á trommur í kirkju­kórnum sínum.

Rocky var greindur með þroska­hömlun þegar hann var 11 ára. Honum þykir erfitt að lesa og á erfitt með að halda utan um dagsetn­ingar og tíma. Á einni kvöld­stund árið 1991 í bænum Decatur í Alabama breyttist líf hans til fram­búðar.

Eldri hvít kona var myrt í hverfi þar sem flestir íbúar eru svartir. Rocky, sem er svartur, bjó hinum megin götunnar þar sem konan var myrt. Engin sönn­un­ar­gögn fundust sem tengdu hann við morð­staðinn fyrir utan mynd­bands­tæki í eigu konunnar sem Rocky kvaðst hafa fundið á götu úti. Engu að síður var hann dæmdur sekur um glæpinn.

Vitn­is­burðir voru litaðir af ósam­ræmi og  ásök­unum um þrýsting frá lögreglu. Eitt aðal­vitnið greindi síðar frá því að hann hefði logið. Kvið­dóm­endur, sem voru að miklum meiri­hluta hvítir, fundu Rocky sekan en lögðu til að hann fengi lífs­tíð­ar­fang­elsi. Dómari hafnaði úrskurði kvið­dómsins og dæmdi Rocky til dauða en dómari má ekki lengur hafna úrskurði kvið­dóms í Alabama.

Hæstiréttur Banda­ríkj­anna hefur úrskurðað að sakborn­ingar með þroska­hömlun séu „í sérstakri hættu á að sæta órétt­mætri aftöku“. Þetta á sann­ar­lega við um Rocky.

Vegna ófull­nægj­andi rétt­ar­gæslu og þar sem lögmaður Rockys, sem tók við máli hans eftir sakfell­ingu, hætti að verja hann missti Rocky af lokafresti til að áfrýja. Aftaka hans getur átt sér stað hvenær sem er og eina von hans er að ríkis­stjóri Alabama náði hann.

 Krefstu þess að ríkis­stjóri Alabama náði Rocky Myers.    

 

 

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Suður-Afríka

Réttlæti fyrir þriggja ára dreng sem lést á leikskóla

Unecebo Mboteni, þriggja ára drengur, féll ofan í kamar á leikskóla sínum þann 18. apríl 2024 í austurhluta Cape-héraðs. Degi síðar lét hann lífið. Ári síðar hefur fjölskylda hans ekki fengið svör við því hvers vegna þessi harmleikur átti sér stað. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Mjanmar

20 ára fangelsi fyrir fréttaöflun um fellibyl

Fjölmiðlun er hættuleg starfsgrein í Mjanmar. Í kjölfar þess að fellibylurinn Mocha reið yfir landið í maí 2023 ferðaðist blaðaljósmyndarinn Sai Zaw Thaike til Rakine-héraðs til að greina frá eftirköstum fellibylsins en var handtekinn. Sai Zaw var síðan dæmdur í 20 ára fangelsi af herrétti í september 2023. Hann hefur mátt þola einangrunarvist og barsmíðar af hálfu starfsfólks fangelsisins.

Kirgistan

Fjölmiðlakona í fangelsi fyrir að afhjúpa meinta spillingu

Makhabat Tazhibek kyzy stýrði rannsóknardeild á einum helsta rannsóknarfjölmiðli í Kirgistan sem afhjúpaði meinta spillingu í æðstu embættum landsins og fjallaði um samfélagsmein eins og ójafnrétti. Hún var ákærð fyrir að „hvetja til ofbeldis gegn borgurum“ og „hvetja til óhlýðni og óeirða“ en ákærurnar voru tilhæfulausar. Samt sem áður var Makhabat dæmd í sex ára fangelsi í október 2024.

Madagaskar

Neyddist til að flýja heimili sitt í kjölfar þurrka

Damisoa flúði ásamt fjölskyldu sinni hungursneyð í Androy-héraði í suðurhluta Madagaskar árið 2021 vegna þurrka á svæðinu. Í stað þess að eignast betra líf í Boeny í norðvesturhluta landsins eins og vonir stóðu til var þeim úthlutað bágbornum húsakosti á svæði sem stjórnvöld settu á laggirnar fyrir endurbúsetu fólks vegna þurrka. Þar er vatn af skornum skammti og hreinlætisaðstaða slæm.

Ekvador

Berjast gegn eyðileggingu af völdum gasbruna

Stjórnvöld í Ekvador hafa ekki framfylgt dómsúrskurði sem féll í vil níu baráttustúlkna og ungra kvenna um að binda enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum. Gasbrunar brjóta á réttindum íbúa nærliggjandi svæða vegna mengunar sem þeir valda. Skrifaðu undir ákall og krefstu þess að forseti Ekvador hrindi af stað áætlun um að stöðva notkun gasbruna (sérstaklega þeirra sem staðsettir eru 5 km frá byggð) í samræmi við dómsúrskurð, verndi mannréttindi íbúa sem búa í grennd við gasbruna, stuðli að réttlátum orkuskiptum þar sem dregið verður smám saman úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Kambódía

Sakfelld fyrir umhverfisvernd

Baráttuhópurinn Móðir náttúra Kambódía (e. Mother Nature Cambodia) hefur barist ötullega fyrir umhverfisvernd frá árinu 2013. Allt frá árinu 2016 hafa yfirvöld ítrekað gert atlögu að hópnum með handtökum og saksóknum. Sex aðgerðasinnar hópsins voru dæmdir í sex til átta ára fangelsi í júní 2024. Einn þeirra flúði Kambódíu til að geta haldið starfi þeirra áfram en hinir fimm þurfa að þola erfiðar aðstæður í fangelsi.

Hondúras

Myrtur fyrir að vernda umhverfi sitt

Allt frá árinu 2015 lögðu Juan López og aðrir aðgerðasinnar frá Tocoa-héraði í norðurhluta Hondúras sig fram um að verja umhverfi sitt gegn námuvinnslu og orkuframleiðslu sem ógnuðu ám, skógum og þjóðgarði. Juan var skotinn til bana 14. september 2024 í bíl sínum á leið frá kirkju af grímuklæddum byssumanni. Meintur byssumaður og tveir grunaðir vitorðsmenn hafa verið ákærðir fyrir morð. Réttarhöldin hafa enn ekki farið fram.

Túnis

Í fangelsi fyrir gagnrýni

Sonia Dahmani er lögfræðingur sem hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir mannréttindum. Öryggissveitir í Túnis handtóku hana í maí 2024 fyrir að tjá sig um málefni á borð við kynþáttafordóma. Sonia var sakfelld og dæmd til fangavistar á grundvelli tilhæfulausrar ákæru um að „dreifa fölskum fréttum“. Hún á yfir höfði sér allt að 20 ára fangavist og henni er haldið fanginni við ómannúðlegar aðstæður.

Noregur

Samar berjast fyrir landi sínu og menningu

Ellinor Guttorm Utsi er samísk frumbyggjakona sem berst fyrir því að vernda ævaforna lífshætti samfélags hreindýrahirðingja í norðurhluta Noregs. Ráðgert er að reisa hundruð vindmylla á landsvæði Sama, sem ógnar beitilandi þeirra og menningu. Norsk stjórnvöld verða að virða rétt Sama til þátttöku í ákvarðanaferli sem hefur áhrif á landsvæði þeirra og lífsviðurværi.