Joel Paredes, 29 ára leirkerasmiður, býr í Humahuaca, litlum bæ í héraðinu Jujuy í norðurhluta Argentínu. Í júní 2023 þrýstu yfirvöld á svæðinu í gegn breytingum á stjórnarskrá héraðsins, settu meðal annars á takmarkanir á réttinum til að koma saman friðsamlega og gerðu ráðstafanir sem geta valdið umhverfisskaða og brotið á landsréttindum frumbyggja. Þessar breytingar voru samþykktar án samráðs við frumbyggja og aðra íbúa svæðisins.
Jujuy er hérað sem er ríkt að liþíum, málmi sem er líkt við gull vegna eftirspurnar á heimsvísu til að nýta í rafhlöður. Yfirvöld í Argentínu vilja auka útflutning á liþíum, en íbúar landsvæðisins, líkt og Joel og fjölskylda hans, eru fullir efasemdar.
Þó að Joel sé ekki frumbyggi þá sýndi hann málstað þeirra skilning og hafði áhyggjur af framtíð barna sinna sem myndu alast upp á þessu landsvæði. Til að sýna stuðning fór Joel á mótmæli á torginu í Humahuaca að kvöldi 30. júní 2023. Hann var á meðal hundraða friðsamra mótmælenda og spilaði á bombo-trommur (suðuramerískar trommur) með hljómsveit sinni á sama tíma og bæjarráðið ræddi breytingarnar í nálægri byggingu. Joel segir: „Hljóðfærin eru vopnin okkar.“
Aðfaranótt 1. júlí mætti lögreglan á torgið og byrjaði að skjóta gúmmískotum gáleysislega í átt að fjöldanum. Joel fékk gúmmískot í hægra augað. Hann þurfti á skurðaðgerð að halda vegna áverkanna en læknar gátu ekki bjargað sjón hans. Joel er núna varanlega blindur á hægra auga. Hann fær einnig lamandi taugaverki, sem hefur áhrif á daglegt líf hans. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir það sem kom fyrir Joel og aðra mótmælendur.
Krefstu réttlætis fyrir Joel Paredes.