„Hljóðfærin eru vopnin okkar.“

Blindaður með gúmmískoti á friðsamlegum mótmælum

Joel Paredes, 29 ára leir­kera­smiður, býr í Huma­huaca, litlum bæ í héraðinu Jujuy í norð­ur­hluta Argentínu. Í júní 2023 þrýstu yfir­völd á svæðinu í gegn breyt­ingum á stjórn­ar­skrá héraðsins, settu meðal annars á takmark­anir á rétt­inum til að koma saman frið­sam­lega og gerðu ráðstaf­anir sem geta valdið umhverf­isskaða og brotið á lands­rétt­indum frum­byggja. Þessar breyt­ingar voru samþykktar án samráðs við frum­byggja og aðra íbúa svæð­isins.

Jujuy er hérað sem er ríkt að liþíum, málmi sem er líkt við gull vegna eftir­spurnar á heimsvísu til að nýta í rafhlöður. Yfir­völd í Argentínu vilja auka útflutning á liþíum, en íbúar land­svæð­isins, líkt og Joel og fjöl­skylda hans, eru fullir efasemdar.

Þó að Joel sé ekki frum­byggi þá sýndi hann málstað þeirra skilning og hafði áhyggjur af framtíð barna sinna sem myndu alast upp á þessu land­svæði. Til að sýna stuðning fór Joel á mótmæli á torginu í Huma­huaca að kvöldi 30. júní 2023. Hann var á meðal hundraða frið­samra mótmæl­enda og spilaði á bombo-trommur (suður­am­er­ískar trommur) með hljóm­sveit sinni á sama tíma og bæjar­ráðið ræddi breyt­ing­arnar í nálægri bygg­ingu. Joel segir: „Hljóð­færin eru vopnin okkar.“

Aðfaranótt 1. júlí mætti lögreglan á torgið og byrjaði að skjóta gúmmí­skotum gáleys­is­lega í átt að fjöld­anum. Joel fékk gúmmí­skot í hægra augað. Hann þurfti á skurð­að­gerð að halda vegna áverk­anna en læknar gátu ekki bjargað sjón hans. Joel er núna varan­lega blindur á hægra auga. Hann fær einnig lamandi tauga­verki, sem hefur áhrif á daglegt líf hans. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir það sem kom fyrir Joel og aðra mótmæl­endur.

Krefstu rétt­lætis fyrir Joel Paredes.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Angóla

TikTok-stjarna fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann

Ana da Silva Miguel, þekkt undir nafninu Neth Nahara, er söngkona og áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Í ágúst 2023 gagnrýndi hún forseta landsins, João Lourenço, á TikTok. Næsta dag var Neth handtekin. Í kjölfarið var réttað yfir henni, hún sakfelld og dæmd í sex mánaða fangelsi en dómurinn var síðar lengdur í tvö ár. Yfirvöld í Angóla beita umdeildum lögum sem gera það refsivert að gagnrýna forsetann í þeim tilgangi að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Víetnam

Í fangelsi fyrir að vernda umhverfið og mannréttindi

Umhverfismálalögfræðingurinn Dang Dinh Bach hefur helgað líf sitt verndun fólksins í Víetnam gegn áhrifum mengunar og loftslagsbreytinga. Bach var handtekinn 24. júní 2021 og færður í fangelsi fyrir meint skattsvik, aðferð sem víetnömsk yfirvöld beita til að þagga niður í umhverfisaðgerðasinnum. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.