Bernardo Caal Xol tilheyrir samfélagi Q’eqchi’ sem eru Maya-frumbyggjar í Gvatemala. Í störfum sínum sem kennari og verkalýðsleiðtogi hefur Bernardo kappkostað að efla og styrkja samfélag sitt.
Hann hefur einnig gert allt sem í hans valdi stendur til að vernda með friðsamlegum hætti landsvæði Maya-frumbyggja og náttúrulegar auðlindir. Þegar fyrirtæki var veitt leyfi stjórnvalda til að reisa tvær vatnsaflsvirkjanir við ána Cahabón, sem er heilög í augum Maya-frumbyggja, ákváðu Bernardo og hans fólk að mótmæla.
Uppbygging vatnsaflsvirkjananna hafði þegar eyðilagt skóginn þeirra og nú stóðu Maya-frumbyggjar frammi fyrir því að missa vatnið sem var lífsviðurværi þeirra. Bernardo krafðist þess að hætt yrði við framkvæmdir við vatnsaflsvirkjanirnar á þeim forsendum að ekki hefði verið haft samráð við frumbyggja sem búa á svæðinu, eins og krafist er í alþjóðalögum. Aðgerðirnar hugnuðust hvorki fyrirtækinu né stjórnmálaelítu landsins.
Eftir mótmælin dundi á rógsherferð gegn Bernardo þar sem hann var endurtekið borinn tilhæfulausum ásökunum. Árið 2018 var hann dæmdur í átta ára fangelsi þrátt fyrir skort á sönnunargögnum.
„Af hverju er ég í fangelsi?“ spyr Bernardo. „Fyrir að fordæma það sem þeir eru að gera við árnar okkar, fyrir að vernda það litla sem eftir er?“
Krefðu stjórnvöld í Gvatemala um að leysa Bernardo tafarlaust úr haldi.