Dorgelesse Nguessan, sem er einstæð móðir og hársnyrtir í Kamerún, hefur lengi dreymt um að stofna og reka eigin snyrtistofu. Fyrir tveimur árum var hún byrjuð að færa út kvíarnar í rekstri sínum á hárgreiðslustofu þegar draumar hennar urðu að engu.
Dorgelesse var handtekin á mótmælum í Douala í Kamerún þann 22. septemter 2020. Þetta voru fyrstu mótmælin sem hún tók þátt í. Hún hafði ekki tekið þátt í aðgerðastarfi áður en áhyggjur hennar af stöðu efnahagsmála í Kamerún urðu til þess að hún tók þátt í mótmælunum.
Þegar mótmælin, sem voru friðsamleg, hófust skutu öryggissveitir gúmmíkúlum og beindu táragasi og vatnsbyssum að mótmælendum til að tvístra hópnum. Þegar Dorgelesse flúði inn í húsasund ásamt fleiri mótmælendum elti lögreglan og hindraði för þeirra. Hún var handtekin og haldið í fangaklefa, ásamt tuttugu og tveimur öðrum, við hræðilegar aðstæður.
Dorgelesse var hinn 29. september 2020 flutt í Douala-fangelsið þar sem hún er enn í haldi. Hún var ákærð fyrir „uppreisn, fundahöld og opinber mótmæli“ og réttarhöld yfir henni fóru fram fyrir herrétti. Hún var dæmd í fimm ára fangelsi hinn 7. desember 2021.
Dorgelesse var eina fyrirvinna fjölskyldunnar. Átján ára sonur hennar er með sigðkornablóðleysi sem veldur skorti á súrefnisupptöku, tíðum sýkingum, sjónvandamálum og gífurlegum sársauka. Fjölskyldan berst í bökkum við að greiða fyrir lyfin hans. Dorgelesse bíður örvæntingarfull eftir að sameinast fjölskyldu sinni á ný.
Krefstu þess að stjórnvöld í Kamerún leysi Dorgelesse úr haldi strax í dag!