Mannréttindalögfræðingur í fangelsi

Glataði frelsi sínu fyrir að verja frelsi annarra

Mohamed Baker hefur dálæti á köttum og sjálfur á hann fimm heim­ilisketti. Hann er einnig fótboltaunn­andi og hefur gaman af vegg­tennis og mótor­hjóla­akstri.

Baker tilheyrir samfé­lagi Núbíu­manna og heldur hann mikið upp á núbíska tónlistar- og menn­ing­ar­arf­leifð. Í dag getur mann­rétt­inda­lög­fræð­ing­urinn hins vegar aðeins látið sig dreyma um það sem hann hefur dálæti á. Baker var varpað í fang­elsi fyrir það eitt að verja rétt­indi jaðar­hópa í Egyptalandi.

Í sept­ember 2019 fór Baker á skrif­stofu saksóknara til að verja vin sinn en var sjálfur hand­tekinn. Yfir­völd réttuðu aldrei yfir honum en ásökuðu hann um upplognar hryðju­verka­að­gerðir og vörpuðu Baker í fang­elsi. Allt vegna þess að yfir­völdum hugn­aðist ekki mann­rétt­inda­störf hans. Baker stýrir Adalah-miðstöð­inni fyrir rétt­indum og frelsi sem styður við mann­rétt­indi fólks sem hefur rang­lega verið fang­elsað.

Baker hefur sætt marg­vís­legu harð­ræði og grimmi­legri meðferð í fang­elsinu. Fang­els­is­mála­yf­ir­völd veittu honum til að mynda ekki leyfi til að kveðja deyj­andi föður sinn. Honum er haldið föngnum í þröngum og daunillum klefa og hefur hvorki aðgang að rúmi eða dýnu né heitu vatni. Þá fær hann ekki að stunda neina hreyf­ingu eða líkams­rækt utan­dyra og er meinað að hafa myndir af fjöl­skyldu­með­limum í klef­anum.

Þrátt fyrir þetta harð­ræði er Baker vongóður.

„Einn daginn … munum við halda vinnu okkar áfram við að koma á frjálsum samfé­lögum.“ Hjálpaðu Baker að sjá þann dag verða að veru­leika.

Krefðu egypsk stjórn­völd um að leysa Mohamed Baker tafar­laust úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Suður-Afríka

Réttlæti fyrir þriggja ára dreng sem lést á leikskóla

Unecebo Mboteni, þriggja ára drengur, féll ofan í kamar á leikskóla sínum þann 18. apríl 2024 í austurhluta Cape-héraðs. Degi síðar lét hann lífið. Ári síðar hefur fjölskylda hans ekki fengið svör við því hvers vegna þessi harmleikur átti sér stað. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Mjanmar

20 ára fangelsi fyrir fréttaöflun um fellibyl

Fjölmiðlun er hættuleg starfsgrein í Mjanmar. Í kjölfar þess að fellibylurinn Mocha reið yfir landið í maí 2023 ferðaðist blaðaljósmyndarinn Sai Zaw Thaike til Rakine-héraðs til að greina frá eftirköstum fellibylsins en var handtekinn. Sai Zaw var síðan dæmdur í 20 ára fangelsi af herrétti í september 2023. Hann hefur mátt þola einangrunarvist og barsmíðar af hálfu starfsfólks fangelsisins.

Kirgistan

Fjölmiðlakona í fangelsi fyrir að afhjúpa meinta spillingu

Makhabat Tazhibek kyzy stýrði rannsóknardeild á einum helsta rannsóknarfjölmiðli í Kirgistan sem afhjúpaði meinta spillingu í æðstu embættum landsins og fjallaði um samfélagsmein eins og ójafnrétti. Hún var ákærð fyrir að „hvetja til ofbeldis gegn borgurum“ og „hvetja til óhlýðni og óeirða“ en ákærurnar voru tilhæfulausar. Samt sem áður var Makhabat dæmd í sex ára fangelsi í október 2024.

Madagaskar

Neyddist til að flýja heimili sitt í kjölfar þurrka

Damisoa flúði ásamt fjölskyldu sinni hungursneyð í Androy-héraði í suðurhluta Madagaskar árið 2021 vegna þurrka á svæðinu. Í stað þess að eignast betra líf í Boeny í norðvesturhluta landsins eins og vonir stóðu til var þeim úthlutað bágbornum húsakosti á svæði sem stjórnvöld settu á laggirnar fyrir endurbúsetu fólks vegna þurrka. Þar er vatn af skornum skammti og hreinlætisaðstaða slæm.

Ekvador

Berjast gegn eyðileggingu af völdum gasbruna

Stjórnvöld í Ekvador hafa ekki framfylgt dómsúrskurði sem féll í vil níu baráttustúlkna og ungra kvenna um að binda enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum. Gasbrunar brjóta á réttindum íbúa nærliggjandi svæða vegna mengunar sem þeir valda. Skrifaðu undir ákall og krefstu þess að forseti Ekvador hrindi af stað áætlun um að stöðva notkun gasbruna (sérstaklega þeirra sem staðsettir eru 5 km frá byggð) í samræmi við dómsúrskurð, verndi mannréttindi íbúa sem búa í grennd við gasbruna, stuðli að réttlátum orkuskiptum þar sem dregið verður smám saman úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Kambódía

Sakfelld fyrir umhverfisvernd

Baráttuhópurinn Móðir náttúra Kambódía (e. Mother Nature Cambodia) hefur barist ötullega fyrir umhverfisvernd frá árinu 2013. Allt frá árinu 2016 hafa yfirvöld ítrekað gert atlögu að hópnum með handtökum og saksóknum. Sex aðgerðasinnar hópsins voru dæmdir í sex til átta ára fangelsi í júní 2024. Einn þeirra flúði Kambódíu til að geta haldið starfi þeirra áfram en hinir fimm þurfa að þola erfiðar aðstæður í fangelsi.

Hondúras

Myrtur fyrir að vernda umhverfi sitt

Allt frá árinu 2015 lögðu Juan López og aðrir aðgerðasinnar frá Tocoa-héraði í norðurhluta Hondúras sig fram um að verja umhverfi sitt gegn námuvinnslu og orkuframleiðslu sem ógnuðu ám, skógum og þjóðgarði. Juan var skotinn til bana 14. september 2024 í bíl sínum á leið frá kirkju af grímuklæddum byssumanni. Meintur byssumaður og tveir grunaðir vitorðsmenn hafa verið ákærðir fyrir morð. Réttarhöldin hafa enn ekki farið fram.

Túnis

Í fangelsi fyrir gagnrýni

Sonia Dahmani er lögfræðingur sem hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir mannréttindum. Öryggissveitir í Túnis handtóku hana í maí 2024 fyrir að tjá sig um málefni á borð við kynþáttafordóma. Sonia var sakfelld og dæmd til fangavistar á grundvelli tilhæfulausrar ákæru um að „dreifa fölskum fréttum“. Hún á yfir höfði sér allt að 20 ára fangavist og henni er haldið fanginni við ómannúðlegar aðstæður.

Noregur

Samar berjast fyrir landi sínu og menningu

Ellinor Guttorm Utsi er samísk frumbyggjakona sem berst fyrir því að vernda ævaforna lífshætti samfélags hreindýrahirðingja í norðurhluta Noregs. Ráðgert er að reisa hundruð vindmylla á landsvæði Sama, sem ógnar beitilandi þeirra og menningu. Norsk stjórnvöld verða að virða rétt Sama til þátttöku í ákvarðanaferli sem hefur áhrif á landsvæði þeirra og lífsviðurværi.