Ibrahim Ezz El-Din er 26 ára gamall og rannsakar mannréttindabrot í Kaíró í Egyptalandi. Starfið skiptir Ibrahim miklu máli en hann rannsakar og greinir frá aðgengi fólks að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.
Utan vinnutíma hefur hann unun af að fást við teikningu en áhugi hans beinist einnig að hönnun. Ibrahim er jafnframt mikill knattspyrnuáhugamaður og fylgist vel með gengi heimamanna, Zamalek fótboltaliðsins.
Að kvöldi dags þann 11. júní 2019 var Ibrahim á gangi heimleiðis þegar fjórir óeinkennisklæddir lögreglumenn umkringdu hann og handtóku. Þegar móðir hans uppgötvaði hvernig var í pottinn búið hélt hún samstundis á lögreglustöð í nágrenninu en þegar þangað var komið fullyrti lögregla að Ibrahim væri hvorki á staðnum né í varðhaldi.
Allt frá þessu örlagaríka kvöldi hefur fjölskylda Ibrahims reynt að komast að því hvað varð um hann. Hún hefur engin svör fengið. Ibrahim er fimmti einstaklingurinn sem starfar fyrir egypska nefnd um mannréttindi og frelsi og handtekinn hefur verið á aðeins þremur árum.
Hundruð einstaklinga eins og Ibrahim hafa horfið á líkan hátt í Egyptalandi og síðan komið í ljós að þeim er haldið í fangelsi, svo mánuðum skiptir, án réttarhalda. Margir eru handteknir fyrir það eitt að tjá skoðun sína friðsamlega, gagnrýna stjórnvöld eða verja mannréttindi. Um getur verið að ræða hvern sem er, allt frá stjórnmála- og blaðafólki til knattspyrnuáhugafólks.
Skrifaðu undir bréfið og krefðu egypsk stjórnvöld um að greina frá því hvar Ibrahim er og hvað kom fyrir hann.