Unglingsstúlka liðið hrylling

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu og átti sér stóra drauma. Hún var stað­ráðin í að verða fata­hönn­uður þegar hún yxi úr grasi. Draumar hennar urðu hins vegar að engu þegar hún var 15 ára gömul.

Hinn 8. desember 2012 var Ciham hand­tekin við landa­mæri Súdans þegar hún reyndi að flýja Erítreu. Faðir hennar, Ali Abdu, þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra undir stjórn Isaias Afwerki forseta landsins, gerðist land­flótta þegar her landsins gerði vald­aránstilraun gegn stjórn­völdum. Sá orðrómur var á kreiki að Ali Abdu hefði stutt vald­aránið og Ciham kynni að hafa verið hand­tekin sem hefnd­ar­ráð­stöfun.

Níu ár eru liðin frá því að Ciham sætti þvinguðu manns­hvarfi en enginn veit, ekki einu sinni fjöl­skylda hennar, hvar hún er í haldi. Hún hefur ekki verið ákærð eða komið fyrir rétt. Það er engu líkara en Ciham sé horfin spor­laust.

Erítrea er alræmd fyrir að halda fólki föngnu í gámum neðanjarðar þar sem það þarf að þola miklar öfgar í hita og kulda. Frásagnir herma að margir hafi látið lífið af völdum pynd­inga, hungurs, sýkinga eða í kjölfar annarrar hrotta­legrar meðferðar í þessum fang­elsum.

Á meðan önnur börn á aldur við Ciham stefna á fram­halds­skóla hefur Ciham liðið ómældan hrylling.

Enda þótt Ciham sé banda­rískur ríkis­borgari hafa stjórn­völd þar í landi hunsað kröfur um að beita sér í máli hennar. Banda­rísk stjórn­völd hafa þagað þunnu hljóði yfir skelfi­legri stöðu Ciham, jafnvel þó að þau hafi vald til að hafa áhrif á stjórn­völd í Erítreu.

Krefðu stjórn­völd í Banda­ríkj­unum um að tala máli Ciham.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Pólland

Sótt til saka fyrir að verja réttinn til þungunarrofs

Kvenréttindafrömuðurinn Justyna Wydrzyńska fann sig knúna til að aðstoða konu í ofbeldissambandi við þungunarrof. Slík aðstoð er refsiverð samkvæmt lögum í Póllandi. Justyna var sakfelld fyrir að aðstoða við þungunarrof. Dómurinn setur hættulegt fordæmi.

Bandaríkin

Á dauðadeild í þrjá áratugi þrátt fyrir gallaða málsmeðferð

Rocky Myers, svartur karlmaður með þroskahömlun, hefur setið í þrjá áratugi á dauðadeild í Alabama fyrir morð. Réttargæslan sem honum var úthlutað var ófullnægjandi og Rocky var sakfelldur í kjölfar vitnisburða sem litaðir voru af mótsögnum og meintum þrýstingi lögreglu.

Ástralía

„Við missum allt ef við missum eyjarnar okkar“

Pabai frændi og Paul frændi eru leiðtogar frumbyggjasamfélags í nyrsta hluta Ástralíu, á eyjunum í Torres-sundi. Nú eru heimkynni þeirra í hættu vegna loftslagsbreytinga. Verði ekki gripið til aðgerða strax neyðjast eyjabúar í Torres-sundi að flýja heimaslóðir sínar.

Túnis

Á yfir höfði sér fangelsi fyrir að láta í sér heyra

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að forseti landsins, Kais Saied, tók öll völd í Túnis hafa mannréttindi verið fótum troðin, ráðist hefur verið gegn tjáningarfrelsinu og sjálfstæði dómstóla skert. Chaima Issa gagnrýndi aðgerðir forsetans og var sett í varðhald í kjölfarið. Hún á yfir höfði sér áratugalangt fangelsi.

Sameinuðu arabísku furstadæmin

Dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að tjá sig

Ahmed Mansoor vakti reglulega máls á varðhaldi, pyndingum og óréttlátum réttarhöldum yfir einstaklingum sem gagnrýndu stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Nú er hann einn af gagnrýnendum stjórnvalda sem sitja í fangelsi.

Brasilía

Barátta móður fyrir réttlæti

Pedro Henrique var aðgerðasinni og talsmaður kynþáttaréttlætis og mannréttinda. Pedro var 31 árs þegar hann var skotinn til bana af hettuklæddum mönnum í desember 2018. Lögreglumennirnir sem grunaðir eru um morðið eru enn starfandi og réttarhöld eru ekki enn hafin. Ana Maria, móðir hans, berst fyrir réttlæti.

Suður-Afríka

Hótað fyrir að verja samfélag sitt

Thapelo Mohapi leiðir grasrótarhreyfinguna AbM sem vinnur að efnahagslegum umbótum í lífi fólks í Suður-Afríku og hefur talað gegn spillingu á svæðinu. Frá árinu 2021 hefur hann neyðst til að vera í felum vegna líflátshótana. Árið 2022 voru þrír meðlimir hreyfingarinnar myrtir.

Kirgistan

Í stofufangelsi fyrir mótmæli

Rita Karasartova er baráttukona fyrir mannréttindum í Kirgistan. Hún var mótfallin samkomulagi um landamæri sem veitir Úsbekistan stjórn yfir ferskvatnssvæðum. Núna er hún í stofufangelsi og sætir ströngu útgöngubanni. Hún á yfir höfði sér 15 ára fangelsisvist.

Mjanmar

Kallað eftir skaðabótum frá Facebook

Maung Sawyeddollah var15 ára þegar hann flúði þjóðernishreinsanir á Róhingjum. Hatursorðræða þar sem hvatt var með beinum hætti til ofbeldis gegn Róhingjum fékk víðtæka dreifingu á Facebook. Hann krefur nú samfélagsmiðilinn um skaðabætur.

Esvatíní

Myrtur fyrir að tala máli sannleikans

Thulani Maseko helgaði líf sitt fólkinu í Esvatíní, konungsríki þar sem konungsfjölskyldan er einráð og auðug en 60% íbúa lifa undir fátæktarmörkum. Hann gagnrýndi opinberlega kúgandi lög í landinu og ríkisofbeldi. Hann var skotinn til bana fyrir framan konu sína þann 21. janúar 2023.