Ciham Ali fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu og átti sér stóra drauma. Hún var staðráðin í að verða fatahönnuður þegar hún yxi úr grasi. Draumar hennar urðu hins vegar að engu þegar hún var 15 ára gömul.
Hinn 8. desember 2012 var Ciham handtekin við landamæri Súdans þegar hún reyndi að flýja Erítreu. Faðir hennar, Ali Abdu, þáverandi utanríkisráðherra undir stjórn Isaias Afwerki forseta landsins, gerðist landflótta þegar her landsins gerði valdaránstilraun gegn stjórnvöldum. Sá orðrómur var á kreiki að Ali Abdu hefði stutt valdaránið og Ciham kynni að hafa verið handtekin sem hefndarráðstöfun.
Níu ár eru liðin frá því að Ciham sætti þvinguðu mannshvarfi en enginn veit, ekki einu sinni fjölskylda hennar, hvar hún er í haldi. Hún hefur ekki verið ákærð eða komið fyrir rétt. Það er engu líkara en Ciham sé horfin sporlaust.
Erítrea er alræmd fyrir að halda fólki föngnu í gámum neðanjarðar þar sem það þarf að þola miklar öfgar í hita og kulda. Frásagnir herma að margir hafi látið lífið af völdum pyndinga, hungurs, sýkinga eða í kjölfar annarrar hrottalegrar meðferðar í þessum fangelsum.
Á meðan önnur börn á aldur við Ciham stefna á framhaldsskóla hefur Ciham liðið ómældan hrylling.
Enda þótt Ciham sé bandarískur ríkisborgari hafa stjórnvöld þar í landi hunsað kröfur um að beita sér í máli hennar. Bandarísk stjórnvöld hafa þagað þunnu hljóði yfir skelfilegri stöðu Ciham, jafnvel þó að þau hafi vald til að hafa áhrif á stjórnvöld í Erítreu.
Krefðu stjórnvöld í Bandaríkjunum um að tala máli Ciham.