Unglingsstúlka liðið hrylling

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu og átti sér stóra drauma. Hún var stað­ráðin í að verða fata­hönn­uður þegar hún yxi úr grasi. Draumar hennar urðu hins vegar að engu þegar hún var 15 ára gömul.

Hinn 8. desember 2012 var Ciham hand­tekin við landa­mæri Súdans þegar hún reyndi að flýja Erítreu. Faðir hennar, Ali Abdu, þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra undir stjórn Isaias Afwerki forseta landsins, gerðist land­flótta þegar her landsins gerði vald­aránstilraun gegn stjórn­völdum. Sá orðrómur var á kreiki að Ali Abdu hefði stutt vald­aránið og Ciham kynni að hafa verið hand­tekin sem hefnd­ar­ráð­stöfun.

Níu ár eru liðin frá því að Ciham sætti þvinguðu manns­hvarfi en enginn veit, ekki einu sinni fjöl­skylda hennar, hvar hún er í haldi. Hún hefur ekki verið ákærð eða komið fyrir rétt. Það er engu líkara en Ciham sé horfin spor­laust.

Erítrea er alræmd fyrir að halda fólki föngnu í gámum neðanjarðar þar sem það þarf að þola miklar öfgar í hita og kulda. Frásagnir herma að margir hafi látið lífið af völdum pynd­inga, hungurs, sýkinga eða í kjölfar annarrar hrotta­legrar meðferðar í þessum fang­elsum.

Á meðan önnur börn á aldur við Ciham stefna á fram­halds­skóla hefur Ciham liðið ómældan hrylling.

Enda þótt Ciham sé banda­rískur ríkis­borgari hafa stjórn­völd þar í landi hunsað kröfur um að beita sér í máli hennar. Banda­rísk stjórn­völd hafa þagað þunnu hljóði yfir skelfi­legri stöðu Ciham, jafnvel þó að þau hafi vald til að hafa áhrif á stjórn­völd í Erítreu.

Krefðu stjórn­völd í Banda­ríkj­unum um að tala máli Ciham.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Suður-Afríka

Réttlæti fyrir þriggja ára dreng sem lést á leikskóla

Unecebo Mboteni, þriggja ára drengur, féll ofan í kamar á leikskóla sínum þann 18. apríl 2024 í austurhluta Cape-héraðs. Degi síðar lét hann lífið. Ári síðar hefur fjölskylda hans ekki fengið svör við því hvers vegna þessi harmleikur átti sér stað. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Mjanmar

20 ára fangelsi fyrir fréttaöflun um fellibyl

Fjölmiðlun er hættuleg starfsgrein í Mjanmar. Í kjölfar þess að fellibylurinn Mocha reið yfir landið í maí 2023 ferðaðist blaðaljósmyndarinn Sai Zaw Thaike til Rakine-héraðs til að greina frá eftirköstum fellibylsins en var handtekinn. Sai Zaw var síðan dæmdur í 20 ára fangelsi af herrétti í september 2023. Hann hefur mátt þola einangrunarvist og barsmíðar af hálfu starfsfólks fangelsisins.

Kirgistan

Fjölmiðlakona í fangelsi fyrir að afhjúpa meinta spillingu

Makhabat Tazhibek kyzy stýrði rannsóknardeild á einum helsta rannsóknarfjölmiðli í Kirgistan sem afhjúpaði meinta spillingu í æðstu embættum landsins og fjallaði um samfélagsmein eins og ójafnrétti. Hún var ákærð fyrir að „hvetja til ofbeldis gegn borgurum“ og „hvetja til óhlýðni og óeirða“ en ákærurnar voru tilhæfulausar. Samt sem áður var Makhabat dæmd í sex ára fangelsi í október 2024.

Madagaskar

Neyddist til að flýja heimili sitt í kjölfar þurrka

Damisoa flúði ásamt fjölskyldu sinni hungursneyð í Androy-héraði í suðurhluta Madagaskar árið 2021 vegna þurrka á svæðinu. Í stað þess að eignast betra líf í Boeny í norðvesturhluta landsins eins og vonir stóðu til var þeim úthlutað bágbornum húsakosti á svæði sem stjórnvöld settu á laggirnar fyrir endurbúsetu fólks vegna þurrka. Þar er vatn af skornum skammti og hreinlætisaðstaða slæm.

Ekvador

Berjast gegn eyðileggingu af völdum gasbruna

Baráttustúlkur Amazon-skógarins berjast, ásamt samtökunum UDAPT og samvinnuhópi sem kallar sig Eliminen los Mecheros, Enciendan la Vida (Stöðvið gasbruna, tendrið líf), gegn eyðileggingu af völdum gasbruna. Þessi hópur ungra kvenna frá Ekvador sætir ofbeldisfullum hótunum vegna baráttu sinnar gegn loftslagsvánni. Árið 2021 úrskurðaði dómstóll í Ekvador að gasbruni bryti gegn mannréttindum og réttinum til heilnæms umhverfis og var stjórnvöldum fyrirskipað að stöðva notkun hans. Þrátt fyrir það logar hann víða enn.

Kambódía

Sakfelld fyrir umhverfisvernd

Baráttuhópurinn Móðir náttúra Kambódía (e. Mother Nature Cambodia) hefur barist ötullega fyrir umhverfisvernd frá árinu 2013. Allt frá árinu 2016 hafa yfirvöld ítrekað gert atlögu að hópnum með handtökum og saksóknum. Sex aðgerðasinnar hópsins voru dæmdir í sex til átta ára fangelsi í júní 2024. Einn þeirra flúði Kambódíu til að geta haldið starfi þeirra áfram en hinir fimm þurfa að þola erfiðar aðstæður í fangelsi.

Hondúras

Myrtur fyrir að vernda umhverfi sitt

Allt frá árinu 2015 lögðu Juan López og aðrir aðgerðasinnar frá Tocoa-héraði í norðurhluta Hondúras sig fram um að verja umhverfi sitt gegn námuvinnslu og orkuframleiðslu sem ógnuðu ám, skógum og þjóðgarði. Juan var skotinn til bana 14. september 2024 í bíl sínum á leið frá kirkju af grímuklæddum byssumanni. Meintur byssumaður og tveir grunaðir vitorðsmenn hafa verið ákærðir fyrir morð. Réttarhöldin hafa enn ekki farið fram.

Túnis

Í fangelsi fyrir gagnrýni

Sonia Dahmani er lögfræðingur sem hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir mannréttindum. Öryggissveitir í Túnis handtóku hana í maí 2024 fyrir að tjá sig um málefni á borð við kynþáttafordóma. Sonia var sakfelld og dæmd til fangavistar á grundvelli tilhæfulausrar ákæru um að „dreifa fölskum fréttum“. Hún á yfir höfði sér allt að 20 ára fangavist og henni er haldið fanginni við ómannúðlegar aðstæður.

Noregur

Samar berjast fyrir landi sínu og menningu

Ellinor Guttorm Utsi er samísk frumbyggjakona sem berst fyrir því að vernda ævaforna lífshætti samfélags hreindýrahirðingja í norðurhluta Noregs. Ráðgert er að reisa hundruð vindmylla á landsvæði Sama, sem ógnar beitilandi þeirra og menningu. Norsk stjórnvöld verða að virða rétt Sama til þátttöku í ákvarðanaferli sem hefur áhrif á landsvæði þeirra og lífsviðurværi.