Wendy Galarza hefur lagt sig alla fram í starfi sínu með börnum. Það er ástríða hennar að starfa með yngstu börnunum þar sem hún telur að grunnurinn að réttlátara samfélagi byggðu á samkennd byrji með stuðningi við þau.
Hún hefur unnið hörðum höndum að því að byggja upp réttlátara samfélag í Mexíkó en þar í landi sæta konur oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar fyrir það eitt að vera konur. Hún, sem femínisti og aðgerðasinni, þekkir það af eigin raun þar sem hún týndi næstum lífi við að fordæma slíkt ofbeldi.
Wendy tók hinn 9. nóvember 2020 þátt í kröfugöngu sem var skipulögð af hópi femínista í Cancún til að krefjast réttlætis fyrir konu sem var myrt og er þekkt sem Alexis.
Þegar hópur mótmælenda hóf að toga niður og brenna viðartálma skaut lögreglan skotum upp í loft, en að sögn sumra skaut hún í átt að mannfjöldanum. Wendy áttaði sig síðan á því að hún væri með skotsár á fótlegg sínum og sköpum.
Tveimur dögum seinna lagði hún fram formlega kvörtun gegn lögreglunni. Það tók marga mánuði fyrir ríkissaksóknara að samþykkja sönnunargögn frá henni, til að mynda klæðnað hennar frá þessum degi sem var með ummerki eftir skot. Mál hennar er enn í gangi. Þeir sem grunaðir eru um að hafa staðið að skotárásinni hafa ekki enn sætt ábyrgð.
Wendy hefur ekki látið þetta mál stöðva sig og hefur safnað saman hópi kvenna sem sættu árásum á mótmælunum.
„Ég er enn staðráðnari í að leyfa ekki 9. nóvember að falla í gleymsku. Þrátt fyrir undirliggjandi ótta minn að standa gegn ríkinu held ég áfram að brýna raust mína til að verja mannréttindi mín og annars baráttufólks.“
Krefstu réttlætis í máli Wendy.