Shahnewaz Chowdhury er mikill áhugamaður um krikket og hefur æft það frá unga aldri. Hann hefur einnig unun af skrifum og hefur notað hið ritaða mál til að tjá sig um þá baráttu sem íbúar heyja á svæðinu Banshkhali í Suðaustur-Bangladess en það liggur lágt yfir sjávarmáli sem gerir það viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Hann var aðeins sex ára þegar hann varð vitni að því þegar fjöldi fólks missti ástvini sína og heimili í fellibyl og flóðbylgju þann 29. apríl 1991. „Ég missti marga leikfélaga sem ég lék mér við daginn áður en fellibylurinn fór yfir. Ég verð ennþá lamaður af sorg þegar ég hugsa um þessa daga,“ segir Shahnewaz.
Nýtt kolaknúið orkuver í þorpi Shahnewaz átti að skapa þáttaskil í framþróun svæðisins. Shahnewaz hafði hins vegar áhyggjur af þeim skaðlegu umhverfisáhrifum sem orkuverið kynni að hafa.
Þann 26. maí 2021 geisaði stormur á svæðinu. Sterkir vindar og mikið vatnsveður buldi á þorpinu. Heimili eyðilögðust. Shahnewaz óttaðist þau eyðileggjandi umverfisáhrif sem orkuver af þessu tagi hefðu á umhverfið og taldi að þau ættu þátt í hækkun sjávarborðs. Hann ákvað að tjá áhyggjur sínar á Facebook.
Shahnewaz hvatti ungt fólk til að láta í sér heyra og skrifaði: „Ungt fólk í Banshkhali verður að berjast gegn óréttlæti og styðja framþróun með óttalausum skrifum.“
Næsta dag hóf fyrirtækið málsókn gegn Shahnewaz og sakaði hann um að birta falskar upplýsingar. Hann var handtekinn af lögreglu þann 28. maí 2021 á grundvelli harðneskjulegrar löggjafar í Bangladess um stafrænt öryggi fyrir umrædda facebook-færslu. Honum var haldið föngnum án réttarhalda við ómannúðlegar aðstæður í áttatíu daga. Shahnewaz var leystur úr varðhaldi gegn tryggingu þann 16. ágúst 2021 en verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér margra ára fangavist.
Krefstu þess að stjórnvöld í Bangladess felli niður ákærur.