Mótmælti á Facebook

Umhverfisverndarsinni á yfir höfði sér fangelsisdóm

Shahnewaz Chowd­hury er mikill áhuga­maður um krikket og hefur æft það frá unga aldri. Hann hefur einnig unun af skrifum og hefur notað hið ritaða mál til að tjá sig um þá baráttu sem íbúar heyja á svæðinu Bans­hk­hali í Suðaustur-Bangla­dess en það liggur lágt yfir sjáv­ar­máli sem gerir það viðkvæmt fyrir áhrifum lofts­lags­breyt­inga.

Hann var aðeins sex ára þegar hann varð vitni að því þegar fjöldi fólks missti ástvini sína og heimili í fellibyl og flóð­bylgju þann 29. apríl 1991. „Ég missti marga leik­fé­laga sem ég lék mér við daginn áður en felli­byl­urinn fór yfir. Ég verð ennþá lamaður af sorg þegar ég hugsa um þessa daga,“ segir Shahnewaz.

Nýtt kola­knúið orkuver í þorpi Shahnewaz átti að skapa þátta­skil í fram­þróun svæð­isins. Shahnewaz hafði hins vegar áhyggjur af þeim skað­legu umhverf­isáhrifum sem orku­verið kynni að hafa.

Þann 26. maí 2021 geisaði stormur á svæðinu. Sterkir vindar og mikið vatns­veður buldi á þorpinu. Heimili eyði­lögðust. Shahnewaz óttaðist þau eyði­leggj­andi umverf­isáhrif sem orkuver af þessu tagi hefðu á umhverfið og taldi að þau ættu þátt í hækkun sjáv­ar­borðs. Hann ákvað að tjá áhyggjur sínar á Face­book.

Shahnewaz hvatti ungt fólk til að láta í sér heyra og skrifaði: „Ungt fólk í Bans­hk­hali verður að berjast gegn órétt­læti og styðja fram­þróun með ótta­lausum skrifum.“

Næsta dag hóf fyrir­tækið málsókn gegn Shahnewaz og sakaði hann um að birta falskar upplýs­ingar. Hann var hand­tekinn af lögreglu þann 28. maí 2021 á grund­velli harð­neskju­legrar löggjafar í Bangla­dess um staf­rænt öryggi fyrir umrædda face­book-færslu. Honum var haldið föngnum án rétt­ar­halda við ómann­úð­legar aðstæður í áttatíu daga. Shahnewaz var leystur úr varð­haldi gegn trygg­ingu þann 16. ágúst 2021 en verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér margra ára fanga­vist.

Krefstu þess að stjórn­völd í Bangla­dess felli niður ákærur.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Suður-Afríka

Réttlæti fyrir þriggja ára dreng sem lést á leikskóla

Unecebo Mboteni, þriggja ára drengur, féll ofan í kamar á leikskóla sínum þann 18. apríl 2024 í austurhluta Cape-héraðs. Degi síðar lét hann lífið. Ári síðar hefur fjölskylda hans ekki fengið svör við því hvers vegna þessi harmleikur átti sér stað. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Mjanmar

20 ára fangelsi fyrir fréttaöflun um fellibyl

Fjölmiðlun er hættuleg starfsgrein í Mjanmar. Í kjölfar þess að fellibylurinn Mocha reið yfir landið í maí 2023 ferðaðist blaðaljósmyndarinn Sai Zaw Thaike til Rakine-héraðs til að greina frá eftirköstum fellibylsins en var handtekinn. Sai Zaw var síðan dæmdur í 20 ára fangelsi af herrétti í september 2023. Hann hefur mátt þola einangrunarvist og barsmíðar af hálfu starfsfólks fangelsisins.

Kirgistan

Fjölmiðlakona í fangelsi fyrir að afhjúpa meinta spillingu

Makhabat Tazhibek kyzy stýrði rannsóknardeild á einum helsta rannsóknarfjölmiðli í Kirgistan sem afhjúpaði meinta spillingu í æðstu embættum landsins og fjallaði um samfélagsmein eins og ójafnrétti. Hún var ákærð fyrir að „hvetja til ofbeldis gegn borgurum“ og „hvetja til óhlýðni og óeirða“ en ákærurnar voru tilhæfulausar. Samt sem áður var Makhabat dæmd í sex ára fangelsi í október 2024.

Madagaskar

Neyddist til að flýja heimili sitt í kjölfar þurrka

Damisoa flúði ásamt fjölskyldu sinni hungursneyð í Androy-héraði í suðurhluta Madagaskar árið 2021 vegna þurrka á svæðinu. Í stað þess að eignast betra líf í Boeny í norðvesturhluta landsins eins og vonir stóðu til var þeim úthlutað bágbornum húsakosti á svæði sem stjórnvöld settu á laggirnar fyrir endurbúsetu fólks vegna þurrka. Þar er vatn af skornum skammti og hreinlætisaðstaða slæm.

Ekvador

Berjast gegn eyðileggingu af völdum gasbruna

Baráttustúlkur Amazon-skógarins berjast, ásamt samtökunum UDAPT og samvinnuhópi sem kallar sig Eliminen los Mecheros, Enciendan la Vida (Stöðvið gasbruna, tendrið líf), gegn eyðileggingu af völdum gasbruna. Þessi hópur ungra kvenna frá Ekvador sætir ofbeldisfullum hótunum vegna baráttu sinnar gegn loftslagsvánni. Árið 2021 úrskurðaði dómstóll í Ekvador að gasbruni bryti gegn mannréttindum og réttinum til heilnæms umhverfis og var stjórnvöldum fyrirskipað að stöðva notkun hans. Þrátt fyrir það logar hann víða enn.

Kambódía

Sakfelld fyrir umhverfisvernd

Baráttuhópurinn Móðir náttúra Kambódía (e. Mother Nature Cambodia) hefur barist ötullega fyrir umhverfisvernd frá árinu 2013. Allt frá árinu 2016 hafa yfirvöld ítrekað gert atlögu að hópnum með handtökum og saksóknum. Sex aðgerðasinnar hópsins voru dæmdir í sex til átta ára fangelsi í júní 2024. Einn þeirra flúði Kambódíu til að geta haldið starfi þeirra áfram en hinir fimm þurfa að þola erfiðar aðstæður í fangelsi.

Hondúras

Myrtur fyrir að vernda umhverfi sitt

Allt frá árinu 2015 lögðu Juan López og aðrir aðgerðasinnar frá Tocoa-héraði í norðurhluta Hondúras sig fram um að verja umhverfi sitt gegn námuvinnslu og orkuframleiðslu sem ógnuðu ám, skógum og þjóðgarði. Juan var skotinn til bana 14. september 2024 í bíl sínum á leið frá kirkju af grímuklæddum byssumanni. Meintur byssumaður og tveir grunaðir vitorðsmenn hafa verið ákærðir fyrir morð. Réttarhöldin hafa enn ekki farið fram.

Túnis

Í fangelsi fyrir gagnrýni

Sonia Dahmani er lögfræðingur sem hefur helgað líf sitt baráttunni fyrir mannréttindum. Öryggissveitir í Túnis handtóku hana í maí 2024 fyrir að tjá sig um málefni á borð við kynþáttafordóma. Sonia var sakfelld og dæmd til fangavistar á grundvelli tilhæfulausrar ákæru um að „dreifa fölskum fréttum“. Hún á yfir höfði sér allt að 20 ára fangavist og henni er haldið fanginni við ómannúðlegar aðstæður.

Noregur

Samar berjast fyrir landi sínu og menningu

Ellinor Guttorm Utsi er samísk frumbyggjakona sem berst fyrir því að vernda ævaforna lífshætti samfélags hreindýrahirðingja í norðurhluta Noregs. Ráðgert er að reisa hundruð vindmylla á landsvæði Sama, sem ógnar beitilandi þeirra og menningu. Norsk stjórnvöld verða að virða rétt Sama til þátttöku í ákvarðanaferli sem hefur áhrif á landsvæði þeirra og lífsviðurværi.