Allt þar til nýverið var Mikita Zalatarou eins og hver annar dæmigerður unglingur fyrir utan að þjást af flogaveiki. Hann naut þess að spila tölvuleikinn Minecraft og hlusta á tónlist. Í dag er líf þessa 17 ára pilts hins vegar orðið að hreinni martröð.
Þetta hófst allt hinn 10. ágúst 2020 þegar Mikita var að bíða eftir vini sínum á aðaltorginu í borginni Homel, í suðausturhluta Hvíta-Rússlands. Þar nærri hafði fólk safnast saman til að mótmæla, að mestu friðsamlega, niðurstöðum forsetakosninganna þegar lögreglan réðst til atlögu. Samkvæmt frásögn föður Mikita tóku mótmælendur á rás og einhver úr þeirra hópi hvatti Mikita til að gera slíkt hið sama, sem hann gerði.
Næsta dag birtust lögreglumenn í dyragættinni heima hjá Mikita. Þeir handtóku hann og börðu og ásökuðu hann um að hafa kastað bensínsprengju í áttina að tveimur lögreglumönnum kvöldið áður. Á meðan hann var í gæsluvarðhaldi héldu lögreglumenn honum niðri og börðu með rafkylfu. Mikita var yfirheyrður án þess að lögmaður væri viðstaddur eða annar fullorðinn einstaklingur og sat á bak við lás og slá í sex mánuði áður en hann kom fyrir rétt.
Mikita var sakfellur fyrir óspektir á almannafæri og notkun á ólöglegum sprengiefnum, þrátt fyrir að sönnunargögn á myndbandi sýndu að hann hefði ekki tekið þátt í ofbeldi. Fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin skýrði heldur ekki frá borgararóstum. Engu að síður var Mikita dæmdur til fimm ára refsivistar á fanganýlendu fyrir börn.
Krefðu stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um að leysa Mikita úr haldi og veita honum sanngjörn réttarhöld.