Málefni hinsegin fólks

Um heim allan verður fólk fyrir mismunun og árásum sökum þess hvern það elskar, hvernig það kýs að tjá kyn sitt eða upplifir það, og í raun fyrir að vera það sjálft!

Sú ójafna meðferð sem hinsegin fólk sætir er oft marg­þætt, víðtæk og skaðleg en hún getur verið allt frá uppnefn­ingum og einelti yfir í synjun á starfi og/eða viðeig­andi heil­brigð­is­þjón­ustu. Stundum getur mismunun ógnað lífi hinsegin fólks.

 

 • Í 64 löndum
  er samkynhneigð bönnuð (í byrjun árs 2024).

 • Í 10 löndum í Evrópu
  er þess krafist að trans fólk gangist undir ófrjósemisaðgerð.

 • 31 land
  leyfðu hjónabönd samkynhneigðra í lok árs 2021.

 • 321 kynsegin og trans
  einstaklingur var myrtur frá 1. október 2022 til 30. september 2023.

Kjarni vandans

Árásir og morð á hinsegin fólki

Í fjöl­mörgum löndum búa lesbíur, hommar, tvíkyn­hneigðir, trans- og intersex fólk við daglega mismunun. Umrædd mismunun kann að byggja á kynhneigð fólks þ.e. hverjum þú laðast að, kynvitund þ.e. hvernig þú skil­greinir sjálfa/n þig óháð líffræði­legu kyni, kyntján­ingu þ.e. hvernig þú tjáir kyn þitt með klæða­burði, förðun eða hárgreiðslu eða ódæmi­gerðum líffræði­legum kynein­kennum t.d. horm­ón­a­starfs­semi, kynkirtlar, kynlitn­ingar, kyn- og æxlun­ar­færi eða kynþroska sem er með einhverju móti öðru­vísi en hjá flestum.

Í fjöl­mörgum tilfellum verður hinsegin fólk fyrir áreitni á götum úti, sætir barsmíðum og er stundum myrt, einungis fyrir að vera það sjálft. Þá neyðist margt intersex fólk til að gangast undir hættu­legar, inngrips­miklar og ónauð­syn­legar aðgerðir sem geta haft alvarleg líkamleg og sálræn áhrif til lang­frama.

 

Ofbeldi ríkis­valdsins gegn hinsegin fólki

Stundum kyndir ríkis­valdið undir fjand­skap í garð hinsegin fólks í stað þess að sinna skyldu sinni og vernda það. Stjórn­völd í Tsjet­sjeníu ráku til að mynda herferð gegn samkyn­hneigðum mönnum í landinu en mörgum var rænt, þeir pynd­aðir og jafnvel drepnir.

Í Bangla­dess hafa hinsegin aðgerða­sinnar verið höggnir til bana með sveðjum af vopn­uðum hópum en hvorki lögregla né ríks­stjórn landsins gera nokkuð til að ná fram rétt­læti til handa fjöl­skyldum fórn­ar­lambanna. Á fjöl­mörgum svæðum í Afríku sunnan Sahara býr hinsegin fólk við stöð­ugan ótta um að vera uppgötvað, sæta árásum eða jafnvel týna lífi sínu.

Í Kenía, Mjanmar, Malasíu, Bangla­dess og í 23 öðrum löndum getur allt frá 10 ára fang­elsi, yfir í lífs­tíð­ardóm legið við samkyn­hneigð. Þá liggur dauðarefs­ingin við kynferð­is­legu samneyti fólks af sama kyni í sex löndum þeirra á meðal, Íran, Sádí-Arabíu, Jemen og Súdan. Jafnvel þar sem aftur­halds­samri löggjöf af þessu tagi er ekki beitt í reynd, þá ýtir tilvist slíkra laga undir fordóma gagn­vart hinsegin fólki, vanmátt þeirra og tilfinn­ingu fyrir því að njóta engrar verndar gegn áreitni, kúgun og ofbeldi.

Hvernig tekst fólk á við þessa mismunun?

Baráttu­fólk fyrir rétt­indum hinsegin fólks hefur tekist á við gífur­legar áskor­anir og jafnvel hætt eigin öryggi til að benda á mann­rétt­inda­brot gegn hinsegin fólki og þrýsta á um breyt­ingar á lögum sem mismuna því. Með tilkomu hugmynda­fræð­innar að baki gleði­göngu og alþjóð­legs baráttu­dags gegn hómó­fóbíu, trans­fóbíu og tvíkyn­hneigð­ar­fóbíu, hefur hinsegin fólk myndað bandalög víðs vegar um heiminn og eflt virð­ingu fyrir því hver þau eru.

Sameig­in­legt erfiði og þraut­seigja aðgerða­sinna og frjálsra félaga­sam­taka um heim allan hefur skilað raun­veru­legum árangri. Í desember 2020 viður­kenndu 45 ríki hómó­fób­íska glæpi sem tegund af haturs­glæp. Í lok árs 2021 viður­kenndi 31 land hjóna­band samkyn­hneigðra, þar meðtalið Taívan.

 

Hvað er Amnesty International að gera?

Amnesty ábyrgist að berjast gegn allri þeirri mismunun sem hinsegin fólk kann að verða fyrir, hvar sem er í heim­inum.

Amnesty vinnur að rann­sóknum í þeim löndum og land­svæðum þar sem brotið er á rétt­indum hinsegin fólks og gefur út skýrslur sem m.a. fela í sér tilmæli til viðkom­andi stjórn­valda um hvernig megi gera úrbætur.

Amnesty þrýstir á stjórn­völd og ráðleggur þeim hvernig eigi að bæta löggjöf og vernda rétt­indi fólks óháð kynhneigð eða kynvitund þess.

Í kjölfar herferðar á vegum Amnesty Internati­onal árið 2017 úrskurðaði hæstiréttur Taívan að bann við hjóna­bandi samkyn­hneigðra samræmdist ekki stjórn­skip­un­ar­lögum landsins og árið 2019 gekk Taívan skrefinu lengra og varð fyrsta landið í Asíu til að lögleiða hjóna­bönd samkyn­hneigðra.

Þá hefur barátta samtak­anna haft mikil áhrif á gerð nýrra laga í Grikklandi, Danmörku og Noregi sem gerir fólki kleift að fá laga­lega viður­kenn­ingu á kyni sínu.

Þrátt fyrir að enginn vafi leikur á því að margt hefur áunnist í baráttu hinsegin fólks er enn langt í land og mikil vinna fyrir höndum. Amnesty Internati­onal vinnur ötul­lega með aðgerða­sinnum um allan heim, m.a. á Íslandi, að hinum ýmsu baráttu­málum hinsegin fólks með því að þrýsta á stjórn­völd sem brjóta á mann­rétt­indum þessa hóps, með söfnun undir­skrifta á ýmis áköll til yfir­valda, mótmæla­fundum, rann­sóknum, þátt­töku í gleði­göngum og fræðslu­starfi svo fátt eitt sé nefnt.

+ Lesa meira

Tengt efni