Kyn- og frjósemisréttindi

Hugtakið kyn- og frjó­sem­is­rétt­indi vísar til margskonar mann­rétt­inda sem skipta máli í öllu sem viðkemur kynhneigð, kynferði og frjó­semi. Rétt­indin tengjast fyrst og síðast sjálfs­for­ræði í ákvarð­ana­töku um eigin líkama og eigið líf, frelsi undan mismunun, þvingun og vald­beit­ingu, og rétt­inum til að njóta bestu fáan­legu kyn- og frjó­sem­is­heilsu.

 

+ Lesa meira

Kjarni vandans

Kyn-og frjósemisréttindi víða brotin

Öll eigum við rétt á að taka ákvarð­anir er lúta að líkama okkar og heilsu, kynferði og frjó­semi, án ótta, mismun­unar eða þving­unar. En um heim allan er fólki refsað – af ríkis­valdinu, heil­brigð­is­starfs­fólki og/eða eigin fjöl­skyldu – fyrir að taka slíkar ákvarð­anir eða því er varnað þess að taka þær yfir­höfuð.

Auk þess skortir margt ungt fólk aðgengi að upplýs­ingum, kynfræðslu og heil­brigð­is­þjón­ustu er varðar kyn- og frjó­sem­is­rétt­indi til að það geti notið öryggis og heil­brigðis. Hægt er að lesa nánar um kjarna vandans er lýtur að aðgengi að upplýs­ingum og heil­brigð­is­þjón­ustu, kynferð­isof­beldi, málefnum hinsegin fólks, meðgöngurofi og vændi hér að ofan.

Þú hefur rétt til að

  • Taka ákvarð­anir er varða heilsu þína og sjálfs­mynd, líkama þinn og kynlíf
  • Biðja um og fá upplýs­ingar um heil­brigð­is­þjón­ustu
  • Ákveða hvort eða hvenær þú eignast börn
  • Ákveða hvort eða hvenær þú gengur í hjóna­band
  • Njóta aðgengis að getn­að­ar­vörnum; löglegu meðgöngurofi ef um er að ræða nauðgun, sifja­spell eða ógn við líf eða heilsu; mæðra­vernd og annarri heil­brigð­is­þjón­ustu
  • Lifa án ótta við nauðgun og annað ofbeldi

Hvað er Amnesty International að gera?

Amnesty Internati­onal sinnir rann­sóknum á mann­rétt­inda­brotum, býður upp á fræðslu og þjálfun ásamt því að berjast fyrir umbótum sem stuðla að jafn­rétti og öryggi. Samtökin hafa lengi barist fyrir bættri löggjöf er snýr að kyn- og frjó­sem­is­rétt­indum og að ríki afnemi löggjöf er brýtur á rétt­indum fólks, eins og t.d. afglæpa­væð­ingu meðgöngurofs og samkyn­hneigðar.

 

Íslands­deild Amnesty Internati­onal á í samstarfi við Samtökin ’78, Intersex Ísland og Trans Ísland í barátt­unni fyrir bættri rétt­ar­stöðu trans og intersex einstak­linga á Íslandi og vinnur til tveggja ára að verk­efni sem hefur það að mark­miði að tryggja rétt einstak­linga til að skil­greina kyn sitt sjálfir og fá laga­lega viður­kenn­ingu á kyni sínu með einföldum og áreynslu­lausum hætti.

Að auki miðar verk­efnið að því að tryggja rétt­indi intersex fólks er lúta að líkam­legri frið­helgi, sjálfs­ákvörð­un­ar­rétti, bestu fáan­legu heil­brigð­is­þjón­ustu og frið­helgi einka­lífs. Amnesty Internati­onal leggur jafn­framt áherslu á að ríki tryggi jafn­rétti fyrir lögum óháð kynein­kennum, kynhneigð, kyntján­ingu og kynvitund.

Tengt efni