Maria Ponomarenko er aðgerðasinni, fjölmiðlakona og bloggari frá Barnaul, Altai Krai í Rússlandi, sem starfaði á netfréttamiðlinum RusNews. Hún deildi skilaboðum á samskiptamiðlinum Telegram um sprengjuárás rússneskra hersveita á leikhús í Mariupol í mars 2022. Fyrir það var hún handtekin þann 23. apríl 2022 og sett í varðhald lögreglu í Sankti Pétursborg á grundvelli ritskoðunarlaga um hernað (e. War censorship law) sem sett voru á stuttu eftir innrásina í Úkraínu, í byrjun mars 2022. Hún var ákærð á grundvelli ákvæðis 207.3 fyrir „að dreifa vísvitandi falsfréttum á opinberum vettvangi um rússneska herinn byggt á hatri“.
Í júlí 2022 var Maria flutt á geðsjúkrahús sem að sögn yfirvalda var hluti af rannsókn þeirra á hendur henni. Maria segist hafa verið sprautuð með óþekktum lyfjum á meðan hún var þar.
Maria var dæmd í sex ára fangelsi þann 15. febrúar 2023. Hún var flutt á fanganýlenduna IK-22 í Krasnoyarsk í október 2023, rúmlega 900 km frá Barnaul, sem gerir henni mjög erfitt um vik að hitta tvær ólögráða dætur sínar.
Maria hefur sætt illri meðferð í fangelsinu og henni hefur ítrekað verið refsað fyrir engar sakir, meðal annars með 15 daga einangrunarvist vegna þess að hún féll í yfirlið. Það er bannað í rússneskum fanganýlendum að leggjast fyrir eða að setjast á rúmbrík að degi til. Þá sætti Maria aftur refsingu með vistun í einangrun fyrir að fara ekki að fyrirmælum fangavarðar um að rísa úr rúmi sínu sem hún gat ekki vegna bakverkjar.
Talið er að Mariu hafi verið refsað með þessum hætti fyrir að kvarta yfir aðstæðum í fangelsinu. Hún fór í hungurverkfall í október 2023 til að mótmæla illri meðferð. Mariu er neitað um læknismeðferð og geðheilsu hennar hrakar stöðugt. Í nóvember 2023 hófst ný málsókn gegn Mariu á grundvelli ákvæðis 321 (2) hegningarlaga.
Rússnesk yfirvöld ásökuðu hana um að beita tvo fangaverði „ofbeldi” þegar þeir fylgdu henni í fyrirtöku í dómsmáli hennar vegna rannsóknar á agabroti. Maria hefur neitað sök en hún var formlega ákærð fyrir þær sakir í desember 2023 og á yfir höfði sér fimm ára fangelsi til viðbótar við þau sex sem hún afplánar nú þegar verði hún fundin sek.
Skrifaðu undir og kallaðu eftir því að rússnesk stjórnvöld leysi Mariu Ponomarenko skilyrðislaust úr haldi án tafar.
Auk þess er krafist að Rússland afnemi ritskoðunarlögin og leysi öll þau úr haldi sem hafa einungis tjáð andóf sitt á stríðinu í Úkraínu.