Áður en þeir urðu þekktir sem El Hiblu 3 voru þeir þrír venjulegir unglingar í Gíneu og á Fílabeinsströndinni með ástríðu fyrir fótbolta og körfubolta. Þegar þeir voru á aldrinum 15, 16 og 19 ára var þá hins vegar farið að dreyma um öruggara og betra líf en það sem þeim bauðst á heimaslóðum.
Þessi sameiginlega þrá drengjanna leiddi til þess að þeir flúðu til Líbíu en þar tók við ofbeldi og pyndingar í fangelsum sem ætluð eru flótta- og farandfólki sem leitar skjóls í landinu. Þann 25. mars tókst drengjunum að flýja og komast um borð í gúmmíbát ásamt 111 öðrum, þeirra á meðal 15 börnum, en bátnum var ætlað að sigla til Evrópu. Gúmmíbáturinn komst fljótt í hann krappan en áhöfninni var bjargað af olíuflutningaskipinu El Hiblu. Áhöfn El Hiblu reyndi síðan að snúa flóttafólkinu aftur til Líbíu þrátt fyrir að hafa gefið loforð um að gera það ekki og að ólöglegt sé að senda það til baka. Mótmæli brutust út í olíuflutningaskipinu og voru drengirnir þrír beðnir að hjálpa til við að koma á ró um borð. Þeir tóku að sér að túlka og vörðu þannig rétt skipbrotsfólksins til að þurfa ekki aftur að sæta pyndingum í Líbíu. Áhöfn olíuflutningaskipsins ákvað að snúa skipinu við og halda til Evrópu. Þegar skipið var komið inn í landhelgi Möltu réðust yfirvöld um borð í það og héldu því fram að drengirnir þrír hefðu tekið áhöfn skipsins í gíslingu. Þeir sæta nú tilhæfulausum ákærum um hryðjuverk og gætu átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Drengirnir höfðu aðeins reynt að standa vörð um öryggi sitt og hinna sem bjargast höfðu um borð í skipið með þeim.
Krefstu réttlætis fyrir El Hiblu 3.