Þrír drengir börðust fyrir betra lífi

Eiga lífstíðardóm yfir höfði sér fyrir að bjarga mannslífum

Áður en þeir urðu þekktir sem El Hiblu 3 voru þeir þrír venju­legir unglingar í Gíneu og á Fíla­beins­strönd­inni með ástríðu fyrir fótbolta og körfu­bolta. Þegar þeir voru á aldr­inum 15, 16 og 19 ára var þá hins vegar farið að dreyma um öruggara og betra líf en það sem þeim bauðst á heima­slóðum.

Þessi sameig­in­lega þrá drengj­anna leiddi til þess að þeir flúðu til Líbíu en þar tók við ofbeldi og pynd­ingar í fang­elsum sem ætluð eru flótta- og farand­fólki sem leitar skjóls í landinu. Þann 25. mars tókst drengj­unum að flýja og komast um borð í gúmmíbát ásamt 111 öðrum, þeirra á meðal 15 börnum, en bátnum var ætlað að sigla til Evrópu. Gúmmíbát­urinn komst fljótt í hann krappan en áhöfn­inni var bjargað af olíu­flutn­inga­skipinu El Hiblu. Áhöfn El Hiblu reyndi síðan að snúa flótta­fólkinu aftur til Líbíu þrátt fyrir að hafa gefið loforð um að gera það ekki og að ólög­legt sé að senda það til baka. Mótmæli brutust út í olíu­flutn­inga­skipinu og voru dreng­irnir þrír beðnir að hjálpa til við að koma á ró um borð. Þeir tóku að sér að túlka og vörðu þannig rétt skip­brots­fólksins til að þurfa ekki aftur að sæta pynd­ingum í Líbíu. Áhöfn olíu­flutn­inga­skipsins ákvað að snúa skipinu við og halda til Evrópu. Þegar skipið var komið inn í land­helgi Möltu réðust yfir­völd um borð í það og héldu því fram að dreng­irnir þrír hefðu tekið áhöfn skipsins í gísl­ingu. Þeir sæta nú tilhæfu­lausum ákærum um hryðju­verk og gætu átt yfir höfði sér lífs­tíð­ar­fang­elsi.

Dreng­irnir höfðu aðeins reynt að standa vörð um öryggi sitt og hinna sem bjargast höfðu um borð í skipið með þeim.

Krefstu rétt­lætis fyrir El Hiblu 3.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Tyrkland

Ákærð fyrir að fagna réttindum hinsegin fólks

Melike Balkan og Özgür Gür hafa helgað sig baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Réttað er yfir þeim ásamt öðrum fyrir að mótmæla banni við gleðigöngu á háskólalóð þeirra.

Mjanmar

Læstur inni fyrir ljóðaslamm

Paing Phyo Min er meðlimur í Peacock Generation-leikhópnum. Leikhópurinn gerði grín að hernum og voru meðlimir hans handteknir í maí 2019. Paing Phyo Min var dæmdur í sex ára fangelsi.

Búrúndí

Fangelsi í 32 ár fyrir mannréttindabaráttu

Germain Rukuku er mannréttindafrömuður og faðir þriggja drengja. Hann var dæmdur til að dúsa í fangelsi í 32 ár vegna upploginna sakargifta og meingallaðra réttarhalda.

Sádi-Arabía

Fangelsuð fyrir kvenréttindabaráttu

Nassima var handtekin í júlí 2018. Hún barðist fyrir frelsi kvenna í Sádi-Arabíu. Baráttan leiddi til þess að hún var sjálf svipt frelsi og sætti illri meðferð í varðhaldi.

Kólumbía

Hótað lífláti fyrir að vernda Amazonsvæðið

Jani Silva fæddist í hjarta Amazonsvæðisins í Kólumbíu og hefur helgað líf sitt verndun skóga og sjálfbærri þróun. Fyrir vikið hefur henni verið veitt eftirför, ógnað af óþekktum árásarmönnum og hótað lífláti.

Pakistan

Numinn á brott fyrir að fletta ofan af mannshvörfum

Idris Khattak er sérfræðingur um þvinguð mannshvörf í Pakistan. Í nóvember 2019 hvarf Idris sjálfur. Yfirvöld viðurkenndu að lokum að Idris væri í haldi þeirra og að hann yrði ákærður.

Suður-Afríka

Sækja verður morðingjana til saka

Popi Qwabe og Bongeka Phungula voru skotnar til bana. Fjölskyldur þeirra leita svara en hafa orðið fyrir vonbrigðum með rannsókn lögreglunnar sem hefur ekkert miðað áfram á síðustu þremur árum.

Alsír

Tveggja ára fangelsisdómur fyrir fréttamennsku

Khaled Drareni er blaðamaður í Alsír. Hann fjallaði um Hirak-mótmælahreyfinguna og komst í ónáð hjá yfirvöldum. Khaled átti yfir höfði sér 10 ára fangelsisdóm en í september 2020 var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi.