Síðustu ár hafa yfirvöld í Sádi-Arabíu haldið því fram að þau séu að vinna að umbótum á réttindum kvenna í konungsríkinu. Hin þrítuga Manahel al-Otaibi trúði því og hélt að hún gæti tjáð skoðanir sínar frjálslega og klætt sig að vild. Nú sér hún fram á að sitja áratug í fangelsi og að loforð stjórnvalda eru ekkert nema orðin tóm.
Áður en hún var handtekin var Manahel líkamsræktarkennari og hugrökk talskona fyrir réttindum kvenna. Hún notaði samfélagsmiðla til að kalla eftir auknu frelsi kvenna í landi sínu. Manahel var handtekin 16. nóvember 2022 og ákærð fyrir að brjóta netöryggislög þar sem hún studdi réttindi kvenna á Twitter (nú X) og fyrir að setja á Snapchat mynd af sér í verslunarmiðstöð án þess að klæðast abaya, hefðbundnum kufli sem nær frá toppi til táar.
Máli hennar var vísað til dómstóls sem sérhæfir sig í málum gegn hryðjuverkum, svokallaðs sérstaks sakamáladómstóls sem er alræmdur fyrir ósanngjörn réttarhöld og harða dóma. Manahel var hinn 9. janúar 2024 dæmd í 11 ára fangelsi fyrir „hryðjuverkabrot“ vegna tjáningar hennar á samfélagsmiðlum. Dómur var kveðinn upp í leyni og ekki opinberaður fyrr en nokkrum vikum síðar.
Manahel tjáði fjölskyldu sinni að hún hefði verið barin af samfanga sínum í nóvember 2023. Í kjölfarið voru henni meinuð samskipti við umheiminn og gat því ekki átt í samskiptum við neinn. Í apríl 2024 gat Manahel loks hringt í fjölskyldu sína og virtist hún í uppnámi. Hún sagði að sér hefði verið haldið í einangrun og hún hefði aftur mátt þola grófar barsmíðar, sem leiddi til fótbrots sem var ekki meðhöndlað.
Krefstu þess að stjórnvöld í Sádi-Arabíu leysi Manahel al-Otaibi úr haldi.