Dmitry Skurikhin er verslunareigandi og aðgerðarsinni frá Leningradskaya í norðvesturhluta Rússlands. Hann hefur opinberlega tjáð andúð sína á stríðinu í Úkraínu allt frá því að Rússlands réðst fyrst inn í landið árið 2014. Hann afplánar 18 mánaða dóm á fanganýlendu í Rússlandi fyrir brot á ritskoðunarlögum um hernað sem sett voru á stuttu eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Eitt af ákvæðum laganna gerir það refsivert „að koma óorði á herafla Rússlands“.
Hann var fyrst sektaður í maí árið 2022 um rúmlega 66 þúsund íslenskar krónur fyrir „að koma óorði á herafla Rússlands“ eftir að hann birti myndband þar sem hann mótmælti stríðinu á samskiptamiðilinum Telegram. Hann lét það ekki stöðva sig og í ágúst árið 2022 útbjó Dmitry skilti með áletruninni: „Rússland, vaknið! Stöðvið þessa vitfirrtu, fölsku, fyrirlitlegu, skammarlegu hernaðaraðgerð!“ og hengdi upp fyrir framan verslun sína. Síðar birti hann mynd af skiltinu á Telegram en hátt í 200 einstaklingar sáu skilaboð hans gegn stríðinu í Úkraínu sem fjölmiðillinn Server.Realii deildi einnig á sinni rás á Telegram.
Í kjölfarið hófst fyrsta sakamálið á hendur Dmitry, í september 2022, fyrir „að koma síendurtekið óorði á rússneska herinn“. Lögregla gerði húsleit á heimili hans í 11 klukkustundir auk þess sem unnin voru skemmdarverk á verslun hans.
Annað sakamál á hendur honum hófst vegna ljósmyndar sem sýndi Dmitry á hjánum, haldandi á veggspjaldi með áletruninni: „Fyrirgefið Úkraína“, sem dóttir hans Ulyana tók og sendi á fjölmiðla í tilefni þess að ár var liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar 2023. Í réttarhöldunum kvaðst Dmitry einungis hafa nýtt sér rétt sinn til tjáningar sem er verndaður í 29. grein stjórnarskrár Rússlands.
Í ágúst 2023 hlaut hann 18 mánaða dóm á rússneskri fanganýlendu. Í nóvember sama ár áfrýjaði hann dómnum en hafði ekki erindi sem erfiði.
Skrifaðu undir og kallaðu eftir því að rússnesk stjórnvöld leysi Dmitry Skurikhin skilyrðislaust úr haldi án tafar.
Auk þess er krafist að Rússland afnemi ritskoðunarlögin og leysi öll þau úr haldi sem hafa einungis tjáð andóf sitt á stríðinu í Úkraínu.
Frétt um ritskoðunarlögin í Rússlandi