Madagaskar

Krefjumst þess að mannréttinda sé gætt í baráttunni við loftslagsvána í Madagaskar

Madagaskar er á meðal þeirra landa sem eru hvað allra viðkvæmust fyrir loftslagsvánni. Nú vara verstu þurrkar í mannaminnum á suðurhluta eyjunnar. Hungur og vannæring eykst og fleiri en 1 milljón einstaklinga eru nú á barmi hungursneyðar þar í landi. Einnig hefur aðgangur að hreinu vatni og hreinlæti minnkað. Krefjumst þess að leiðtogar heims, sérstaklega þeirra ríkja sem bera mesta ábyrgð á loftslagsbreytingum og stjórnvöld í Madagaskar grípi til aðgerða og verndi réttindi einstaklinga í Madagaskar.

Bandaríkin

Baráttumaður fyrir réttindum amerískra frumbyggja í fangelsi í rúm 44 ár

Leonard Peltier er 77 ára gamall baráttumaður fyrir réttindum amerískra frumbyggja sem hefur setið í fangelsi í Bandaríkjunum í rúm 44 ár. Í ljósi vafasamrar málsmeðferðar, langs afplánunartíma og þverrandi heilsu Leonards kallar Amnesty International á núverandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, að Leonard Peltier verði náðaður.

Ísland

Bregðist við stigvaxandi mannréttindakrísu í Afganistan og standið við gefin loforð

Frá yfirtöku í Afganistan þann 15. ágúst hafa talibanar lofað umbótum frá fyrri stjórnartíð sinni og sagst ætla að vernda kvenréttindi og tjáningarfrelsið. Annað hefur hins vegar bersýnilega komið í ljós og eru loforðin því innantóm. Íslandsdeild Amnesty International kallar eftir að íslensk stjórnvöld veki athygli á ástandinu í Afganistan hvar sem tækifæri gefst, ýti undir að komið verði á fót sjálfstæðri rannsóknarsendinefnd (e. Fact Finding Mission) og standi við gefin loforð um móttöku afgansks flóttafólks á Íslandi.

Alþjóðlegt

Berjumst gegn ójöfnuði við skömmtun bóluefna

Milljarðir íbúa lág- og lægri-meðaltekjulanda fá ekki aðgang að covid-19 bóluefnum með lífshættulegum afleiðingum. Skrifið undir tölvupóst sem berst beint til BioNTech, Johnson & Johnson, Moderna og Pfizer og krefjumst þess að þau geri allt í sínu valdi til að úthluta tveimur milljörðum bóluefnaskammta til lág- og lægri-meðaltekjulanda án tafar og að efnaðri ríki dreifi jafnt þeim hundruðum milljóna umframbirgða af bóluefnaskömmtum sem þau hafa sankað að sér.

Alþjóðlegt

Stöðvið misbeitingu kylfa

Um heim allan þagga stjórnvöld niður í mótmælendum með lögreglukylfum. Kylfurnar eru notaðar sem þöggunartól. Rannsóknir Amnesty sýna að kylfur eru notaðar í refsingarskyni. Þær eru notaðar til að berja fólk sem haldið er niðri. Þær eru notaðar til að berja háls og höfuð. Þær eru notaðar til að beita kynferðislegt ofbeldi og pyndingum. Þetta verður að stöðva. Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld styðji gerð alþjóðlegs og skuldbindandi samnings um viðskipti með lögregluvopn og búnað sem eru notuð til að beita pyndingum.

Bandaríkin

Vernda þarf mannréttindi í Afganistan

Aðgerðir stjórnar Bidens til að vernda mannréttindi í Afganistan í kjölfar yfirtöku Talíbana í Kabúl eru ófullnægjandi. Hvíta húsið verður að gera meira til að tryggja flutning baráttufólks fyrir mannréttindum, aðgerðasinna sem berjast fyrir kvenréttindum og fjölmiðlafólks úr landi. Aðgerðaleysi kostar mannslíf!

Kúba

Leysið friðsama mótmælendur úr haldi

Þúsundir komu saman þann 11. júlí á Kúbu til að mótmæla ríkisstjórninni vegna efnahagsástandsins, skorts á lyfjum, og almennra takmarkana á tjáningarfrelsinu. Mögulega eru hundruð mótmælenda í fangelsi og ríkið þaggar niður í gagnrýnisröddum með fjölda ákæra. Krefjumst þess að friðsamir mótmælendur verði leystir umsvifalaust úr haldi án skilyrða.

Nígería

Fellið úr gildi Twitter-bann

Stjórnvöld í Nígeríu bönnuðu Twitter þann 4. júní í landinu og skipuðu netþjónustufyrirtækjum að loka fyrir Twitter. Fjölmiðlar þurftu einnig að loka Twitter-reikningum sínum. Þessar aðgerðir brjóta á tjáningarfrelsinu, fjölmiðlafrelsi og skerða aðgengi að upplýsingum. Friðsamir mótmælendur hafa mætt ofbeldisfullum aðgerðum af hálfu nígerískra yfirvalda og nú á einnig að þagga niður í röddum þeirra á netinu.

Kólumbía

HERVALDI BEITT GEGN MÓTMÆL­ENDUM

Síðan 28. apríl hafa þúsundir tekið þátt í mótmælum víðsvegar um Kólumbíu. Mótmælin byrjuðu vegna fyrirhugaðra skattalagabreytinga en hafa þróast í mótmæli vegna viðbragða stjórnvalda við efnahags- og félagslegum vandamálum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Stjórnvöld hafa brugðist við með að beita hervaldi í nokkrum borgum þar sem mótmælendur eru beittir óhóflegu valdi með vopnum sem hefur leitt tugi einstaklinga til dauða og enn fleiri særða. 

Hong Kong

64 einstaklingar ákærðir á grundvelli óljósra þjóðaröryggislaga

Þjóðaröryggislög tóku gildi þann 30. júní 2020 í Hong Kong. Skilgreiningin á „þjóðaröryggi“ er óljós í lögunum og þeim hefur verið beitt að geðþótta til að skerða tjáningar-og fundafrelsið og bæla niður alla stjórnarandstöðu. Nú þegar hafa 118 einstaklingar verið handteknir á grundvelli laganna, þar af þrír undir 18 ára aldri og 64 hafa verið ákærðir. Sumir standa frammi fyrir lífstíðarfangelsi.

Alsír

Verjum réttinn til að mótmæla

Alsírsk stjórnvöld nýta sér kórónuveirufaraldurinn til að herja á aðgerðasinna, fangelsa stjórnarandstæðinga og þagga niður í fjölmiðlum. Það verður að leysa úr haldi alla einstaklinga sem er haldið fyrir það eitt að nýta sér rétt til tjáningar og friðsamlegra mótmæla. Það verður einnig að fella niður ákærur á hendur þeim. Skrifaðu undir ákall Amnesty International til verndar tjáningarfrelsinu í Alsír og krefstu þess að alsírsk stjórnvöld stöðvi varðhöld að geðþótta á Hirak-mómælendum og leysi friðsamlega mótmælendur tafarlaust úr haldi án skilyrða.

Danmörk

Ekki senda flóttafólk aftur til Sýrlands

Dönsk yfirvöld staðhæfa að höfuðborgin Damaskus og nágrenni hennar séu örugg svæði í Sýrlandi. Þrátt fyrir að loftárásir og átök séu hætt á sumum svæðum, vofir enn hætta yfir þar sem sannanir eru fyrir því að pyndingar, þvinguð mannshvörf og varðhaldsvist eigi sér enn stað í landinu. Dönskum yfirvöldum er skylt að vernda sýrlenskt flóttafólk og verða að hætta við endursendingar flóttafólks til Sýrlands. Sýrlenska flóttafólkið flúði til Danmerkur til að forðast átök og ofsóknir. Það er ótækt að því sé skipað að snúa aftur í hættuna sem það flúði. Sýrlenska flóttafólkið þarf á vernd að halda. Þrýstu á utanríkisráðherra Danmerkur, Mathias Tesfaye, um að snúa við ákvörðunum um endursendingar sýrlensks flóttafólks og endurnýja landvistarleyfi þeirra.

Hvíta-Rússland

Raman Pratasevich og Sofia Sapega handtekin af öryggissveit Hvíta-Rússlands

Raman Pratasevich, blaðamaður á flótta sem hefur gagnrýnt ríkisstjórnina, var handtekinn án dóms og laga 23. maí af stjórnvöldum í Hvíta-Rússlandi ásamt maka sínum Sofiu Sapega. Þau voru í flugi frá Aþenu til Vilníus þegar vélinni var beint í aðra átt og gert að lenda í Minsk.  Raman Pratasevich var eftirlýstur vegna „hryðjuverka“ fyrir vinnu sína sem blaðamaður. Ef dæmdur sekur getur hann átt yfir höfði sér 20 ára fangelsisvist.  Krefstu þess að Raman og Sofia verði leyst úr haldi skilyrðislaust og án tafa og að gripið verði til aðgerða til að stöðva illa meðferð þeirra.