Fólk á flótta

Í verk­efninu setja nemendur sig í spor fólks á flótta og velta fyrir sér muninum á nauð­synjum og munaði.

Markmið

 • Að nemendur finni til samkenndar með flótta­fólki og því sem það þarf að þola
 • Að nemendur öðlist skilning á og geti greint muninn á nauð­synjum og munaði

Undirbúningur

 • Plakat og tússpenni fyrir hvern hóp

Framkvæmd

 1. Nemendum er skipt í fimm til sex manna hópa og fær hver hópur úthlutað hlut­verki (sjá hlut­verkalista). Útskýrt er fyrir nemendum að hóparnir þurfi að setja sig í spor einstak­linga eða fjöl­skyldu með því að hugsa og taka ákvarð­anir í takt við hlut­verkin.
 2. Allir hópar fá úthlutað plakati og tússpennum og merkja plakatið með sínu hlut­verki. Næst er eftir­far­andi atburðarás lesin upp:

  Þú/fjöl­skyldan þín neyðist til að yfir­gefa heima­landið þegar í stað. Það er enginn tími til að kveðja vini eða fjöl­skyldu. Heyrst hefur að lögreglan sé á leið­inni til að hand­taka þig/fjöl­skyldu þína. Hvert þú ferð/fjöl­skyldan fer og hversu lengi það mun taka að komast þangað er algjör­lega óljóst. Þú/fjöl­skyldan hefur fimm mínútur til að pakka 30 hlutum til að taka með. Hvað tekur þú/fjöl­skylda þín með?

 3.  Eftir að fimm mínútur eru liðnar eru hóparnir beðnir um athygli á ný og eftir­far­andi atburðarás er lesin upp:

  Þér/fjöl­skyldu þinni hefur tekist að flýja undan stjórn­völdum. Þú ert/fjöl­skyldan er komin/n/ð að landa­mærum þar sem smygl­arar hafa fallist á að flytja þig/ykkur yfir landa­mærin tilná­granna­lands. En plássið er lítið og þú þarft/þið þurfið að skilja tíu hluti eftir. Þið hafið sjö mínútur til að ákveða hvað fer með og hvað er skilið eftir.

  4. Eftir sjö mínútur eru hóparnir beðnir að deila með öllum hvaða hluti þeir hafa ákveðið að skilja eftir við landa­mærin og hvers vegna. Nemendur er síðan spurðir hvernig þeim leið á meðan æfing­unni stóð. Var hún erfið? Af hverju, af hverju ekki?

  5. Næst er eftir­far­andi atburðarás lesin upp:

  Þú hefur/þið hafið komist yfir landa­mærin til nágranna­lands en smygl­ar­arnir geta ekki ferðast lengra með ykkur. Þú þarft/fjöl­skyldan þarf að ganga 200 kíló­metra í gegnum vara­samt land­svæði til að komast til næsta þorps. Þú munt/þið munið aðeins lifa ferða­lagið af ef þið fylgið eftir­far­andi reglum: Full­orðnir og unglingar (>13) geta aðeins borið þrjá hluti, börn á aldr­inum fimm til 13 ára geta aðeins borið tvo hluti, börn undir fimm ára aldri geta ekkert borið, afar og ömmur yfir 55 ára aldri geta borið einn hlut. Þú hefur/þið hafið tíu mínútur til að ákveða hversu marga hluti þú/fjöl­skyldan getur borið og hvaða hlutir verða skildir eftir.

  6. Eftir að tíu mínútur eru liðnar eru hóparnir beðnir að deila með öllum hversu marga hluti þeir gátu borið og hvað ákveðið var að skilja eftir. Hóparnir eru beðnir að meta það hvernig þeirra fjöl­skylda er saman­sett og hvernig getan til að bera hluti hefur þar af leið­andi áhrif á líkurnar til að lifa af það ferðalag sem framundan er. Hugmyndin er að auka skilning þeirra á mismun­andi aðstæðum fólks. T.d. getur einstæð móðir með barn aðeins borið fjóra hluti.

  7. Að lokum er eftir­far­andi atburðarás lesin upp:

  Þú/fjöl­skyldan hefur komist alla leið til næsta þorps. Þar er bátur sem getur flutt þig/ykkur til öruggs lands. En það eru margir sem vilja komast að og þú/fjöl­skyldan getur aðeins tekið fimm hluti með í sjóferðina. Ef þú ert þegar með fimm eða færri hluti þá geturðu aðeins tekið þá með þér – ekkert meira. Báturinn heldur úr höfn eftir tvær mínútur. Hvað tekur þú/fjöl­skyldan með?

  8. Að tveimur mínútum liðnum fara hóparnir yfir með öllum bekknum hvaða hluti þeir tóku með
  sér í bátinn.

Ígrundun

Eftir æfinguna er mikil­vægt að ræða með öllum hópnum hvernig nemendum leið á meðan æfing­unni stóð. Hvernig tók hópurinn ákvarð­anir? Var það erfitt? Nemendur eru beðnir að líta aftur yfir uppruna­lega listann með hlut­unum 30. Geta nemendur greint á milli hvaða hlutir eru nauð­syn­legir og hvaða hlutir eru munaður? Ræðið í hópum eða allur bekk­urinn saman. Hér er hægt að deila með nemendum töflu með þeim hlutum sem er nauð­syn­legt að hafa með sér. Kennari þarf að gæta þess að leið­rétta þær rang­færslur sem geta komið upp í umræðum nemenda. Einnig er gott að gefa leiknum líf með því að vísa í raun­veruleg dæmi um fólk á flótta.

Lengd 40-60 mínútur Aldur 13-16 ára