Gerandi, þolandi, áhorfandi, verjandi

Í æfing­unni setja nemendur sig í mismun­andi hlut­verk og deila reynslu sinni af mann­rétt­inda­brotum.

Markmið

  • Að nemendur geti sett sig í spor annarra og öðlist meiri skilning á rétt­indum fólks
  • Að kveikja áhuga nemenda á mann­rétt­inda­málum með því að tengja þau við þeirra eigin lífs­reynslu
  • Að nemendur fái þjálfun í að hlusta þegar aðrir tala sem og fái þjálfun í að tjá hugs­anir sínar og tilfinn­ingar á skipu­legan, skýran og viðeig­andi hátt

Undirbúningur

  • Eintak af töflu fyrir hvern hóp

Framkvæmd

1. Nemendum er skipt í litla hópa og hver hópur fær eintak af útprent­aðri töflu .
2. Nemendur eru beðnir að deila reynslu sinni af atvikum þar sem mann­rétt­inda­brot voru framin:

  • Eitt skipti þegar nemandi stóð hjá og gerði ekkert
  • Eitt skipti þegar nemandi braut á rétt­indum einhvers
  • Eitt skipti þegar rétt­indi nemandans sjálfs voru brotin
  • Eitt skipti þegar brotið var á rétt­indum einhvers og nemandinn greip til aðgerða/varði viðkom­andi

Ígrundun

Líklegt er að nemendum liggi mikið á hjarta og vilji deila ýmsum sögum. Gott er að taka ígrundun með öllum bekknum í lokin. Nemendur eru beðnir að deila sögum með öllum bekknum og síðan er hægt að ræða málin í heild. Tilvalið er að spyrja nemendur eftir­far­andi spurn­inga:

  1. Hvernig leið ykkur í þessari æfingu?
  2. Öðluðust þið betri skilning á mann­rétt­inda­brotum með því að deila ykkar eigin reynslu og hlusta á reynslu annarra?

Gagn­legt er að leggja áherslu á að við finnum okkur í öllum fjórum hlut­verk­unum einhvern tímann á lífs­leið­inni og eflaust oftar en við gerum okkur grein fyrir.

Í lokin er gott að spyrja nemendur hvaða eigin­leika sá sem grípur til aðgerða, ver og verndar rétt­indi annarra þarf að búa yfir. Hægt er að safna svör­unum upp á töflu eða bæta við verk­efnið og fá nemendur til að útbúa plaköt til að hengja upp í skóla­stof­unni. Slík plaköt gætu gert nemendur meðvit­aðri og hvatt þá til að grípa til aðgerða næst þegar þeir verða vitni að mann­rétt­inda­brotum.

Lengd 30 mínútur Aldur Allir aldurshópar